21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3020 í B-deild Alþingistíðinda. (2620)

107. mál, gjaldskrársvæði Pósts- og símamálastofnunar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hér er lagt til að haldið sé áfram á þeirri braut að jafna símakostnaðinn í landinu. Ég geri mér aftur á móti ekki fullkomlega grein fyrir því samkv. þessari till. hversu stórt skref er verið að stíga og mér er ekki ljóst t.d. hvar athafna- og viðskiptasvæði greinast að fullu innan hvers kjördæmis.

Ég vil vekja athygli á því að t.d. á Vestfjörðum er einn fræðslustjóri og umdæmisstjóri fyrir Vegagerðina er á einum stað. Bankaútibú ná yfir misstór svæði og má t.d. um deila hvar séu endamörk eðlilegs viðskipta­svæðis. Við getum tekið sem dæmi Búnaðarbankann á Hólmavík. Hann er eina útibú Búnaðarbankans á Vestfjörðum. Hvar endar það viðskiptasvæði sem eðli­legt er að hann skipti sér af ef við göngum út frá sérgreiningu bankanna, þ.e. að einn banki eigi að skipta sér af landbúnaði fremur en annar?

Mín skoðun var sú, að næsta skref yrði að vera jafnt gjald innan hvers svæðisnúmers og þá er eitt skref eftir: eitt gjald á Íslandi.

Eins og allir vita var í upphafi farið í að ákveða gjald Pósts og síma eftir vegalengdum, þ.e. byggt var á því hve langar símalínurnar þyrftu að vera. Um leið og fyrst og fremst er orðið loftsamband á milli svæða, eins og það er að verða þvert yfir Breiðafjörðinn, milli Akur­eyrar og Reykjavíkur, hljóta forsendurnar fyrir því að mæla símalínurnar eftir hinum gömlu stæðum að vera brostnar. Mér sýnist að eðlilegt sé að þannig sé að málum staðið að við stefnum næst á að fá sama gjald innan hvers svæðisnúmers.

Ég stend hér upp og ræði þetta á þeirri forsendu að mér þætti vænt um ef flm. gerðu grein fyrir því ef þeirra hugmyndir um túlkun á athafna- og viðskiptasvæðum eru á annan veg en þarna er verið að tala um og vildi þá gjarnan vita á hvern veg.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri að sinni.