21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3020 í B-deild Alþingistíðinda. (2621)

107. mál, gjaldskrársvæði Pósts- og símamálastofnunar

Flm. (Davíð Aðalsteinsson):

Herra forseti. Svo sem vænta mátti eru undirtektir fremur jákvæðar undir till. En það má kannske segja að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hafi haft fram að færa athugasemdir. Efnis­lega voru þær á þá lund að hér væri of skammt gengið.

Nú kom fram í umr. að einn hv. flm. þessarar till., Stefán Valgeirsson, greindi skilmerkilega frá því að með þessum tillöguflutningi væri ætlunin að ýta á að tekið væri ákveðið skref. Lögin standa auðvitað fyrir sínu, en hitt er staðreynd, að ekki hefur tekist að framkvæma, eins og ég gat um áðan, 11. gr. laga um stjórn og starfrækslu póst- og símamála.

Ég vil taka það fram að ekki mundi ég hafa við það að athuga þótt hv. allshn. hagræddi þessari till. á þann veg að þar yrði svo mælt fyrir á hinu háa Alþingi að 11. gr. laga um stjórn og starfrækslu póst- og símamála skyldi koma til framkvæmda að fullu. Ég yrði síðasti maður til að hafa á móti því. Hér er spurningin um að leggja til hið mögulega og ná því fram. Í mínum huga er það fyrst og fremst markmiðið. Við setjum e.t.v. of oft markið of hátt, þó að í því felist að sjálfsögðu mikill manndómur að gera það, en stundum verðum við að láta okkur nægja skemmri skrefin.

Ég vil taka fram að þær ráðstafanir sem þessi till. felur í sér eru samkv. umsögn tæknimanna alls ekki af því tagi að úr verði lykkja á leiðinni að víðtækari gjaldskrárjöfnuði. Það er ekki um það að ræða.

Ég hef ekki þá þekkingu þó ég hafi í gamla daga lesið landafræði Bjarna Sæmundssonar — ég veit að hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson hefur gert það líka og kannske aðrar landafræðibækur — að ég geti skilgreint í smá­atriðum athafna- og viðskiptasvæði eða hvernig á að flokka þau nákvæmlega niður.

En það er eitt svæði sem við Ólafur þekkjum nú nokkuð vel báðir. Það er hluti Vesturlandskjördæmis. Ég hygg að hann sé nokkuð sammála mér í því að athafnalega og viðskiptalega skiptist það kjördæmi í þrjá eða fjóra hluta. Ef hann hugleiðir þetta hygg ég að hann sé mér sammála, enda þótt hann viti jafnvel og ég að skiptingunni sem ég er hér að segja frá og hann hefur í huga sér, hefur í sumum tilvikum ekki verið fylgt, og fer ég ekki lengra út í það.

Ég vil endurtaka að sú skipting sem gerð er till. um í grg. er síður en svo í huga okkar flm. endanleg. Að sjálfsögðu verður þetta að meginhluta til í höndum Póst- og símamálastofnunarinnar, það segir sig sjálft. En tilgangur með tillöguflutningum er fyrst og fremst sá, að Alþingi ýti með þessum hætti á að þarna verði tekið spor að settu marki, gjaldskrársvæðin verði stækkuð.