21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3021 í B-deild Alþingistíðinda. (2622)

107. mál, gjaldskrársvæði Pósts- og símamálastofnunar

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég get fallist á það með seinasta ræðumanni að hið mögulega er að sjálfsögðu það sem við stefnum að og þurfum að ná fram. Hins vegar tel ég að það þurfi að ganga svo greinilega frá orðalagi á till. sem þessari að það liggi nokkuð ljóst fyrir hvað átt er við.

Á Vesturlandi nær viðskiptasvið Kaupfélags Borg­firðinga frá Ólafsvík að Akranesi að báðum stöðum meðtöldum, ef ég man þetta rétt, þ.e. ef ekki er búið að stofna sjálfstætt kaupfélag í Ólafsvík, en þá er spurning hvort gjaldskrá Pósts og síma á að breytast vegna þess að stofnað hafi verið þar sjálfstætt kaupfé­lag. Sú sama spurning mundi þá vakna einnig sé lítið á Vestfirðina, að þetta mundi rekast allharkalega á, og spurning hvort hægt sé yfir höfuð að ganga út frá slíkri skiptingu því að viðskiptalega séð skiptast þeir í mjög mörg lítil og fámenn svæði.

Þegar ég vakti áðan máls á því hvað ég teldi eðlilegt næsta skref minnist ég þess að þegar við ræddum þessi mál allítarlega á sínum tíma innan fjórðungssamband­anna, og það voru sérstakir fundir haldnir með fram­kvæmdastjórum fjórðungssambandanna og formönnum þeirra og við tókum símamálin fyrir, þá var þeim ráðum ráðið að það skyldi stefnt að því að fyrst yrðu hnút­stöðvarnar sameinaðar, síðan svæðisnúmerin og að það yrði farið í að greiða fyrir hvert símtal með sérstöku skrefagjaldi sem seinna átti svo eftir að verða að veruleika til að tryggja að tekjur Pósts og síma yrðu nægilega miklar fyrir stofnunina þó að þessi breyting yrði framkvæmd.

Ég tel þess vegna að það hljóti að vera atriði sem hvert svæði horfir mjög grannt á hvort það verði um sambærilega þróun innan þess að ræða miðað við önnur svæði þegar ákvarðanir eru teknar eins og þessar. Ég tel að það hljóti að vera næsta skrefið að miðað verði við sama gjald innan hvers svæðisnúmers og ég undirstrika að ég tel að skrefagjaldið, sem byggðist á línunum, geti ekki verið grundvöllur fyrir viðmiðun í framtíðinni eins og það hefur verið til þessa.