21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3022 í B-deild Alþingistíðinda. (2627)

194. mál, sameiginleg hagsmunamál Grænlendinga og Íslendinga

Frsm. (Ólafur Jóhannesson):

Herra forseti. Utanrmn. hefur fjallað um þá þáltill. sem hér liggur fyrir til umr. og skilar um hana áliti á þskj. 368. Leggur nefndin einróma til að þessi till. verði samþykkt.

Um þessa þáltill. þarf naumast að fjölyrða. Efni hennar er skýrt og hún er sjálfsögð. Stjórnvöld mundu vafalaust vinna að því markmiði sem þar greinir þó engin Alþingissamþykkt væri gerð. En það er í alla staði eðlilegt að Alþingi lýsi vilja sínum í þessu efni. Með samhljóða samþykki Alþingis er lögð mikil áhersla á mikilvægi þessa máls og hér er sannarlega um mikilvægt málefni að tefla fyrir Íslendinga og Grænlendinga og aðrar þær þjóðir sem hlut eiga að máli skv. þessari þáltill.

Ekki þarf að rökstyðja það mörgum orðum að bæði Íslendingar og Grænlendingar eiga efnahagslega af­komu að mjög miklu leyti undir sjávarafla. Skynsamleg nýting fiskimiða og skynsamleg verndun fiskistofna er báðum þjóðum nauðsynleg. Oft er ekki nægilegt að ein þjóð setji skynsamlegar reglur um þessi efni innan sinna fiskveiðimarka. Fiskur heldur sig vissulega á tilteknum miðum og gengur eftir tilteknum fiskislóðum en hann heldur samt ekki kyrru fyrir og færir sig gjarnan úr stað og heldur sig ekki eingöngu innan tiltekinna fiskveiði­marka einnar þjóðar og lætur fiskveiðimörk ekki hefta sína för, ef svo ber undir.

Ég ætla ekki að fara að ræða um hegðunarmynstur hinna ýmsu fiskitegunda en hvort sem sagt er meira eða minna um það er ljóst að skynsamleg og skilvirk verndun fiskistofna verður oft að byggjast á samvinnu á milli þjóða sem eiga samliggjandi veiðisvæði eða göngu­svæði. Að slíkri samvinnu er stefnt með þessari till. Með samþykkt þessarar till. ályktar Alþingi að fela ríkisstj. að kanna til fullnustu möguleika á samkomulagi við Grænlendinga um sameiginleg hagsmunamál, sér­staklega að því er snertir verndun fiskistofna og fisk­veiðar og leita jafnframt nánari samvinnu þeirra ríkja, sem liggja að fiskimiðunum norðarlega í Atlantshafi, um verndun og nýtingu fiskistofna og önnur sameigin­leg hagsmunamál.

Þegar hér er talað um að kanna til fullnustu er byggt á því, sem rétt er, að af íslenskum stjórnvöldum hefur nokkuð verið unnið í þessa átt að undanförnu þó að enn hafi eigi náðst sá árangur sem að var stefnt.

Í till. er við það miðað að leitað sé eftir viðræðum og samkomulagi við vina- og grannþjóðir á gagnkvæmnis- og jafnréttisgrundvelli. Af sameiginlegum hagsmunamálum er sérstök áhersla lögð á fiskveiði- og fiskverndarmál svo sem eðlilegt er. Þar er þörfin á samvinnu brýnust og það sýnist ekki leika á tveim tungum að um sameiginleg hagsmunamál sé að tefla. En vitaskuld verður það hvert ríki sem ákveður hvort mál er sameiginlegt hagsmunamál eða ekki.

Grænlendingar eru hér sérstaklega nefndir. Er það af gefnu tilefni svo sem alkunna er. Aðrar þjóðir sækjast mjög eftir veiðileyfum innan fiskveiðimarka Grænlend­inga þegar þeir ganga úr Efnahagsbandalaginu. Ég ætla að við höfum fullan skilning á vandamálum Grænlend­inga. Ég geri ráð fyrir því að okkur sé ljós sú nauðsyn sem á því er fyrir þá að fá tollfrjálsan aðgang að Efnahagsbandalagssvæðinu. Nú hafa fregnir borist um að samkomulag hafi orðið á milli Efnahagsbandalagsins og Grænlendinga um fiskveiðiheimildir Efnahags­bandalagsþjóða næstu fimm árin á fiskimiðum Grænlendinga.

Ég ætla ekki að gera það samkomulag að umræðuefni hér enda er ekki enn svo nákvæmlega um það vitað. En það er nokkuð augljóst mál að þetta samkomulag hlýtur að vera nokkurt áhyggjuefni fyrir okkur Íslendinga. Þó fer það að sjálfsögðu nokkuð eftir því hvernig fram­kvæmdin verður, hvort t.d. það eru Grænlendingar sem hafa forræði á þessum málum eftir sem áður, þ.e. hafa með stjórn fiskveiðanna að gera, setja reglur um þær o.s.frv. Það á að sjálfsögðu eftir að skýrast. En það getur farið eftir því hvernig framkvæmdin verður hversu nærri Íslendingar telja gengið sínum hags­munum.

En hvað sem um það er dregur það síður en svo úr nauðsyn þess að þáltill. verði samþykkt. En það er nokkuð auðsætt að ef eitt ríki, eitt land, hleypir stórum fiskveiðiflota annarra þjóða inn á sitt yfirráðasvæði getur sú ákvörðun reynst örlagarík fyrir nágranna. En um þetta ætla ég ekki að ræða hér frekar að sinni. Rétt er að bíða þess að þetta skýrist nánar.

Þetta mál er ekki einskorðað við Grænlendinga. Eins og í till. segir á að leita samvinnu við aðrar þær þjóðir sem liggja að fiskimiðum norðarlega í Atlantshafi um verndun og nýtingu fiskistofna og um önnur hagsmunamál.

Herra forseti. Ég held að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um þetta mál en ég endurtek að utanrmn. mælir einróma með því að till. verði samþykkt.