21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3027 í B-deild Alþingistíðinda. (2629)

194. mál, sameiginleg hagsmunamál Grænlendinga og Íslendinga

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Frá því að nál. á þskj. 368 var dreift og þar til nál. var nú tekið fyrir hafa orðið ein verstu tíðindi sem við Íslendingar höfum fengið um margra ára skeið. Það eru þau tíðindi, sem hæstv. forsrh. hefur nú staðfest, að nágrannaríki okkar hafi gert samkomulag við forna fjendur okkar í veiðum á Íslandsmiðum um talsvert miklar veiðar á fiski á næstu veiðislóð við auðugustu fiskimið Íslendinga.

Við þekkjum það af reynslunni, Íslendingar, að það er lítill áhugi hjá fjarlægum þjóðum að varðveita fiskistofna í fiskimiðum sem liggja þeim mjög fjarri. Við þekkjum líka af reynslunni hvað við höfum þurft að leggja á okkur til þess að fá þessar þjóðir til að fallast á að flytja sig burtu frá okkar náttúruauðlind sem allt íslenskt efnahagslíf byggir á. Ég vil aðeins benda á að aðstaða Grænlendinga til þess að fylgjast með veiðum erlendra fiskiskipa og löndunum þeirra í erlendum höfnum, aðstaða þeirra til vísindalegra rannsókna og aðstaða þeirra til landhelgisgæslu er mun verri en okkar Íslendinga og þó höfum við þráfalt kvartað undan því að hafa ekki, á þeim árum sem við áttum í deilum við erlendar þjóðir um fiskveiðar á Íslandsmiðum, haft nægilega aðstöðu, hvorki til að fylgjast með löndunum þeirra í erlendum höfnum til þess að gæta landhelgi okkar nægilega vel né til þess að styðja okkar mál nægilega haldbærum, vísindalegum rökum. Ef okkar aðstaða hefur verið slæm í því sambandi hvernig halda menn að aðstæður Grænlendinga séu?

Ég vil láta í ljós mikla óánægju með að þessi vinaþjóð okkar og næstu nágranna skuli hafa gert þetta sam­komulag án þess svo mikið sem að orða það mál við okkur vegna þess að við Íslendingar höfum ávallt verið reiðubúnir til að greiða fyrir Grænlendingum og græn­lenskum fiskveiðum eins og við höfum framast mátt. Dæmi um það nefndi hæstv. forsrh. hér áðan þegar Íslendingar samþykktu að heimila grænlenskum rækju­veiðitogurum að landa afla sínum í vestfirskum höfnum en sú heimild af hálfu íslenskra stjórnvalda hefur til allrar blessunar orðið til þess að þessi fátæka þjóð hefur getað nýtt sín auðugu rækjuveiðimið sem,hún hefði ekki getað ella. Þetta höfum við Íslendingar gert án þess að krefjast neinnar greiðslu fyrir og hefur verið sjálfsögð og eðlileg athöfn af okkar hálfu þannig að ég harma mjög að Grænlendingar skuli hafa gert svona sam­komulag við gamla fjendur á Íslandsmiðum án þess að ræða málið við okkur.

Í þessu sambandi vil ég aðeins vekja athygli manna á því að um þessar mundir eru fiskifræðingar að vonast eftir að e.t.v. sé á leiðinni þorskganga frá Grænlandi á íslensk fiskimið sem e.t.v. gæti gert okkur mögulegt að afla nokkurs meiri fiskjar á vetrarvertíð í ár en líkur bentu til. Ekki þarf að fara mörgum orðum um hvaða líkur væru á slíku þegar stór fiskveiðifloti frá Vestur-­Þjóðverjum og öðrum Efnahagsbandalagsþjóðum væri kominn í næsta nágrenni við auðugustu fiskimiðin á Íslandi.

Herra forseti. Það lítur út fyrir að strax í upphafi ársins 1985 muni floti ríkja Efnahagsbandalagsins halda til veiða í næsta nágrenni við auðugustu fiskimið Íslands. Eins og sakir standa er landhelgisgæsla okkar þannig búin að hv. Alþingi hefur ekki heimilað fjár­veitingar til gæslunnar nema sem svarar til 33 mánaða úthalds þess flota sem gæslan hefur. Þetta samsvarar ekki því einu sinni, herra forseti, að hægt sé að halda tveimur skipum gæslunnar úti í senn. Ákveðinn hluta ársins er aðeins hægt að halda úti einu skipi Landhelgis­gæslunnar en tvö skipanna verða þá bundin í höfn. Að áliti forstöðumanna Landhelgisgæslunnar munu þessi nýju tíðindi, að floti frá Efnahagsbandalaginu skuli væntanlegur á Grænlandsmið frá og með næstu ára­mótum, krefjast þess að eitt varðskip gæslunnar sé þar jafnan bundið á meðan hinar erlendu þjóðir stunda veiðar sínar á Grænlandsmiðum til þess að líta eftir því að fiskiskip frá þeim fari ekki yfir miðlínu til veiða á íslenskum fiskimiðum undan Vestfjörðum. Þetta þýðir að áliti forráðamanna gæslunnar, að ef ekki verður breyting á afgreiðslum Alþingis til Landhelgisgæslunnar mun verða svo verulegan hluta úr næsta ári að aðeins eitt varðskip getur haldist úti á miðunum undan Vest­fjörðum sem varnaðaraðgerð gegn flota erlendra þjóða, sem eru að veiðum hinu megin við miðlínu. En ekkert skip Landhelgisgæslunnar verður tiltækt á öðrum fiski­slóðum við landið og ekkert skip tiltækt hluta úr árinu til neyðarstarfa.

Ég vil aðeins rifja upp, herra forseti, að á þingi árið 1980 var samþykkt svofelld till. til þál., með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skipa nefnd til þess að kanna hversu mikla og hvers konar gæslu 200 mílna efnahags- og mengunarlögsagan útheimtir og hvernig Íslendingar eru í stakk búnir til þess að gegna því hlutverki á viðunandi hátt. Hver þingflokkur nefnir einn fulltrúa í nefndina en dómsmrh. skipar að auki formann.“

Þessi till. var samþykkt á Alþingi veturinn 1980– 1981 og svona nefnd kjörin. Hún hefur starfað síðan en ekki skilað neinum till. enn. Nú er bráðnauðsynlegt að kallað sé eftir skilum á till. frá þessari nefnd því fyrirsjáanlegt er, eins og mál standa, að við horfumst í augu við stóralvarlega afburði í okkar efnahagslífi sem gætu orðið ef Landhelgisgæslan verður ekki efld til mikilla muna.

Það verkefni blasir því við Alþingi Íslendinga, fjár­veitingarvaldi og stjórnvöldum að búa sig undir að takast á við mjög auknar fjárþarfir og rekstrarfjárþarfir Landhelgisgæslunnar. Ég vil skora á hæstv. ríkisstj., forseta Alþingis og nefndarmenn í umræddri nefnd að sjá til þess að nefndin ljúki sem fyrst störfum þannig að hægt verði að hefjast handa við að undirbúa Landhelg­isgæslu Íslands undir það sem líklegt er að kunni að gerast eða geti gerst frá og með næstkomandi ára­mótum þegar samningur Efnahagsbandalagsins og Grænlendinga gengur í gildi svo við megum eiga von á því að fá fiskveiðiflota frá fjarlægum þjóðum aftur til veiða í næsta nágrenni við auðugustu fiskimið Íslend­inga.