21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3028 í B-deild Alþingistíðinda. (2630)

194. mál, sameiginleg hagsmunamál Grænlendinga og Íslendinga

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Mig langar í upphafi máls míns til að færa hv. formanni utanrmn. og framsögumanni þakkir fyrir þau rökföstu alvöruorð sem hann flutti og veit ég að hann talar þar fyrir munn flm. allra. Auðvitað erum við öll sammála í þessu máli og kannske þess vegna ekki nauðsynlegt að halda hér uppi löngum umr. En þó hygg ég að gott sé að allnokkrir taki hér til máls og skýri sjónarmið sín og vafalaust kemur eitthvað nýtt fram í máli hvers ein­staks. Ég leyfi mér líka að þakka hæstv. forsrh. fyrir þær upplýsingar sem hann hefur gefið og hæstv. utanrrh. fyrir upplýsingar sem hann hefur gefið í utanrmn. um það sem stjórnvöld hafa aðhafst í þessu máli þó að svo hafi farið, sem ljóst er, að alvarlegar horfir um þessi mál öll en okkur óraði fyrir þegar málið kom fram.

Það má vera að við höfum ekki gætt þess nægilega að brýna fyrir nágrönnum okkar Grænlendingum hvað mikið væri í húfi frá okkar sjónarmiði og hvað við gætum lagt af mörkum til þess að auðvelda þeim þau spor sem þeir nú stíga í átt til frelsis síns, en þá ætla ég engan einstakan að saka, nema þá kannske sjálfan mig.

Ég játa að ég gerði mér enga grein fyrir því til skamms tíma að svo gæti farið að gömlu nýlenduveldin mundu bjóða fégjald til þess að hagnýta auðlindir ríkis sem er að feta sig áfram til sjálfstæðis. Ég hélt að þetta mundi ekki gerast. Ég hélt að Grænlendingar mundu fá fullan aðgang að mörkuðum Efnahagsbandalagsins sem aukaaðilar án þess að þurfa í leiðinni að afsala sér fiskveiðiréttindum sínum. Maður átti kannski að hugsa sem svo að það væri kannske meiri hætta á ferðum ef boðið væri fé. Það er ekki ólöglegt skv. hafréttarreglum að selja veiðileyfi og það er því engin ástæða til þess að ásaka Grænlendinga. Þeir eru auðvitað í fjárhagslegum vandræðum. En ég hélt samt ekki að þær þjóðir, sem hafa státað af því að hafa hjálpað fyrri nýlendum sínum til að komast áfram efnahagslega og hafa sumar hverjar stutt þær vel og veitt þeim aðgang að mörkuðum sínum, mundu gera það sem nú hefur gerst.

Þess vegna er allt rétt sem hér hefur verið sagt um þá alvöru sem á ferðum er og einnig hvaða ráðstafanir hugsanlegt er að gera af okkar hálfu. Hefur þar verið minnst á t.d. að við mundum veita Grænlendingum einhver frekari réttindi til löndunar hér á landi en þeir nú þegar hafa og þeim þá kannski einum þjóða, að við mundum hjálpa þeim til að þjálfa væntanlega fiskimenn sína hér á landi og jafnvel sjá þeim að einhverju leyti fyrir fiskiskipum. Sagt er að við höfum nú of mikið af þeim og mér er það ekkert launungarmál að ég mundi vilja leggja töluverða fjárhagsbagga á íslensku þjóðina til þess að afstýra því að svo fari að þessi fiskimið við Grænland og sameiginlegir stofnar okkar og þeirra verði meira og minna eyðilagðir, því að mér segir svo hugur um að þessar fjarlægu þjóðir muni reyna að ná öllum þeim afla sem þær geta og þar verði hvorki hlíft ungviði né að takmarkaðar verði veiðarnar nákvæmlega við það sem heitið er, nema þá að eftirlit verði strangara en á horfist eins og nú háttar.

Þessi mál öll eigum við auðvitað að ræða við ná­grannaþjóð okkar og það er nú þegar gert. Ég vildi ganga lengra. Ég held að ekki væri óeðlilegt að tekin yrði upp einhvers konar sameiginleg landhelgisgæsla, ekki bara Íslendinga og Grænlendinga heldur kannske líka Færeyinga. Landhelgisgæsla okkar og annarra þjóða er að líta bæði eftir innlendum skipum og erlendum og því skyldi ekki verða samvinna þar á milli? Ég teldi sérstaklega nauðsynlegt að við stunduðum landhelgisgæslu á miðunum við Jan Mayen því öll þau mið eigum við að samnýta. Við eigum þau með Norðmönnum og við eigum auðvitað að sýna þann rétt okkar með því að taka þátt í því að verja þau fiskimið með Norðmönnum, sameigendum okkar að þessum auðæfum.

En það sem er kannske aðalatriðið — og þess vegna fyrst og fremst kvaddi ég mér hljóðs, auk þess sem ég vildi þakka fyrir þau orð sem hér hafa verið mælt — er að það er beinlínis skylt af okkar hálfu og líka af Græn­lendinga hálfu að hafa mjög náið samstarf í tilfelli sem því sem hér um ræðir. Hafréttarsáttmálinn gengur allur út á það að þjóðirnar eigi að hafa samstarf, ekki einungis til að leysa deilumál heldur líka til að vernda auðæfi. Um þetta er fjallað t.d. í kaflanum um réttindin innan efnahagslögsögunnar í 5. kafla Hafrétt­arsáttmálans. Þar er einkum um að ræða greinar 61 og 62, en þó einkum 63 þar sem segir berum orðum að þar sem fisktegundir gangi á milli efnahagslögsögu tveggja eða fleiri ríkja eigi þær og skuli þær annaðhvort beint eða fyrir milligöngu svæðastofnana sjá um að nauðsyn­legar ráðstafanir séu gerðar til að vernda fiskstofna og sjá um eðlilega þróun og nýtingu.

Það er sem sagt skylda okkar Íslendinga, sem við kannske höfum vanrækt, að hafa slíkt samstarf við Grænlendinga og aðra nágranna okkar og þar með er það líka skylda þeirra að taka upp slíkt samstarf við okkur. Það er þetta sem við hljótum nú að gera. Það getur ekki öðruvísi farið en að þessu fimm ára tímabili ljúki þannig að þessi ríki Efnahagsbandalagsins hverfi af þessum miðum. Vonandi verða einhver ráð til að fá þau til að hverfa þaðan fyrr. Ég hygg jafnvel að þau úrræði kunni að finnast, ef rétt er að málum staðið, því að ljóst er að þjóðirnar sem eiga fiskimið hér á norðurslóðum — og nefni ég þá, auk okkar Færeyinga, Grænlendinga, Norðmenn og Kanadamenn — munu mynda með sér sterk samtök til að varðveita þessi fiskimið og auðæfi nyrstu hafa í okkar heimshluta. Það samstarf hlýtur að aukast ár frá ári. Nú eigum við að einbeita utanríkisþjónustu okkar og því fjármagni sem nauðsynlegt er að reiða af höndum til þess að tryggja þennan rétt okkar og nágranna okkar um aldur og ævi.