21.02.1984
Sameinað þing: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3040 í B-deild Alþingistíðinda. (2638)

194. mál, sameiginleg hagsmunamál Grænlendinga og Íslendinga

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Ég vil taka undir það með öðrum þm. sem talað hafa í þessari umr. að það er að sjálfsögðu mikilvægt og eðlilegt að Alþingi álykti um að leitað verði samkomulags við Grænlend­inga og aðrar nágrannaþjóðir okkar um sameiginlega hagsmuni er varða fiskistofna og fiskveiðar. Hins vegar hefur umr. þessi snúist nokkuð í það að fjalla um þá atburði, sem gerst hafa og við höfum frétt af nú á síðustu dægrum, að Grænlendingar hafa samið við Efnahagsbandalagið um veiði á tugþús. tonna af þorski og karfa sem hljóta auðvitað að vera okkur mikið áhyggjuefni þegar við erum að berjast við að skipta allt of litlum áætluðum afla á þessu ári á okkar fiskveiði­flota allan.

Þá hafa að sjálfsögðu komið inn í þessar umr. athugasemdir varðandi Landhelgisgæsluna og getu hennar til að þjóna sínu hlutverki. Það var einmitt það atriði í umr. hér á undan sem gerði það að verkum að ég kvaddi mér hljóðs og skal reyna að stytta mál mitt. En í ræðu hv. þm. Sighvats Björgvinssonar kom fram að á þinginu 1980–1981 hafi verið samþykkt þáltill. þar sem kosin var nefnd sem átti að fjalla um starfsemi Land­helgisgæslunnar. Ég á sæti í þeirri nefnd og er reyndar formaður hennar og verð því að gera örlitla athugasemd við það sem hv. þm. sagði, m.a. það að þessi nefnd hefði enga ályktun gert um sitt starf frá þessum tíma. En það er ekki alveg rétt. Nefndin hefur, eins og hann reyndar gat um, verið að störfum allan þennan tíma, við höfum safnað miklum upplýsingum og leitað eftir því hjá ýmsum aðilum, sem eiga hlut að máli og eiga samstarf við gæsluna og eiga mikið undir hennar starfsemi, hvernig þeir vildu helst haga uppbyggingu hennar. Hins vegar sendi nefndin frá sér áfangaskýrslu á haustdögum 1981 en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Nefndinni var ætlað að ljúka störfum áður en þing kæmi saman að hausti. Þótt nefndin hafi þegar starfað mikið og aflað margvíslegra gagna er þess ekki kostur að ljúka störfum hennar fyrir þing. Hins vegar telur nefndin nauðsynlegt að koma á framfæri þessari áfanga­skýrslu, bæði vegna afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1982 svo og til að veita Alþingi nokkrar upplýsingar um núverandi búnað og tækjakost Landhelgisgæslunnar og nýtingu hans.“

Svo fór við fjárlagaafgreiðslu 1982, 1983 og 1984 að menn treystu sér ekki til þess að bæta við fjármagni til starfsemi Landhelgisgæslunnar þannig að hún gæti verulega aukið umsvif sín þrátt fyrir það sem við bentum á og ég hafði hugsað mér að fara lítils háttar í gegnum. En vegna tilmæla forseta ætla ég ekki að gera það til að tefja ekki tíma þó full ástæða hefði verið til. En það er fjármagnið sem ræður langsamlega mestu um það hvernig til tekst við að byggja þessa starfsemi upp. Hins vegar má segjast að sannist málshátturinn „Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott“ því að nefndin hefur ekki enn lokið störfum sínum og getur því á næstunni tekið nokkurt tillit til þeirra nýju viðhorfa sem nú hafa komið upp ef krafa verður gerð til þess og það verður álit fróðustu manna að Landhelgisgæslan þurfi að fylgjast enn betur og enn meira með miðlínu milli Íslands og Grænlands í sínum störfum.

Ég vil í sjálfu sér viðurkenna það og taka það á mig, að verulegum hluta til a.m.k., að störfum nefndar­innar hefur miðað allt of hægt og full ástæða er til að hraða þeim nú. Við vorum reyndar nú fyrir áramótin komnir á það stig að við töldum að við værum búnir að afla og safna öllum þeim upplýsingum sem nauðsyn­legar væru og við gætum nú sest niður til þess að skrifa skýrsluna eða ganga frá endanlegu áliti nefndarinnar. Ég heiti því að við munum reyna að hraða þessum störfum eins og kostur er. Hins vegar tel ég það mikið vafamál hvort það leiði til skjótra úrbóta í málefnum gæslunnar því þar ræður að sjálfsögðu fjármagnið ferðinni eins og ég hef áður getið um.