27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

Umræður utan dagskrár

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég vil nú byrja á því að þakka hæstv. utanrrh. fyrir þau svör sem hann veitti hér áðan, þó mér þyki mjög miður að það skyldi ekki koma fram í þeim mótmæli og fordæming á innrásinni í Grenada. Það var fyllilega ástæða til þess og ég tel að nauðsynlegt sé að það komi fram af hálfu ríkisstj.

Ég verð að segja eins og er að mér líkar nú ekki að öllu leyti orðfæri þeirra Alþb.-manna hér í þessari umr. og ég tel ekki að við þurfum neinn samanburð út og suður til þess að lýsa skoðun okkar á þessu máli. Ég held að menn megi ekki flækja sig í aukaatriðum. Það kom fram í máli hæstv. utanrrh. að það væru út af fyrir sig ýmsar ástæður af hálfu Bandaríkjanna til þess að grípa þarna til aðgerða, sem sagt að ráðast inn í landið. En það er ekki til réttlæting fyrir innrás af þessu tagi. Það er ekki til réttlæting fyrir vopnaðri innrás. Menn geta búið sér til ýmsar skýringar, en þær verða einungis til að flækja málin og ég held að það sé rangt að setja upp ímyndanir eins og hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson gerði hér áðan. Þetta er allt of alvarlegt mál til þess.

Menn eru að gefa í skyn að sumar innrásir séu góðar en aðrar séu slæmar. Það getur ekki verið það lögmál sem á að gilda af hálfu okkar Íslendinga. Innrás er brot á alþjóðalögum, innrás er brot á samþykktum Sameinuðu þjóðanna, innrás er aldrei réttlætanleg. Það mátti jafnvel heyra hér í málflutningi áðan, að það væri næg ástæða fyrir innrás ef til valda kæmust aðilar sem mönnum líkaði ekki við eða kannske að það stjórnkerfi, sem ríkti í landinu, væri mönnum ekki að skapi. Mér líkar ekki við stjórnkerfið í Ausur-Evrópu. Mér líkar ekki við það á Kúbu og ég get haldið áfram að telja. Ég hef verið þeirrar skoðunar að Bandaríkjamönnum og Bandaríkjastjórn líkaði heldur ekki við þetta stjórnkerfi, svo að ég vil benda mönnum á að ef menn ætla að vega málin eftir þessari mælistiku, þá lenda þeir á hálum ís.

Ég tel að sérstök ástæða sé til þess fyrir Íslendinga að mótmæla þessari innrás og fordæma hana vegna þess að Bandaríkjamenn eru bandamenn okkar og við gerum miklar kröfur til þeirra. Eins og ég sagði hér áðan, þykir mér mjög mikið fyrir því að Bandaríkjamenn skyldu grípa til þessa óyndisúrræðis. En ég tel líka enn ríkari ástæðu fyrir Íslendinga til að mótmæla þessu af því að við erum í bandalagi með þessari þjóð.

Ég vil því að lokum beina þeim eindregnu tilmælum til utanrrh. og ríkisstj. að hún mótmæli þessari innrás og fordæmi hana á opinberum vettvangi.