27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

Umræður utan dagskrár

Utanrrh. (Geir Hallgrímsson):

Herra forseti. Menn hafa saknað þess að ég hafi ekki lýst yfir fordæmingu á landgöngu og innrás Bandaríkjamanna og 6 austurkaribískra þjóða í Grenada. Ég tel alls ekki rétt á þessu stigi málsins að fordæma einn þátt töluvert langrar atburðarásar. Ef ég á að fordæma einn þátt þá vil ég fordæma atburðarásina í heild sinni. Tilefni er til þess en ég hygg að enginn okkar sé í stakk búinn til þess nú að taka einn þáttinn úr mjög flókinni atburðarásakeðju út úr og ætla sér að gera hann að aðalatriði.

Ég harma — og svara þar með fsp. síðasta ræðumanns — landgöngu Bandaríkjanna og 6 austur-karibískra ríkja í Grenada. En ég harma líka þau morð sem á undan fóru. Ég harma valdatökuna 1979. Ég harma þau örlög sem smáþjóð, sem býr í Grenada, hefur búið við undanfarin ár undir marxískri ógnarstjórn og nú síðast án þess í raun að hafa nokkra ríkisstjórn og búa við þær aðstæður að herveldi í raun og veru er stjórnandi. Ég varpaði fram þeirri spurningu í minni fyrri ræðu hvort átt hefði sér stað innrás og landganga á undan þeirri sem hér hefur aðallega verið um fjallað. Ég tel það ekki fjarri lagi. Hvers vegna eru þarna 600 Kúbumenn eða fleiri? Og hvernig stendur á því að byggingaverkamenn eru vopnum búnir? Hver sér þeim fyrir þeim vopnum? Nú eru nágrannaríkin flest án hers. Þetta eru smáríki með íbúafjölda á milli 40–120 þús. manns og við þekkjum stöðu svo fámennra ríkja; þau hafa ekki efni á miklum herbúnaði. En fyrir þessu var að einhverju leyti séð í þessu tilviki og því er ekki rétt af okkur að fordæma einn þáttinn án þess að vita samhengi hinna margfl6knu þátta innbyrðis og taka málið fyrir í einni heild.

Ég hlýt að láta það koma fram að þótt við séum í bandalagi með Bandaríkjamönnum þá höfum við ekki velþóknun, síður en svo, á öllum þeirra gerðum. Og við erum alveg tilbúnir til þess að segja þeim til syndanna. En við verðum þá að gera það á réttum forsendum og með réttum rökum og láta þá ekki gjalda þess að vera í bandalagi með okkur heldur fordæma einnig þá sem verr hafa komið fram og meira af sér sýnt sem vert er að fordæma en Bandaríkjamenn nokkurn tíma hafa gert.

Ég vil taka það fram að ríkisstjórnin hefur ekki fjallað um þetta mál og ég tel að það sé ekki rétt að ríkisstj. eða Alþingi fjalli um þetta mál fyrr en frekari gögn eru fram komin og alþm. og ráðherrar hafi tækifæri til þess að kynna sér þróun mála almennt. Við skulum líka hafa samræmi í gerðum okkar sem sjálfstæð þjóð hver sem fer með ríkisstjórn á hverjum tíma. Ég hygg að það séu færri dæmi um það að ríkisstjórn hafi gert sérstaka ályktun í slíkum mátum en þau þar sem slík ályktun hefur verið gerð af hálfu ríkisstjórnar og sömuleiðis jafnvel af hálfu Alþingis.

Við Íslendingar höfum farið vel með okkar sjálfstæði og við höfum farið varlega í það að dæma aðrar þjóðir. Ég tel það út af fyrir sig góða lífsreglu — þó að við eigum að segja hug okkar fullum fetum ef okkur blöskrar eða ofbýður-til þess að hafa áhrif og þá fyrst og fremst á þróun mála í framtíðinni. Og hér er það merkilega við umr. sem fram hafa farið að menn hafa ekki fjallað um aðalatriði þessa máls sem ég þó undirstrikaði bæði í upphafi þeirra fáu orða sem ég sagði hér í fyrri ræðu minni og í lok þeirra. Aðalatriði þessa máls er það að landgöngulið, hverju nafni sem nefnist, hverfi á brott frá Grenada og sjálfstæði eyjabúa sé tryggt, mannréttindi þeirra virt og lýðræði komið á svo að Grenadabúar geti sjálfir kosið sér ríkisstj. og ráðið málum sínum og örlögum. Það er aðalatriði málsins og um það ættu allir alþm. að geta sameinast.