22.02.1984
Neðri deild: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3065 í B-deild Alþingistíðinda. (2675)

196. mál, lausaskuldir bænda

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég geri nú ráð fyrir að formaður fjh.- og viðskn. sé mér sammála í því að ekkert sé við það að athuga þó að þessar nefndir ræði þessi mál sameiginlega að einhverju leyti, en ég geri varla ráð fyrir að nefndirnar leysi þann fjárhagsvanda sem hér er verið að tala um. Ég hygg að það verði ríkisstj. að gera, en ekki nefndirnar. En ef það er álit sumra hv. þm. að við munum geta eitthvað í því gert er sjálfsagt að reyna það. Hitt er svo annað mál, að sams konar mál hafa alltaf farið í landbn. þau ár sem ég hef verið hér á þingi. Það væri þá verið að breyta út frá venjunni. Menn verða að athuga það.