22.02.1984
Neðri deild: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3074 í B-deild Alþingistíðinda. (2681)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Einar Kr. Guðfinnsson:

Herra forseti. Það er vissu­lega rétt sem fram kom í máli hv. síðasta ræðumanns að það frv. sem hér er til umr. er vissulega einn veigamesti þátturinn í stefnu ríkisstj. Hér er nefnilega brotið í blað, horfið frá þeirri stefnu sem ráðið hefur undanfarin allt of mörg ár og lýsti sér m.a. í því að hv. 3. þm. Reykv. taldi ástæðu til að boða sérstakar neyðarráðstafanir við lok valdaferils síðustu ríkisstj. Hér er horfið frá slíkri stefnu. Nú er tekið til við að reyna að byggja upp sterkt og gott atvinnulíf sem getur veitt raunverulegar kjara­bætur, ekki þær kjarabætur sem eingöngu byggjast á viðskiptahalla og söfnun eyðsluskulda í góðæri. Það eru falskar kjarabætur sem aldrei geta enst, en raunveru­legar eru kjarabætur sem byggja á sterku og styrku atvinnulífi. Það er þess vegna sérstök ástæða til að fagna því máli sem hér liggur fyrir fagna því að það er horfið frá þessari neyðarbraut Alþb. sem fetuð hefur verið allt of mörg undanfarin ár og hefur skilið við atvinnulíf landsmanna í rústum og er viðurkennt jafnvel af forsvarsmönnum þess flokks.

Hvert er megineinkenni atvinnulífs og efnahagslífs landsmanna um þessar mundir? Því miður er ekki bjart um að lítast í atvinnulífinu í dag þrátt fyrir að tekist hafi að vinda ofan af óðaverðbólgunni sem skapaðist vegna óstjórnar síðustu ára og þrátt fyrir að unnið hafi verið að margs konar nýmælum upp á síðkastið. Þrátt fyrir þetta er kyrkingur í atvinnulífi landsmanna. Sá kyrking­ur stafar ekki af núverandi stjórnarstefnu, heldur af þeirri óstjórn sem einkennt hefur síðustu árin. Hann stafar af langvarandi verðbólgu sem hefur hvatt til rangra fjár­festinga og hefur jafnframt gengið á eiginfjárstöðu fyrirtækja.

Það er rétt sem fram kom í framsöguræðu hæstv. ráðh. með þessu frv. að illa er komið í íslensku atvinnulífi einmitt vegna þess að eiginfjárstaða íslenskra fyrirtækja er mjög lök. Hún er lakari en almennt þekkist í löndunum í kringum okkur og það vekur yfirleitt athygli þeirra sem hingað koma og kynna sér íslenskt atvinnulíf hversu eiginfjárstaða fyrirtækjanna er lök. Ástæða þessa er það skilningsleysi sem ævinlega hefur ríkt í garð íslensks atvinnulífs og lýsir sér í því að menn líta svo á að ekki sé nauðsynlegt að standa vörð um atvinnulífið heldur megi ganga á hagsmuni þess. Menn ímynda sér að hægt sé að byggja upp viðunandi lífskjör í landinu án þess að standa vörð um atvinnulífið.

Þrátt fyrir að verðmæti sjávarafurðaframleiðslunnar hafi aukist um u.þ.b. 75% á föstu verðlagi 1978–1981 skildi hæstv. síðasta ríkisstj. þannig við þá ágætu atvinnugrein að þar var ástandið vægast sagt ömurlegt. Útgerð jafnt og fiskvinnsla bjó við slæmar aðstæður og jafnvel á metaflaárinu 1981 var svo komið að frysti­iðnaðurinn í landinu var að stöðvast. Þess vegna kom svolítið á óvart að heyra að hv. síðasti ræðumaður, 3. þm. Reykv., skyldi hafa einhvern sérstakan áhuga á að vita hvaða áhrif það frv. sem nú er til umr. hefði á atvinnustarfsemina, á stöðu sjávarútvegsins. Þannig spurði hann í ræðu sinni og gat þess jafnframt að hann hygðist sérstaklega láta kanna þetta þegar mál þetta kæmi til kasta n. Nd. Vitaskuld er ástæða til að fagna því að hann hefur tekið slíkum sinnaskiptum og kærir sig nú um að vita svolítið um afdrif atvinnulífsins í landinu.

Við vorum svo lánsöm á árunum á undan að búa við aukinn afla sem skilaði okkur áfram. Vegna hins aukna afla og m.a. vegna aukinnar erlendrar lántöku tókst okkur að fleyta atvinnulífinu áfram þrátt fyrir að að öðru leyti væri illa að því búið. Þetta er skýringin á því að ekki kom til verulegs atvinnuleysis þrátt fyrir slæma stjórn efnahagsmálanna í tíð síðustu og næstsíðustu ríkisstj. En þau versnandi ytri skilyrði sem við stöndum núna frammi fyrir, minnkandi sjávarafli á flestum ef ekki öllum sviðum, koma okkur vitaskuld illa núna þegar atvinnulífið stendur svo veikum fótum fyrir sem raun ber vitni. Það eru vitaskuld ill tíðindi fyrir atvinnu­lífið og landsmenn alla að þjóðarframleiðsla skuli nú vera að minnka þriðja árið í röð og öllum er ljóst að spyrna þarf við fótum, það þarf að brjóta í blað, fitja þarf upp á nýjungum til þess að örva atvinnulífið að nýju.

Því miður hefur líka verið þannig að málum staðið á undanförnum árum að sparnaður innanlands hefur dregist saman. Það hefur verið eitt af undrum íslensks efnahagslífs að þrátt fyrir langvarandi óðaverðbólgu og óstöðugleika hefur sparnaður hlutfallslega verið þó nokkuð mikill hérlendis miðað við það sem gerist og gengur hjá þjóðunum í kringum okkur. Þetta hefur vakið furðu en vissulega hefur þetta verið aflvaki margs konar nýjunga í atvinnulífinu og þetta hefur verið forsenda fyrir því að það hefur verið hægt að vinna að ýmsum þjóðþrifamálum á undanförnum árum.

Hinn mikli sparnaður kemur fram í því að sem hlutfall af þjóðarframleiðslu á árunum 1961–1966 var hann u.þ.b. 27%. Á árunum 1967–1968, þegar urðu mestu efnahagslegu áföll sem sagan kann frá að greina á þessari öld, liggur mér við að segja, jafnvel þó að heimskreppan mikla sé meðtalin, hrapaði hann niður í 22%. Hann var á síðasta áratug að jafnaði um 25% en var þó mjög sveiflukenndur. Þar réðu mestu þau ytri áföll sem við urðum fyrir á þessum áratug og líka sú stefna sem fól það í sér að sparifjáreigendur gátu ekki ávaxtað innlánsfé sitt með eðlilegum hætti.

En það undarlega gerðist á síðustu árum valdaferils síðustu ríkisstj. að þessi sparnaður sem hafði hangið í því að vera fjórðungur af þjóðarframleiðslunni og þaðan af meira hrapaði skyndilega. Þetta gerðist á árinu 1980 sem þó var einstaklega hagstætt ár hvað varðar öll ytri skilyrði. Það var hagstætt hvað varðaði sjávar­afurðaframleiðsluna og það var hagkvæmt að mörgu öðru leyti. Þrátt fyrir það dróst sparnaður í þjóðfélaginu saman og hrapaði ofan í 19% og hafði ekki verið minni í þrjá áratugi. Og nú kemur allt í einu 3. þm. Reykv. og hefur geysilegar áhyggjur af því að þetta frv. sem hér liggur fyrir kunni að draga úr sparnaði í þjóðfélaginu, maður sem stóð að framkvæmd efnahagsstefnu með þeim hætti að sparifjármyndun landsmanna dróst saman um sem svaraði 7% eða þar um bil. Það lýsir dæmalausri kokhreysti, eða eigum við að segja yfir­drepsskap, að halda uppi slíkum málflutningi. En kann­ske lýsir það líka vilja hv. síðasta ræðumanns til að gleyma árunum á undan. Það er auðskiljanlegur vilji og ég skal vissulega taka þann vilja fyrir verkið .

Till. sem hér liggur fyrir mun vissulega efla sparnað í landinu. Og hún mun gera fleira að verkum. Hún mun beina þessum sparnaði inn í farvegi atvinnulífsins og leggja þannig drög að því að hægt verði að hefja atvinnulífið til vegs og virðingar að nýju. Það er markmið þessarar till. og það felur hún í sér og þess vegna er hún geysileg breyting frá þeirri stefnu sem framfylgt hefur verið undanfarin ár. Þess vegna er það rétt hjá hv. 3. þm. Reykv. að þetta sé einn veigamesti þátturinn í stefnu ríkisstj.

Það hefur verið eitt böl atvinnulífsins hérlendis að þurfa svo mjög að byggja á erlendum lántökum. Því miður sjáum við ekki fram á það á þessu ári vegna ytri áfalla að hægt verði að vinda ofan af erlendum lán­tökum en það hefur verið, liggur mér við að segja, að sumu leyti Þrándur í Götu atvinnulífsins hversu mjög það hefur þurft að byggja allt sitt viðurværi á erlendum lántökum. Við vitum vel að erlendu lántökurnar hafa orðið mörgum atvinnugreinum ákaflega þungar í skauti. Það hefur m.a. sýnt sig í sjávarútvegi þar sem útgerðin hefur orðið að fjármagna stofnframkvæmdir og fjárfestingar með erlendum dýrum lánum sem hafa hækkað að verðgildi langt umfram hækkun tekna útgerðarinnar, hækkun fiskverðsins m.ö.o. Það er athyglisvert að á síðustu árum hefur hallað á ógæfuhliðina hvað þetta varðar vegna þess að menn hafa teygt sig lengra en innlendi sparifjármarkaðurinn hefur leyft. Menn hafa reynt að fjárfesta meira en innlendur sparnaður hefur getað sagt til um. Fram kemur í ákaflega merku erindi Jóhannesar Nordals seðlabankastjóra, sem hann flutti á ráðstefnu Stjórnun­arfélags Íslands 21. okt. 1982, að ef litið er á lántökur landsmanna í heild á árunum 1970–1973 voru að jafnaði 80% þeirra innlendar en 20% erlendar. Árið 1982 hafði dæmið snúist við þannig að innlend láns­fjármögnun var aðeins 60% en erlend 40%. Þetta er alvarlegt mál. Þetta skýrist að hluta til í ræðu seðla­bankastjóra þar sem hann skýrir frá því að á tímabilinu 1954–1982 hafi þjóðarframleiðslan farið hátt í að þrefaldast. Hins vegar hafi notkun erlends lánsfjár­magns nálægt tífaldast en notkun innlends lánsfjár rúmlega fjórfaldast. Allt þetta rennur stoðum undir þá skoðun mína að við höfum gengið of langt í að nýta okkur erlent lánsfé og að við þurfum að hverfa af þeirri braut. Það verður m.a. gert með því að efla eiginfjár­myndun atvinnulífsins, gera það að verkum að það þurfi hvorki að leita í jafnríkum mæli á innlenda lánamark­aðinn né þann erlenda eins og það hefur gert hingað til. Þetta frv. er mikilvægt skref í þá átt.

Það eru út af fyrir sig ekki mikil tíðindi að komast að því að vinstri menn á Íslandi hafi ekki mikinn skilning á því að efla þurfi atvinnulíf landsmanna. Ég hef þegar rakið í nokkru máli viðskilnað þeirra þegar þeir fóru úr síðustu ríkisstj. Það er líka fróðlegt að kynna sér þær till. sem þeir leggja fram. Núna þegar verið er að ákveða skattstigann leggja þeir til að stórauka skatta á félög. Þeir leggja til að skattar á félög verði u.þ.b. 15% hærri en þeir sem ríkisstj. gerir ráð fyrir. Þetta sýnir með öðru afstöðu þessara manna til atvinnulífsins.

Líka er eftirtektarvert að skoða þær till. sem lagðar voru fram á landsfundi Alþb. um eflingu atvinnulífsins. Það getur margar fróðlegar rósirnar að líta í þeim undarlega blómagarði. Tíundað er í einum tíu liðum í frásögn í Þjóðviljanum hvað beri að gera. Ég gríp niður í kafla um iðnað. Þar segir: Gera ráðstafanir til þess að iðnaðurinn geti framleitt vörur fyrir stærri hluta heima­markaðar en nú er um að ræða. Þar með sparast gjaldeyrir um leið og möguleikar myndast til að taka við fleira fólki í vinnu en nú er kostur á. Ekki orð um það hvernig eigi að gera þetta. Auka á iðnaðarframleiðsl­una með því að auka iðnaðarframleiðsluna. Þetta virðist vera tillaga Alþb. í iðnaðarmálum. Svipað er uppi á teningnum í öðrum málaflokkum og ekki ástæða til þess að fjölyrða þar um.

Ég vil endurtaka það að ástæða er til að fagna því frv. sem hér liggur fyrir. Það er skref í þá átt að búa betur að íslensku atvinnulífi, gera það sjálfstæðara gagnvart lánardrottnum og efla þátttöku almennings í atvinnulíf­inu. Allt er þetta til bóta.