22.02.1984
Neðri deild: 50. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3077 í B-deild Alþingistíðinda. (2682)

159. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða í löngu máli um þetta frv. og fylgifrv. þess sem er 160. mál og er á dagskrá hér á eftir. Ég vildi gjarnan geta rætt um þau bæði í örstuttu máli að þessu sinni til að spara fé og fyrirhöfn auk þess sem síðara frv. er mjög tengt því fyrra.

Hins vegar vil ég vekja athygli á því að það er í senn athyglisverð en þó um leið nokkuð sérkennileg tilviljun að á sama tíma og þessar athyglisverðu umr. fara fram í dag um grundvallarlögmál frjálshyggjunnar fjallar einn helsti hugmyndasmiður þeirra ungra sjálfstæðismanna og frjálshyggjunnar um það í Dagblaðinu hvernig eigi að selja ömmu sína og kemst m.a. að þeirri niðurstöðu að eina sem standi þar í veginum sé að hann bresti formlegar eignarheimildir. M.ö.o. kemst þessi ágæti maður að þeirri niðurstöðu að það eina sem standi í vegi fyrir því að hann selji ömmu sína sé eignarheimilda­skortur. (Heilbr.- og trmrh.: Getur hann bara ekki selt þig? Ekki er fjallað um það í frv. þó athyglisvert sé.

Ég vek aðeins athygli manna á því sem ætti að koma fram í þessari athyglisverðu umræðu í Dagblaðinu að möguleiki væri fyrir þann ágæta hugmyndasmið þeirra ungra sjálfstæðismanna að slá nú tvær flugur í einu höggi með því að leggja út í hlutafjárkaup í ömmu sinni því að þá gæti þessi ágæti maður í senn fengið skattafrá­drátt — ef amma hans væri virt dálítið hátt og hundrað menn vildu slá í kaupin með honum — a.m.k. sem svaraði 10 millj. kr. og auk þess mundi hann öðlast þá eignarheimild sem hann nú brestur. Finnst mér það mjög miður að þeir sjálfstæðismenn skuli ekki ganga frá svona vandamáli eins helsta hugmyndasmiðs síns um leið og þeir taka fyrir önnur vandamál í hinu íslenska skattkerfi. Sakna ég þess mjög að í orðum síðasta hv. ræðumanns skyldi ekki vera fjallað um þetta mikla vandamál hugmyndasmiðs þeirra frjálshyggjumanna um brest á eignarheimildum manna til að selja ömmu sína.

Það er aðeins eitt atriði sem ég vildi vekja sérstaklega athygli á. Það kemur raunar fram í báðum frv. en tengist meira frv. sem hér er á dagskrá á eftir en því sem er verið að ræða nú. Í grg. með 159. málinu, því frv. sem nú er verið að ræða, segir m.a. svo um helstu breytingar frv., með leyfi forseta:

„Það nýmæli er í frv. að einstaklingum verði heimilt að draga frá tekjum sínum árlega aukningu á fjárfest­ingu í atvinnurekstri allt að 20 þús. kr. hjá einstaklingi og 40 þús. kr. hjá hjónum. Ákvæði þessu er ætlað að örva beina þátttöku almennings í atvinnurekstri, bæði með nýmyndun eigin atvinnurekstrar og þátttöku í áhætturekstri í félagsformi.“

Út af fyrir sig er lítið við þessu að segja annað en að það er ákveðin stjórnmálastefna sem þarna kemur fram. En í framhaldinu eru reistar nokkrar skorður við þessu. Þar segir að sett séu skilyrði fyrir því að fólki sé þetta heimilt. Í fyrsta lagi að um sé að ræða myndun bundinna stofnfjárreikninga í bönkum og sparisjóðum, í öðru lagi að um sé að ræða framlög í starfsmannasjóði sem sérstaklega eru myndaðir til kaupa á hlutabréfum í hlutafélögum sem þeim eru tengd, í þriðja lagi að um sé að ræða fjárfestingu í hlutabréfum í sérstökum fjárfest­ingarfélögum sem mynduð yrðu til kaupa á áhættufé atvinnufyrirtækja o.s.frv. Í fjórða lagi að um sé að ræða fjárfestingu í hlutabréfum hlutafélaga þar sem hlutafé er ekki undir 10 millj. kr. og hluthafar eru a.m.k. 100 talsins.

Með þessum skorðum er sem sé komið í veg fyrir að fólk geti notið þessa skattahagræðis nema með því móti að kaupa hlutafé í stórum hlutafélögum þar sem áhrif hvers og eins eru næsta lítil. Ég ætla ekki að ræða um það mál út af fyrir sig hvort það er æskilegt og rétt að leyfa fólki að draga slíkt stofnframlag frá tekjum sínum til skatts. Um það geta menn deilt endalaust. En mér finnst mjög óeðlilegt að það skuli eiga að mismuna þannig að þetta sé heimilt því aðeins ef viðkomandi einstaklingar kaupa hlutafé í stórum hlutafélögum með yfir 10 millj. kr. í hlutafé og yfir 100 hluthafa. Þetta mun útiloka fólk mjög víða á landinu frá því að taka þátt með sama hætti og t.d. Reykvíkingar í uppbyggingu at­vinnulífs úti í hinum dreifðu byggðum.

T.d. hefur oft verið vakin athygli á nauðsyn þess á Alþingi að byggja upp úti í hinum dreifðu byggðum fjölbreyttari atvinnustarfsemi. Þar hafa verið nefnd dæmi eins og fiskirækt sem víða er farið að stunda að tilhlutan heimaaðila. Menn hafa verið að reyna að ýta undir slíka starfsemi til þess í senn að skjóta fleiri stoðum undir atvinnulífið í dreifbýlinu, til að nýta í meira mæli en gert er nú náttúruauðlindir, svo sem eins og heitt vatn sem víða finnst úti í hinum dreifðu byggðum og hentar vel til fiskiræktar, og auk þess hafa menn talið þetta kjörið tækifæri til að stemma stigu við fólksflótta úr hinum dreifðu byggðum sem verður vegna þess að þar skortir fullnægjandi atvinnutækifæri við allra hæfi.

Það segir sig sjálft að þeir eru ekki margir staðirnir á landinu þar sem líklegt væri að hægt væri að stofna til starfsemi atvinnufyrirtækja þar sem hlutafé yrði yfir 10 millj. kr. og um yfir 100 hluthafa væri að ræða. Vel getur verið að þegar fram í sækir yrði þetta hægt en í flestum tilvikum þurfa svona fyrirtæki, eins og t.d. fiskiræktarfyrirtæki sem landsbyggðarmenn eru að reyna að reisa víða um land, oft af veikum burðum, að geta sannað gildi sitt áður en svo er komið að fólk úr fjarlægum byggðarlögum vilji leggja þeim fé í formi hlutafjárframlaga.

Ég veit um nokkur dæmi úr mínu gamla kjördæmi þar sem íbúar heillar sveitar, þar sem hætta er á fólksflótta, hafa tekið sig saman um að reyna að halda fólkinu heima m.a. með því að fitja upp á fiskirækt. Ég vil t.d. nefna eina svona tilraun sem nú er gerð í botni Ísafjarðardjúps. Þetta eru menn sem ekki aðeins stofna sitt litla félag heldur miðast framlag þeirra ekki síst við sjálfboðavinnu sem þeir leggja fram. Gjarnan njóta svona félög stuðnings þeirra aðila sem sveitina byggja. Í þessu tilviki eru þeir mun færri en eitt hundrað. Ef frv. yrði samþykkt óbreytt eins og hér er lagt til væri Alþingi að segja við fólkið í þessu byggðarlagi: Ef þið hafið hug á því að fá skattafrádrátt fyrir að leggja lið einhverjum atvinnurekstri í landinu verðið þið að gera það með því að kaupa hlutabréf í Flugleiðum hf. í Reykjavík, Eimskipafélagi Íslands hf. í Reykjavík, Hafskipum hf. í Reykjavík eða öðru slíku fyrirtæki. Þið njótið hins vegar einskis skattalegs hagræðis ef þið viljið reyna að styðja við uppbyggingu atvinnulífsins í ykkar eigin heimasveit með því að leggja fram fjármuni af eigum ykkar til þess að byggja upp fyrirtæki sem e.t.v. gæti átt mikla framtíð fyrir sér ef það fengi aðeins að sanna sig.

Ég vara, herra forseti, mjög við því að þessi stefna verði staðfest á Alþingi Íslendinga. Ég get út af fyrir sig fallist á að rétt sé að örva starfsemi hlutafélaga með svipuðum hætti og hér er gerð till. um. Um það ætla ég mér ekki að deila við þá stjórnarliða. En mér finnst það vera þveröfug stefna að halda þannig á málum að beina öllu fjárframlagi einstaklinga í þessu skyni frá hinum smáa rekstri úti á landsbyggðinni sem þarf raunverulega á stuðningi að halda og yfir í hlutafjárkaup á stórum fyrirtækjum eða í stórum félögum á Reykjavíkur- og Suðurlandssvæðinu og kannske kaup á hlutafé í nokkr­um félögum á allra stærstu stöðunum úti á landi.

Þetta er ekki, herra forseti, sú byggðastefna sem ég held að menn almennt vilji styðja hér og þess vegna mun ég leggja mjög eindregna áherslu á það við þá n. sem fær frv. þetta til skoðunar að ef hún kemst að þeirri niðurstöðu að rétt sé að taka upp svona aðferðir til að laða fé frá almenningi í hlutafélögin aðstoði hún frekar með þeim hætti fyrirtæki úti í dreifbýlinu, svo sem eins og fyrirtæki á sviði fiskiræktar, loðdýraræktar og aðra slíka starfsemi sem á mikla framtíð fyrir sér, með því að heimila mönnum sama skattalegan rétt gagnvart hlutafjárframlögum í þessum litlu fyrirtækjum og fólki er heimilað ef það kaupir hlutafé í stærstu fyrir­tækjum landsins.

Ég lít á það, herra forseti, sem mistök að þessi ábending skuli ekki hafa komið fram við umr. í Ed. og vona að ekki sé of seint að koma fram með þessa ábendingu nú.