23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3110 í B-deild Alþingistíðinda. (2706)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Þegar full­trúar Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasam­bands Íslands undirrituðu kjarasamninga 21. febr. s.l. gaf hæstv. forsrh. út eftirfarandi yfirlýsingu, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkisstjórnin er í meginatriðum sammála Alþýðu­sambandi Íslands og Vinnuveitendasambandi Íslands um úrbætur fyrir þá sem við lökust kjör búa, dags. 21. febrúar 1984, og er tilbúin til viðræðna um sérstaka tilfærslu fjármuna innan ramma fjárlaga í þessu skyni. Það er eindreginn skilningur ríkisstj. að þessar úrbætur stuðli að gerð heildarsamninga á vinnumarkaðinum innan þeirra marka um launabreytingar á næstu 15 mánuðum sem viðræðunefndir ASÍ og VSÍ kynntu á fundi með fulltrúum ríkisstj. í morgun.“ Undirritun: Steingrímur Hermannsson.

Síðan þessi yfirlýsing var gefin út hafa komið fram mjög mismunandi túlkanir á því hvað felist í raun og veru í þessari yfirlýsingu. Svo mikil er óvissan að í útvarpi og sjónvarpi í gær birtust yfirlýsingar frá hæstv. forsrh. annars vegar og forseta Alþýðusambands Ís­lands, Ásmundi Stefánssyni, hins vegar sem greindu mjög á um hvað fælist í þessari yfirlýsingu. Einnig er ljóst að mjög mismunandi sjónarmið hafa komið fram um það hvernig beri að fjármagna þær aðgerðir sem vísað er til í þessari yfirlýsingu, einkum og sér í lagi hafa fulltrúar Vinnuveitendasambands Íslands og fulltrúar Alþýðusambands Íslands lýst ólíkum skoðunum í því efni.

Þessi mikla óvissa sem kemur í ljós á fyrstu sólar­hringunum eftir að þessi yfirlýsing er gefin út hlýtur að hafa afgerandi áhrif á meðferð verkalýðsfélaga á þeim kjarasamningum sem undirritaðir voru þennan dag. Ég hef því kvatt mér hér hljóðs utan dagskrár á Alþingi til þess að spyrja hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. um efni þessarar yfirlýsingar og einnig um aðrar yfirlýsingar sem hæstv. fjmrh. hefur gefið, síðast í gær en einnig undanfarna daga.

Í dag mun fjöldi verkalýðsfélaga halda fundi um þessa kjarasamninga og fleiri fundir verða haldnir næstu daga. Ef fólkið í verkalýðsfélögunum allt í kringum landið á að geta myndað sér raunhæfar skoð­anir á því hvað felist í þessum kjarasamningum er alveg óhjákvæmilegt að hæstv. ráðherrar gefi hér í dag skýr og afdráttarlaus svör við því hvað þessi yfirlýsing feli í sér.

Einkum eru tvö meginatriði sem andstæðar yfirlýs­ingar hafa komið fram um. Bæði þessi atriði eru alger grundvallaratriði varðandi meðferð kjarasamninganna.

Fyrra atriðið snertir á hvern hátt ríkisstj. hyggst fjár­magna þær hliðarráðstafanir sem hún hefur samþykkt að gera í kjölfar samninganna. Fulltrúar Vinnuveit­endasambands Íslands hafa látið í ljós það sjónarmið að hliðarráðstafanirnar beri að fjármagna með því að lækka niðurgreiðslur. Með því er lagt til að launafólkið í landinu borgi þessar aðgerðir sjálft í gegnum hærra vöruverð á mjólk, kjöti og öðrum almennum lífsnauðsynjum almennings í landinu. Verði þessi leið farin er ljóst að hæstv. ríkisstj. gefur með annarri hendi en tekur jafnóðum með hinni. Þá væri verið að blekkja fólk á ósvífnari hátt en dæmi eru til um: Launafólk látið standa í þeirri blekkingu um nokkurn tíma að verið sé að bæta kjör þeirra sem verst settir eru í landinu en síðan kemur ríkisstj. með reikninginn til þessa sama fólks með því að lækka niðurgreiðslurnar.

Sú upphæð sem nefnd hefur verið að væri hugsanlega til ráðstöfunar í þessum hliðaraðgerðum eru 306–330 millj. kr. Það er um það bil 1/3 af því fjármagni sem ætlað er til niðurgreiðslna á þessu ári. Ég spyr hæstv, forsrh. og hæstv. fjmrh.: Er það rétt að ríkisstj. sé með það í athugun að fjármagna þessar hliðarráðstafanir í þágu hinna verst settu með því að lækka niðurgreiðslurnar?

Í öðru lagi: Hvað mundi verðlag á mjólk, kjöti og öðrum lífsnauðsynjum almennings í þessu landi hækka mikið ef minnkandi niðurgreiðslur yrðu notaðar að öllu eða verulegu leyti til þess að fjármagna þessar hliðar­ráðstafanir? Hver er sú prósentuhækkun á landbúnað­arafurðum sem kæmi í kjölfar þeirrar aðgerðar?

Í þriðja lagi: Eru hæstv. ráðherrar reiðubúnir að lýsa því yfir hér í dag að fjármögnun þeirra aðgerða, sem ríkisstj. mun beita sér fyrir, muni ekki hafa í för með sér neina hækkun á vöruverði? Eru hæstv. ráðherrar reiðbúnir að lýsa því yfir að almenningi verði ekki sendur reikningurinn fyrir þessar bætur til hinna verst settu í formi hærra vöruverðs, að ríkisstj. muni útvega þetta fé á þeim liðum fjárlaga sem ekki hafa í för með sér neina útgjaldaaukningu fyrir almenning í landinu? Nauðsynlegt er að fólkið í verkalýðsfélögunum allt í kringum landið fái skýr svör við því í dag hvort á að senda því reikninginn fyrir þessar aðgerðir eða hvort ríkisstj. hyggst hafa aðrar leiðir.

Annað grundvallaratriði, sem snertir framkvæmd þessara hliðarráðstafana, er fólgið í yfirlýsingu sem framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambands Íslands gaf sama dag og kjarasamningarnir voru undirritaðir og sem hæstv. forsrh. tók undir í viðtali við útvarpið í gær. Þessir tveir forustumenn, framkvæmdastjóri Vinnuveit­endasambands Íslands og hæstv. forsrh., lýstu báðir þeirri skoðun sinni að þessar hliðarráðstafanir í þágu hinna verst settu væru háðar því að öll verkalýðsfélögin í landinu samþykktu þá kjarasamninga sem forustu­menn ASÍ og VSÍ undirrituðu.

Nú er það staðreynd, sem hv. þingheimi er kunnugt, að Alþýðusamband Íslands fer ekki með samningsrétt­inn í þessu landi. Skipulag vinnumarkaðarins á Íslandi er með þeim hætti að hvert og eitt verkalýðsfélag fer að fullu og öllu með réttinn til að semja um kaup og kjör. Hvorki Alþýðusamband Íslands né neinn annar aðili getur bundið hendur verkalýðsfélaganna. Sú tilraun, sem felst í yfirlýsingu framkvæmdastjóra Vinnuveit­endasambands Íslands og hæstv. forsrh. í útvarpinu í gærkvöldi, felur í raun og veru í sér þá aðferð að fátækasta og verst setta fólkið í þessu landi er tekið í gíslingu. Sagt er: Þetta fólk, sem verst er sett í þessu landi, fátækasta fólkið, fær ekki neinar úrbætur í kjölfar hliðarráðstafana ríkisstj. nema öll verkalýðsfélög í landinu afsali sér hinum formlega rétti sínum til að semja hvert og eitt um kaup og kjör í sinni heimabyggð á Norðurlandi, Austurlandi, Vesturlandi og hér sunn­anlands. Með þeirri aðferð er á mjög ósvífinn hátt verið að svipta verkalýðsfélögin hinum raunverulega samn­ingsrétti. Það er gert í skjóli þess að taka fátækasta fólkið í landinu í gíslingu og segja: Það verður ekki leyst úr þessari gíslingu nema verkalýðsfélögin afsali sér samningsréttinum.

Í viðtali við sjónvarpið í gær mótmælti forseti Al­þýðusambands Íslands, Ásmundur Stefánsson, þessari túlkun harðlega. Hann lýsti því yfir, með leyfi hæstv. forseta, að það væri alger forsenda fyrir því að kjara­samningarnir voru gerðir að þessar hliðarráðstafanir kæmu til framkvæmda óháð því hvort öll verkalýðsfé­lögin samþykktu kjarasamninginn eða ekki. Því er óhjákvæmilegt að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. lýsi því yfir á Alþingi að þeir staðfesti þennan skilning forseta Alþýðusambands Íslands. Það verði staðið við þau fyrirheit sem gefin voru, óháð því hvort eitt eða fleiri verkalýðsfélög kjósa að fara aðra leið í samnings­málum en þá sem undirrituð var 21. febr. s.l.

Því verður ekki trúað að hér eigi að fara að taka upp þá nýjung í samskiptum ríkisvaldsins við aðila vinnu­markaðarins að ríkisvaldið stilli öllum hinum frjálsu verkalýðsfélögum upp við vegg og segi: Ef þið lútið ekki skilyrðislaust þeim heildarvilja sem hér hefur verið tilkynntur verður ekkert framkvæmt af þeim loforðum sem gefin hafa verið. Með því væri í raun verið að taka samningsréttinn aftur af verkalýðsfélögunum líkt og gert var s.l. vor, að vísu nú með þeim hætti að skáka í skjóli hinna fátækustu í landinu þegar réttindasviptingin væri framkvæmd.

Óhjákvæmilegt er að þeir félagar í verkalýðsfélög­unum sem síðar í dag koma saman til funda — t.d. hefst fundur í verkaminnafélaginu Dagsbrún kl. 5 og aðrir fundir verða haldnir í kvöld og á morgun — fái að heyra úr ræðustól Alþingis skýrt og skorinort frá hæstv. ráðherrum að ríkisstj. muni framkvæma þau fyrirheit sem hún gaf forseta Alþýðusambands Íslands algerlega án tillits til þess hvort eitt eða fleiri verkalýðsfélög verða utan við þessa samninga.

Þriðja meginefnisatriðið sem ég vil víkja að snertir hæstv. fjmrh. sérstaklega. Hæstv. fjmrh. hefur gefið á Alþingi, í sjónvarpi og í öðrum fjölmiðum yfirlýsingu um að ef kjarasamningar fari yfir 4% mark sé það brot á stefnu hæstv. ríkisstj. og ríkisstj. eigi þá að fara frá. Ef hún geri það ekki muni hann segja af sér.

Þegar hæstv. forsrh. og hæstv. iðnrh. gáfu um það yfirlýsingar fyrir nokkrum vikum síðan að vel gæti komið til greina að samið yrði um 6% launahækkun lýsti hæstv. fjmrh. því greinilega yfir að allt slíkt væri brot á stefnu ríkisstj. Slíkar yfirlýsingar væru gefnar á bak við sig og væru ekki í samræmi við skilning sinn á stefnu ríkisstj.

Fyrir viku síðan var hæstv. fjmrh. enn á ný spurður um þessa afstöðu sína á fundi hv. Nd. Áður en ég les tilvitnun í þá ræðu vil ég taka fram að nokkrum setningum á undan kom skýrt fram í máli hæstv. fjmrh. að hann var þar að tala um hinn fræga 4% ramma launahækkana í landinu. Hæstv. fjmrh. sagði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég get fullvissað 7. þm. Reykv. um það að þrátt fyrir það að ráðherrastólar kunni að vera heitir og mjúkir, eins og hann orðar það, mun ég standa við mín orð. Og bið ég virðulegan þm. að bíða þangað til á reynir en vera ekki með fullyrðingar, sem eru hreinar ágiskanir frá hans hálfu, um vilja minn og getu til að standa hér eftir sem hingað til við allt það sem ég ætla mér að standa við og hef lofað. Ég endurtek það og bið hann um að rifja upp hvenær hann hefur reynt mig að því að bregðast því sem ég hef lofað. Þessu hef ég lofað sjálfum mér.“ Nokkrum setningum síðar áréttaði hæstv. fjmrh. þessa staðfestu sína með því að lýsa yfir, með leyfi hæstv. forseta: „Þannig er mín skapfesta á við ykkur alla hér ef þið rengið það.“

Nú er komið fram í túlkun þeirra kjarasamninga sem gerðir hafa verið að samningsupphæðin er alls ekki sú 4% tala sem hæstv. fjmrh. hefur gert að þessu marki. Ég vil t.d. geta þess að í tveimur aðalmálgögnum ríkisstj. daginn eftir að samningarnir voru gerðir stend­ur á forsíðu Morgunblaðsins: „13.6% launahækkun á samningstímanum.“ Og á forsíðu hins stjórnarmálgagns­ins, Tímans, stendur: „Laun í landinu hækka um 13% á næstu 10 mánuðum.“ Þess vegna er ljóst að þar sem málstaður ríkisstj. er túlkaður eru nefndar mun hærri tölur, jafnvel þrisvar sinnum hærri tölur, en hið fræga 4% mark hæstv. fjmrh. Í viðtali við Tímann í morgun segir hæstv. fjmrh., með leyfi hæstv. forseta: „Ég mun ekki bjóða BSRB upp á sams konar samninga og ASÍ.“

Í kvöld kemur fullskipuð samninganefnd Bandalags starfsmanna ríkis og bæja saman til fundar. Þar mun sú trúnaðarsveit, sem opinberir starfsmenn hafa valið til þess að fara með sín kjaramál, fjalla um stöðuna í samn­ingamálunum. Þess vegna er óhjákvæmilegt að hér komi fram hvort hæstv. fjmrh. muni bjóða Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja sömu kjarasamninga eða sams konar og Alþýðusambandið hefur gert.

Einnig er nauðsynlegt að fram komi skýr svör við því hvort hæstv. fjmrh. er sammála Morgunblaðinu og Tímanum og þeim öðrum sem um þessi mál hafa fjallað að sú upphæð sem samið var um í kjarasamningunum fari langt fram úr þeim 4% ramma sem hann hefur hvað eftir annað, og síðast á þessum stað fyrir viku síðan, ítrekað að væri það mark sem hann mundi standa og falla með.

Að vísu er vitað að ýmsir forustumenn stjórnarliðsins hafa verið önnum kafnir við það síðustu tvo sólarhringa að finna aðferð fyrir hæstv. fjmrh. til að snúa sig út úr þessum yfirlýsingavanda. Þannig lýsti t.d. formaður Sjálfstfl., Þorsteinn Pálsson, því yfir áður en hæstv. fjmrh. sagði orð opinberlega um þessa samninga að hann mundi ekki segja af sér. Fjmrh. mundi sitja áfram. Í mjög sérkennilegu viðtali sem birtist í fréttatíma útvarpsins í gærkvöldi virtist hæstv. fjmrh. vera að reyna að feta sig áfram eftir þeirri braut að endurtúlka fyrri yfirlýsingar á mjög hlægilegan hátt. Að vísu voru fyrstu skrefin á þessari endurtúlkunarbraut fremur óviss en engu að síður nokkuð skýr. Þar var hæstv. ráðh. greinilega að reyna að feta sig eftir þeirri túlkun að sá rammi sem hann hefði talað um hefði alls ekki verið þessi frægi 4% rammi sem gæti kostað hann ráðherra­stól heldur allt annar rammi. Það væri ramminn um útgjöld og tekjur ríkissjóðs. Ef útgjöldum vegna hliðar­ráðstafana yrði mætt með minnkandi útgjöldum á öðrum sviðum, þannig að heildarútkoman fyrir ríkis­sjóð sem slíkan, fært sem debet og kredit í dálkum ríkissjóðs, væri ekki útgjaldaaukning, væri þetta allt í lagi. Þetta er greinilega sú túlkunaraðferð sem ýmsir ráðgjafar ráðh. eru að reyna að fá hann til að feta sig eftir. Þess vegna væri mjög fróðlegt að fá um það skýr svör frá hæstv. ráðh., sem hefur hvað eftir annað lýst því yfir, bæði hér á Alþingi og í fjölmiðlum, að hann muni standa og falla með 4`% markinu, hvort hann ætlar að gera það. Það er alveg ljóst að yfir það hefur verið farið. Enginn maður treystist til að halda því fram að kjarasamningarnir séu 4% þó að deilt sé um það hve mikið yfir þessum 4% þeir eru. Er hæstv. ráðh. nú að reyna að feta sig áfram eftir þeirri braut að gera sjálfum sér kleift að sitja áfram í ráðherrastólnum þrátt fyrir öll stóru orðin í ljósi einhverrar skringilegrar endurtúlkun­ar á debet- og kreditdálkum fjárlaga sem nánustu ráðgjafar hans hafa verið að reyna að lesa honum síðasta sólarhringinn.

Þó er það kannske öllu mikilvægara en ráðherradóm­ur hæstv. fjmrh. Alberts Guðmundssonar að opinberir starfsmenn fái skýr svör við því hvort þeim verða boðnir sams konar samningar og Alþýðusambandi Íslands.

Herra forseti. Ég held að óhjákvæmilegt sé í ljósi þeirrar yfirlýsingar sem hæstv. ríkisstj. gaf út að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. veiti skýr svör við þeim spurningum sem ég hef borið fram varðandi túlkun þessarar yfirlýsingar og hæstv. fjmrh. sérstaklega gefi þingheimi skýringar á því í ljósi fyrri yfirlýsinga sinna hér, sérstaklega yfirlýsinga sem hann gaf í hv. Nd. á miðvikudaginn í síðustu viku, hvort hæstv. ráðh. ætli að segja af sér í ljósi þess að farið hefur verið fram úr 4% rammanum eða hvort hann er búinn að læra einhverja sérkennilega endurtúlkun á fyrri orðum sem gerir honum kleift að sitja áfram.