23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3118 í B-deild Alþingistíðinda. (2709)

Umræður utan dagskrár

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég þakka þeim sem hófu þessa nauðsynlegu umr. sem er fyrst og fremst tilkomin vegna nýgerðra kjarasamninga.

Fjölmiðlar hafa leitað álits ýmissa á nýgerðum samn­ingum Alþýðusambandsins og Vinnuveitendasam­bandsins. Þegar umsagnir þessar eru skoðaðar er áber­andi hve vinnuveitendur eru miklu ánægðari með samningana en fulltrúar launafólks. Það segir vissulega sína sögu.

Það olli mér miklum vonbrigðum að enn einu sinni skyldi samið um sömu prósentuhækkun á öll laun, sem þýðir vitanlega ekkert annað en að því hærri sem launin eru, þeim mun hærri krónutala bætist ofan á þau. Vafalaust eru hæstu launin ekkert til að hrópa húrra fyrir en það er þó fjandakornið hægt að komast af á þeim, sem er meira en hægt er að segja um lægstu launin. Kjör hinna lægst launuðu eru orðin þjóð okkar til háborinnar skammar og þær leiðréttingar sem samn­ingarnir kveða á um eru engan veginn nægjanlegar. Lágtekjumarkið er allt of lágt. Ég verð að segja að ég skil ekki röksemdirnar fyrir því að mismuna launafólki svo freklega eftir aldri eins og nú hefur verið samið um. Ég segi bara eins og Sighvatur Björgvinsson sagði í ræðustól í gær: Hvenær verður samið um launamismun kynjanna á nýjan leik? Nægur er sá munur á borði. Hvenær verður samið um hann opinskátt í orði?

Lágmarkstekjur eiga nú að verða 11 509–12 600 kr. á mánuði. Það eru öll ósköpin eftir allar yfirlýsingarnar um 15 þús. kr. lágmarkið sem af einhverjum ástæðum hefur verið haldið fast við í margar vikur þrátt fyrir stöðugt versnandi afkomu þess fólks sem um er að ræða. Vita menn ekki hver framfærslukostnaður vísi­tölufjölskyldunnar er orðinn? Miðað við nýja vísitölu­grunninn sem boðaður er í stjfrv. og verðlag í byrjun febrúar er framfærslukostnaður vísitölufjölskyldunnar 43 400 kr. á mánuði fyrir utan húsnæðiskostnað. Það er því ekki að undra þótt lágtekjufólki gangi illa að ná endum saman jafnvel þótt tveir séu um að afla tekna, hvað þá þegar fyrirvinnan er ein.

Nei, lágtekjumarkið er of lágt. Og hvers vegna í ósköpunum eru þessir fáránlegu launataxtar ekki sniðn­ir neðan af launaskalanum úr því að allir viðurkenna að þeir gefa ekki mannsæmandi laun? Jú, auðvitað vegna þess að launatengdu greiðslurnar, yfirvinnan og bón­usinn, vaktaálagið og tryggingagreiðslurnar miðast við þessa lágu taxta. Það er kannske það skásta við þessa samninga að í þeim er ákvæði um endurskoðun á bónuskerfinu. Það gladdi mig að sjá einhvers staðar haft eftir formanni Verkakvennafélagsins Framsóknar að til greina kæmi að konur hættu að vinna skv. bónuskerfi. Sýnt hefur verið fram á að það taki sæmilega duglega konu í fiskvinnu u.þ.b. viku að vinna sig upp í bónus. Bónuskerfið býður upp á algjöra þrælavinnu. Mér eru í minni orð Aðalheiðar Fransdótt­ur sem lýsti bónusdegi í frystihúsi á ráðstefnu Alþfl. - kvenna um launamál kvenna á s.l. hausti. Hún sagði þar m.a. orðrétt, með leyfi forseta:

„En til þess að ná 200 í hraða, sem er topphraði, þurfum við að eyða orku sem samsvarar því að við færum á tveimur jafnfljótum til Hveragerðis og til baka aftur á 8 klukkustundum. Hver heilvita manneskja sér að þetta er hreint brjálæði. En svona þurfum við að vinna ekki einn dag heldur alla daga ársins til þess að hafa mannsæmandi laun. Eins og allir geta séð þá getur þetta aðeins brot af þeim konum sem við þessi störf vinna en því miður er alltaf einblínt á þennan litla hóp sem nær þessum bónus. Hitt gleymist aftur á móti að meiri hluti þeirra kvenna sem við þessi störf vinna eru aðeins með miðlungsbónus og vel undir meðallagi og þær þurfa ekki síður að hafa fyrir sinni vinnu en þær sem eru með hæstan bónus.

Ég er viss um að ég get með góðri samvisku, án þess að vanmeta störf annarra verkakvenna, sagt að það sé leitun að þeirri starfsstétt sem þarf að hafa jafnmikið fyrir launum sínum og konur í frystihúsum. En hversu lengi endast þær?“

Lagfæring bónuskerfisins og helst afnám þess er eitt brýnasta verkefnið til leiðréttingar á kjörum kvenna á vinnumarkaðinum. En það er nú ein sorglegasta niður­staða þessara nýgerðu kjarasamninga að ekki bólar á nokkurri viðleitni til að taka sérstaklega á kjörum kvenna. Varla hefur það farið fram hjá nokkrum manni að konur hafa verið iðnar við fundahöld undanfarna mánuði. Þær hafa haldið hvern fundinn á fætur öðrum, hverja ráðstefnuna af annarri, um kjör sín og stöðu í þjóðfélaginu. Þær hafa rætt málin fram og aftur, kannað ástandið og unnið úr þeim könnunum niður­stöður sem hljóta að knýja alla til umhugsunar. Þær hafa unnið saman þvert á alla flokkapólitík og komist að þeirri einhuga niðurstöðu að ástandið sé óviðunandi og við svo búið megi ekki standa.

Skyldu öll þessi fundahöld, öll þessi umr., hafa farið fram hjá einhverjum? Hafa þeir ekki heyrt óánægju­raddirnar, lesið greinarnar, kynnt sér niðurstöður kann­ananna? Ekki er svo að sjá af nýgerðum samningum. Á það að verða óumbreytanlegt lögmál að ófaglærðir verkamenn hafi 14% hærra tímakaup í dagvinnu en ófaglærðar verkakonur, að karlar við afgreiðslustörf hafi 26% hærra dagvinnutímakaup en konur við sams konar störf, að karlar hafi 33% hærra tímakaup í dagvinnu við skrifstofustörf en konur? Þessar stað­reyndir liggja á borðinu úr margvíslegum könnunum. En þess sér ekki stað í nýgerðum samningum að reynt sé að leiðrétta þetta misrétti.

Hvað kemur á daginn þegar samningar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja við ríkið liggja fyrir? Getum við vænst þess að þar ríki meiri skilningur og vilji til úrbóta? Íslenska ríkið er stærsti vinnuveitandi landsins og ber sinn hluta af sökinni á því hvernig ástandið er. Því ber að sýna gott fordæmi. Ríkisstj. gæti sannarlega lagt sitt af mörkum og séð til þess að jafnréttislögunum væri framfylgt í hvívetna. Hún gæti líka séð til þess að hin hefðbundnu kvennastörf yrðu endurmetin. Hugsan­leg leið og að mínu mati ákjósanleg er einfaldlega að hækka alla starfshópa þar sem konur eru fjölmennastar um tvo launaflokka. Ríkisstj. ætti auðvitað að koma til móts við kröfur kvenna um betri aðstæður, t.d. að því er varðar umönnun barna og endurmenntun.

Ég vil nota þetta tækifæri til að spyrja forsrh. og fjmrh. um afstöðu þeirra til þessara mála. Hver er afstaða ríkisstj. til þess augljósa misréttis sem konur búa nú við á vinnumarkaðinum? Hefur ríkisstj. fjallað um málin með tilliti til þeirrar miklu umr. sem á sér stað úti í þjóðfélaginu?

Í marga áratugi hafa konur barist af misjafnlega miklum eldmóði fyrir bættum hag sínum og betri kjörum og réttindum til jafns við karla. Margt hefur áunnist þótt ekki sé liðinn langur tími á mælikvarða mannkynssögunnar síðan fólki var mismunað gróflega eftir kynferði í launum fyrir sömu vinnu, síðan konum var meinaður aðgangur að mörgum menntastofnunum, síðan konur höfðu hvorki kosningarétt né kjörgengi. Flestum þykja þetta sjálfsögð réttindi kvenna nú á dögum en kannske finnst sumum í hjarta sínu þetta fjandans nóg. Konur geti bara verið ánægðar enn um sinn með það sem áunnist hefur.

Víst er um það að konur eru ákaflega þolinmóðar mannverur, langlundargeðið lygilega mikið. Þær hafa alltaf átt erfitt með að ná fram rétti sínum vegna ýmissa aðstæðna. Þær hafa að stórum hluta verið lokaðar inni á heimilum sínum, bundnar af umönnun, af hlutverki sínu, þjakaðar af þeim viðhorfum samfélagsins að einkenni hinnar góðu konu, eiginkonu, dóttur, móður, sé fórnfýsi og þolinmæði, hlutverk hennar sé að þjóna öðrum, fórna sér í þágu annarra, umfram allt vera sú kjölfesta - vel að merkja ódýr kjölfesta — sem heimilið, hornsteinn þjóðfélagsins, hvílir á.

En öðru hverju ofbýður konum. Þær rísa upp og sameinast um að leita réttar síns, leita viðurkenningar á því hlutverki sem þeim er ætlað að gegna en er lítilsvirt af samfélaginu, a.m.k. í beinhörðum peningum. Það er býsna þung og kröftug alda þegar konur sameinast um sín mál. Ein slík alda rís hátt þessa dagana. Ríkisstj. og öðrum vinnuveitendum ber að hlusta á þessar raddir og taka mið af þeim.

Hvað varðar tillögur Alþýðusambandsins og Vinnu­veitendasambandsins um úrbætur fyrir þá verst settu, sem greiddar verða úr ríkissjóði, er það náttúrlega stærsta áhyggjuefnið að slíkar úrbætur skulu vera skoð­aðar sem liður í kjarasamningum og notaðar til að halda niðri lægstu launum. Slík niðurgreiðsla vinnuaflsins gæti hamlað öllum breytingum launa hjá viðkomandi hópum síðar meir þegar aðstæður batna. Hætt er við að atvinnurekendur ánetjist slíku ástandi.

Það er sígild lágmarkskrafa að laun verða að vera nægjanleg til framfærslu. Núverandi neyðarástand má ekki verða til þess að festa þessi laun við sultarmörkin.

Að hinu leytinu er svo auðvitað sjálfsagt mál að ríkið komi til liðs við þá verst stöddu með ýmsu móti og þær tillögur sem á borðinu liggja stefna í rétta átt. Það er t.d. góð hugmynd að tengja upphæð barnabóta við tekjur en tekjumarkið er allt of lágt og þyrfti að vera töluvert hærra til að koma að einhverju raunverulegu gagni. Þá eiga meðlagsgreiðslur skv. þessum tillögum aðeins að hækka um 400 kr. á mánuði fyrir hvert barn, sem er fáránlegt. Þetta er varla fyrir gallabuxum á smákrakka.

Þær úrbætur sem fyrirhugaðar eru til handa einstæð­um foreldrum ganga því alltof skammt þótt prósentu­tölur gefi annað til kynna. Þær sýna okkur einungis hve ástandið er smánarlegt og furðulegt hvað tekið hefur langan tíma að komast að þeirri niðurstöðu að kjör einstæðra foreldra þyrfti að bæta.

Eins sakna ég sérstaklega í þessum tillögum og það er sú hugmynd að greiða út ónýttan persónuafslátt sem ég tel sjálfsagt að fólk fái greiddan rétt eins og barnabæt­urnar ef þær nýtast ekki til frádráttar í skatti. Þessi hugmynd hefur oft komið upp og ég styð hana ein­dregið.

En að lokum, getum við nú ekki sameinast um að gera betur við elli- og örorkulífeyrisþega en lagt er til í hugmyndum Alþýðusambandsins og Vinnuveitenda­sambandsins? 10% hækkun tekjutryggingar er ekki neitt. Hámarksupphæð fyrir einstakling hækkar ekki einu sinni um skitinn 400 kall. Hvernig getum við verið þekkt fyrir að búa svona að örorku- og ellilífeyrisþeg­um? Í rauninni er það lágmark að hækkun til þeirra nemi 25–30%. Kjör þeirra eru orðin svo aum að ekki má minna vera til að þau nái endum saman. Þau kjör sem við ætlum þessu fólki að búa við eru til vansæmdar.

En svo að ekki gleymist að svara spurningum þeim sem ég bar fram hér áðan ætla ég að endurtaka þær. Hver er afstaða ríkisstj. til þess augljósa misréttis sem konur búa nú við á vinnumarkaðinum? Hefur ríkisstj. fjallað um málið með tilliti til þeirrar miklu umr. sem á sér stað úti í þjóðfélaginu?