23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3128 í B-deild Alþingistíðinda. (2715)

Umræður utan dagskrár

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Með hinni mestu ánægju beið ég eftir því að hæstv. fjmrh. tæki til máls. Og meðan hann talaði og þá um það bil er hann hafði lokið máli sínu rann upp fyrir mér hvers vegna við þurftum að bíða svo lengi á hv. Alþingi eftir svörum hans. Hann gekk, eins og sjá mátti, inn í hliðarherbergi og sneri þar skildinum. Hann setti hann á bak og hinn vígreifi, sókndjarfi hæstv. fjmrh., sem hér hefur hvað eftir annað á þessum vetri komið í ræðustól, bitið í skjaldarrendur og sagt: Innan við 4% eða ég er farinn, er nú kominn í skógarferð til að útskýra hvers vegna hann geti setið a.m.k. nokkra daga í viðbót. Þannig er það nú. Og það er það sem upp úr stendur af þeim svörum sem hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. hafa gefið hér í dag.

Það vafðist heldur tungan uppi í hæstv. fjmrh. þegar hann upplýsti að ríkisstj. hefði alls engar ákvarðanir tekið um hvaðan þessar 304–340 millj. kr. ættu nú að koma. Og skýringin er einföld. Fjmrh. upplýsir að honum hafi verið falið það verkefni af ríkisstj. að redda þessu. Þannig er nú unnið á þeim bæ. Ríkisstj. heldur öllum spilum upp að brjóstinu á sér á sama tíma og hún ætlast til þess að hreyfing launþega í landinu leggi allt á borðið og leggi allt undir til að fá þær hundsbætur sem ríkisstj. ætlar að taka einhvers staðar úr ríkisdæminu­ og ég segi hundsbætur.

Hv. þm. Þorsteinn Pálsson hafði þann skilning um­fram aðra, sem hér hafa talað, að „det skal jo to til“ og hugsanlega gætu einhverjir úr röðum atvinnurekenda fellt þessa samninga líka. Hvar stendur þá hæstv. ríkisstj. og hennar loforð, ef það er allt ómark og fyrir bí? Ég segi þetta vegna þess að þess eru dæmi að atvinnurekendahlið málsins sættir sig ekki við þessa samninga og aðra sem gerðir hafa verið undanfarið.

Það vill nú svo vel til að árið 1981, þegar samið var um lágmarkslaun hliðstætt og nú á að gera, felldi ákveðið aðildarfélag að Vinnuveitendasambandi Ís­lands þá samninga. Það var félag hárgreiðslumeistara sem felldi það að greiða sínu fólki þau lágmarkslaun sem þá var um samið. Því vil ég fara aðeins ofan í það mál að nú vill svo vel til, góðir þm., að á hv. Alþingi situr einmitt framkvæmdastjóri þess ágæta sambands, ef ég fer rétt með. Hún heitir Kristjana Milla Thor­steinsson og situr hér inni sem varaþm. fyrir Sjálfstfl. Er gott að hafa slíkan sérfræðing um þetta mál á þinginu í dag, þegar við ræðum þetta, því að þannig hafa kjör þess hóps verið, sem við það hefur mátt búa undanfarin ár að fá ekki greidd lágmarkslaun, að ég hygg að sé algert einsdæmi í íslensku þjóðfélagi. — Það er algert einsdæmi að mönnum sé ætlað að lifa á undir 5 þús. kr. á mánuði, eins og rakið hefur verið og komið hefur fram í blöðum undanfarið.

Þau laun sem greidd hafa verið sem byrjunarlaun hárgreiðslunema hafa verið samkv. samningum 7775 kr. Það þýðir að útborguð laun hafa verið 6298 kr. Og enn þá verra hefur þetta verið, enn þá meiri hörmung hefur þetta verið hjá hárskeranemum, þar sem útgreidd laun hafa verið alveg niður í 5431 kr. Þá er ég ekki að tala um þá sem eru á heils árslaunum og fá jafnvel innan við 5 þús. kr., eins og dæmin sanna sem rakin hafa verið og því er ómótmælt. Þess vegna spyr ég nú: Ef svo fer að hið ágæta samband hárgreiðslumeistara og þá vænt­anlega samband hárskerameistara aftan í þeim eins og venjulega fellir þessa samninga, hvar stendur þá þetta fólk og hvað verður þá gert? Jú, ætli meistararnir fari ekki svipaða leið og 1981, að þeir bæti prósentuhækkun ofan á fastakaupið hjá sér og þá mundi eiga að bjóða þessu fólki í laun svo sem eins og 8100 kr. á mánuði fyrir hárgreiðslunemana og 7 þús. kr. fyrir hárskeranemana. Þeir sem eru á föstum námssamningi fengju þar af leiðandi enn þá lægri laun. Hvernig yrði aðstaða þessa fólks þá?

En það er ein gleðileg hlið á þessu máli. Hún er sú, að ef talsmenn Sjálfstfl., þm. jafnt sem varaþm., beita sér fyrir því að allir aðilar virði þetta samkomulag lít ég svo á að félag hárgreiðslumeistara sé skuldbundið til að greiða sínu fólki þaðan í frá lágmarkslaunin, 11 þús. og hvað það nú væri kr. Það væru vissulega gleðileg tíðindi.

En ég vildi vekja athygli hv. þm. og hæstv. ráðh. á því að það eru tvær hliðar á málinu og þess eru fordæmi að fleiri en verkalýðsfélög geri sig óánægða með slíka samninga. Við skulum gefa okkur að einhverjir at­vinnurekendur væru þannig staddir í dag og þannig sinnaðir í dag að þeim þættu þessi lágmarkslaun ekki bjóðandi og ákvæðu að semja sérstaklega við sitt fólk og greiða því svo sem eins og lágmarkstöluna 15 þús. kr. á mánuði. Hvar eru þá ráðstafanir ríkisstj.? Hvar er þá þvingunin og skrúfan? Hér eru svoleiðis vinnubrögð á ferðinni af hálfu hæstv. ríkisstj. að óviðunandi eru. Ef þeir ætla að halda fast í þá túlkun sína að eitt skuli þarna yfir alla ganga og enginn megi fá sérstaka leiðréttingu á sínum séraðstæðum eru það óviðunandi vinnubrögð af þeirra hálfu, segi ég.

Ég vil nota tækifærið, úr því að ég er kominn í ræðustól, til að vekja athygli á því að það hafa verið fleiri hundsbætur eða hundslappir í þessum bótum ríkisstj., sem notaðar eru til að plástra saman þessa samninga. Ég vil þar vekja athygli á þeirri útreið sem námsmenn á Íslandi fá enn á ný af hálfu hæstv. ríkisstj. Það hefur komið fram í umr. hér á Alþingi áður að námslán eru nú skert og brotnir eru þeir samningar sem náðust eftir langt þóf milli ríkisvaldsins annars vegar og samtaka námsmanna hins vegar um Lánasjóð ísl. náms­manna. Það á að höggva ekki bara einu sinni og tvisvar heldur þrisvar í sama knérunninn hvað þetta varðar. Nú skulu námsmönnum ekki greiddar sömu barnauppbæt­ur sem aðrir eiga að fá. Þeir eru þar settir á bekk með atvinnurekendum og framfærslulánin sem þeir fá eru sett í hóp með annarri framfærslu frá atvinnurekendum. Þetta finnst mér skrýtin latína af hálfu hæstv. ríkisstj. Það er gaman til þess að vita að hv. þm. Friðrik Sophusson er stuðningsmaður þessarar stjórnar — sá sem mest hefur gumað af stuðningi sínum við náms­menn og sat í eina tíð af hálfu síns flokks í samstarfs­nefnd sem gekk frá samkomulagi við þá, ef mig misminnir ekki, hv. þm. Nú stendur þú að því að ekki einu sinni og ekki tvisvar heldur margoft er vegið að námsmönnum á sama árinu á ýmsa vegu af hálfu þessarar hæstv. ríkisstj. Er ekki gaman, hv. þm., að vera aðili að þessu? Það er von að þú brosir.

Þetta segi ég sérstaklega til að vekja sérstaka athygli á þeirri útreið sem ungt fólk fær út úr þessu öllu saman vegna þess að í kjarasamningunum sjálfum, sem nú er verið að ræða um, er útkoma þess ekkert til að hrópa húrra fyrir. Hér er um sama fólkið að ræða í mörgum tilfellum, námsmenn. Og það þykir líka skrýtin latína, þar sem ég þekki til úti á landi í sjávarplássum, þar sem unglingar eru yfirleitt undirstaðan undir sumarvinnunni í fiskverkuninni og eru þar byrjaðir að vinna eins og fullorðið fólk 13–14 ára gamlir og farnir að fá sinn bónus í samræmi við sín afköst, að þeir skuli nú ekki eiga að teljast fullgildur vinnukraftur fyrr en 18 ára gamlir, 3–4–5 árum eftir að þeir eru farnir að stunda sjó við hliðina á fullorðnu fólki eða vinna í verkun við hliðina á fullorðnu fólki og skila þar sambærilegum og jafnvel betri afköstum. Það er vegið illilega að unga fólkinu. Og við gleymum því oft að það hefur stuttan sumartíma til að fleyta sér í gegnum skóla eða annað yfir veturinn. Ég hygg að það hljóti einhverjir hér inni að geta litið í eigin barm og minnst þess hversu vel mönnum entist sú hýra sem tókst að hafa inn á sumarmánuðunum til að framfleyta sér yfir veturinn.

En ég vil að síðustu vekja athygli á því, að svör við því sem ósköp eðlilegt var að spurt væri hér á hv. Alþingi, — um hvaðan ætti að taka þessa peninga, hvort ein­faldlega ætti að taka þá upp úr öðrum vasa launamanna og setja það ofan í hinn, þessa peninga sem ríkisstj. ætlar að verja í þessu skyni, — hefur verið lítið um af hálfu hæstv. ríkisstj. í þessum efnum. Það er þeim mun merkilegri þessi hræðsla þeirra við að segja nokkurn skapaðan hlut í þessum efnum sem við vitum og það hefur komið fram einmitt núna í kvöld og næstu daga verða verkalýðsfélög úti um allt land og væntanlega félög vinnuveitenda einnig að greiða atkv. um þessa samninga og þeim er ætlað að gera það í myrkri — því myrkri að ríkisstj. vill ekki láta toga út úr sér eitt einasta orð um hvernig hún ætlar að standa að þessu. Auk þess er fólki ætlað að gera það í því myrkri að það veit ekki hvort þjóðinni helst á fjmrh. sínum núverandi nokkrum dögunum lengur eða skemur.