23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3135 í B-deild Alþingistíðinda. (2718)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Hér hafa menn þóst þess umkomnir að deila á þá kjarasamninga sem hafa verið gerðir, bæði leynt og ljóst, bæði undir rós og ekki, og þeir sem að þeim hafa staðið frá hendi launþega eru snupraðir hvað eftir annað, ég tala nú ekki um forustu Alþýðusambandsins, og hér hafa menn farið með ýmsa þætti á afar frjálslegan máta.

Það er alveg ljóst að þeir kjarasamningar sem gerðir hafa verið nú eru hvergi nærri nægjanlegir til að bæta upp þá kaupmáttarrýrnun sem átt hefur sér stað, sem

hefur verið geysileg. Það hafa verið hirt úr launaum­slögum fólks 25% af laununum og menn stynja undan þeim byrðum sem á launþega eru lagðar. Verkalýðs­hreyfingin hefur leitast við að ná kjarasamningum, ekki í einn mánuð, ekki í tvo mánuði, heldur marga mánuði, án árangurs. Menn hafa viljað sigla, en ekki fengið byr.

Samninganefnd Alþýðusambandsins hefur hins vegar gert það sem mögulegt hefur verið til að ná samkomu­lagi, ná því sem unnt var að ná án þess að leggja til átaka. Ég er sannfærður um að það hefði mátt ná hærri prósentutölum með átökum, en menn töldu það ekki vænlegan kost. Það var sama hvar borið var niður í verkalýðsfélögunum um allt land, menn töldu það ekki vænlegan kost, þannig að minna varð úr því dæmi eins og það lá fyrir.

Það er vissulega þjóðarskömm að ekki skuli vera svo um hnútana búið að fólk fái a.m.k. 15 þús. kr. á mánuði, hver einasti maður. En það er nú einu sinni svo í lýðræðisþjóðfélagi, þar sem menn semja um kaup og kjör, að það eru tveir sem deila, atvinnurekendur og verkalýðssamtök. Í þessum viðræðum hafa atvinnurek­endasamtökin þverlega neitað að ganga að kröfum, sem Verkamannasambandið setti fram fyrst, um 15 þús. kr. dagvinnulaun. Því er málum svo komið að semja varð um lægri upphæð.

Það hefur heyrst hér m.a. að ekkert hafi verið gert til að bæta úr varðandi launamisrétti karla og kvenna. Ég furða mig á svona málflutningi, sem er ekkert annað en bull. Það fór fram kjarakönnun fyrir nokkru. Þessi kjarakönnun sýndi að það var einkum kvenfólk sem var á lægstu töxtunum. Menn skyldu fara yfir samningana og lesa þá. Þá sjá þeir að þetta fólk fær sérstakar bætur. Ef eitthvað hefur verið gert hefur það verið gert á þann veg að það verða fleiri konur en karlar sem njóta þess. Því hefur meira að segja verið haldið hér fram að kauptaxtar væru misjafnir, eftir því hvort það eru konur eða karlar sem ynnu á þeim. Það er ekki rétt. Menn verða að finna þeim fullyrðingum sínum stað. Það er aftur á móti rétt að kvenfólk er af atvinnurekendum flokkað í aðra launataxta en oft og tíðum er eðlilegt. En það er rangt að taxtarnir skipti körlum og konum. Þeir sem tala um þessi mál og þykjast berjast fyrir jafnrétti karla og kvenna ættu að kynna sér taxtakerfið.

Þegar komið var að samningslokum stóðu menn frammi fyrir því að samþykkja þær niðurstöður sem samninganefndin komst að, sem fólu í sér að tekju­trygging var hækkuð um 10% og 5% almenn hækkun átti sér stað. Var talið að þetta séu um 15.5%. Þetta er í eitt af örfáum skiptum sem reynt er sérstaklega að semja fyrir þá sem verst eru settir og gekk mun betur en áður, þó vissulega mætti árangurinn vera meiri.

Inn í þetta dæmi kemur það, að samninganefnd fær fyrirheit frá ríkisstj. um sérstakar úrbætur fyrir þá sem verst eru settir. Er ætlað að verja í það yfir 300 millj. Ég vil að það komi fram að Alþýðusambandið og verka­lýðsfélögin bentu ekki á lækkun niðurgreiðslna sem leið til að fjármagna þær bætur. Það var bent á útflutnings­bætur og það var bent á líka að þegar ríkisstj. vill finnur hún hundruð milljóna til að eyða í hvers konar þarfir. Síðast var það frv. þar sem 150 millj. fundust allt í einu. En ef niðurgreiðslurnar eru notaðar, sem vissulega er rætt um og Vinnuveitendasambandið hefur bent á og Alþýðusambandið rætt um, þó við höfum ekki bent á það sem leið, er rétt að átta sig á hvernig það virkar og gægjast í þann pakka sem þarna er á ferðinni. Samkvæmt því sem reiknað hefur verið út af hendi

Alþýðusambandsins munar allverulega um þessar bætur, sérstaklega fyrir þá sem eru verst settir. Það kom fram í kjarakönnuninni að einstætt foreldri hafði hvað minnstar tekjur og versta afkomu. Samkvæmt því sem ríkisstj. gefur fyrirheit um og við treystum að verði efnt fær einstætt foreldri í dag samtals á mánuði 13 089 kr. Þar eru innifalin lágmarkslaunin, barnabætur, mæðra­laun og meðlag. Þetta verður í stað þess að það er núna 13 089 kr. 16 938 kr. samkv. þessari yfirlýsingu eða 29.4% hækkun. Ef tekið er dæmi um einstæð foreldri með tvö börn fá þau í dag 16 þús. kr. út úr bótum sem í gildi eru í dag, en skv. fyrirheitinu fær þetta foreldri 21 999 kr. eða 37.5% hækkun. Ef við tökum einstætt foreldri með þrjú börn fær það í dag 19 425, en fær skv. þessu fyrirheiti 27 574 eða 42% hækkun í trygginga­bætur. Vissulega er þetta áfangi og vissulega skiptir þetta máli og er ástæðulaust að gera lítið úr því fólki sem að því stendur að semja um þessa hluti og ástæðulaust að láta eins og ekkert hafi skeð. Þetta er vissulega jákvæður þáttur. Það hefur verið reiknað út hvað það kostar ef niðurgreiðslurnar yrðu notaðar til að fjármagna þessar bætur. Hafa bæði Alþýðusambandið og Vinnuveitendasambandið reiknað það út og fengið sömu útkomu. Þá er lagður til grundvallar neyslugrund­völlur frá 1978–1979, sem er það nýjasta, reiknaður út af Þjóðhagsstofnun. Þetta er í fyrsta sinn í a.m.k. langan tíma sem tryggingabætur eru skilyrtar eftir tekjum. Ef við tökum dæmi um einstætt foreldri sem hefur 150 þús. kr. í tekjur á síðasta ári fær það foreldri úr þessu 25 800 eða 2150 kr. á mánuði. Ef 1/3 af kostnaði við niðurgreiðslur er tekinn til að fjármagna þetta, þ.e. 1/3 af niðurgreiðslum sem fara til að greiða niður kjöt, allar niðurgreiðslur hvað varðar nautakjöt, smjör og rjóma, kemur fram í þessum útreikningum, og hlustið nú vel á, að foreldri sem fær skv. þessum fyrirheitum 2150 kr. mundi missa 167 kr. Ef við tökum dæmi um foreldri með tvö börn fær það á mánuði skv. þessu 4300 kr., en mundi missa í niðurgreiðslum 292 kr. á mánuði. Ef við tökum dæmi um einstætt foreldri með þrjú börn fær það foreldri á mánuði 6450 kr., en mundi missa við niðurfellingu niðurgreiðslna 375 kr. á mánuði. Þetta er dæmi sem við teljum ástæðu til að skoða. Við höfum ekki lagt til að fara þessa leið, en ég held að það sé vert að skoða hvað þessir útreikningar sýna. Þegar menn eru að tala um að Alþýðusambandið eða verkalýðssam­tökin hafi samið um að taka úr einum vasanum til að setja í annan verður að vera ljóst að fyrir þá sem verst eru settir kemur þetta svona út.

Það má vissulega della um hvort tryggingabætur eru niðurgreiðslur launa. Því hefur verið haldið fram hér af mörgum. Þetta er dálítið sérstakt hugarfar til trygginga, finnst mér. Þetta er að vísu gamalt hugarfar. Þegar menn voru fyrst að koma tryggingunum á töluðu íhaldsmenn um að slíkt væri tilfinningavæl jafnaðar­manna sem væri gjörsamlega ónauðsynlegt, en mönnum hefur skilist smám saman að tryggingar eru notaðar til að jafna lífskjörin, hjálpa þeim sem minna mega sín og þá gjarnan á kostnað þeirra sem betur mega sín.

Við höfum talið rétt að nota þessa leið, að þrýsta á að ríkisvaldið gerði sérstakar úrbætur fyrir þá verst settu, og ég er sannfærður um að ef atfylgi verkalýðssamtakanna hefði ekki notið í þessum efnum hefði þetta aldrei verið gert — ekki undir þessari ríkisstj.

Það skiptir okkur minnstu máli hvort menn kalla þetta niðurgreiðslur á launum eða hvað þeir kalla það. Þetta er ófrjó umr. líkt og þegar guðfræðingar deildu um hvort var á undan, eggið eða hænan, en fyrir okkur er það staðreynd að með þessu móti getum við gert betur við þá sem verst eru settir. Auðvitað þarf að bæta úr fyrir gamla fólkinu, fyrir öryrkjum, og verður að þrýsta á það. Í þessum kjarasamningum fékkst það ekki fram, en við skulum vona að Alþingi og ríkisstj. takist að þoka þeim málum fram.

Það er mjög athyglisvert oft þegar gerðir eru kjara­samningar að þegar hækkað er við þá sem verr eru settir gagnrýna þeir sem betur eru settir mjög harkalega að fá ekki sömu bætur. Ef Jón Jónsson fær sérstaka hækkun, sem var lægra launaður en Páll Pálsson, þá setur Páll þetta þannig fram að hann hafi verið lækkaður í launum. Þetta eru vísindi sem við þekkjum úr verka­lýðshreyfingunni og kannske sérstaklega hjá þeim sem eru andstæðingar verkalýðssamtakanna. En ég á von á að þessi söngur komi til með að heyrast nú á næstunni.

Það er staðreynd að menn eru ekki ánægðir með þessa kjarasamninga, en menn telja að lengra hefðum við ekki komist. Við stóðum frammi fyrir því að efna til átaka eða að mæla með þessum samningum. Það er þægilegt að sitja á Alþingi og láta frýjunarorð falla í garð launþega í landinu og segja að betur hefði mátt gera, en horfa fram hjá því að það hefði kostað veruleg átök á vinnumarkaðnum. Það er huggulegt að sitja hér inni í hlýjum sölum í þægilegum stólum og segja verkafólki fyrir verkum — fólki sem víðast hvar um allt land býr við atvinnuleysi, fólki sem varla hefur ofan í sig og á. En þetta sama fólk hefur ekki lýst sig á félagsfund­um verkalýðsfélaganna reiðubúið að efna til átaka og það er þess vegna sem þessir samningar eru gerðir.

Ég vek athygli á að þessir samningar eru með opnunartímabilum 1. september og 1. janúar. Við skulum vona að þá verði meiri og betri byr, en hann er ekki nú fyrir hendi.

Það heyrast þær draugaraddir hér annað slagið að erfiðleikar verkafólksins séu verkalýðsforingjum að kenna. Þetta er þekktur hugsunarháttur sem oftast nær kemur úr munni atvinnurekenda, en nú heyrist það annars staðar frá. Og það er sagt að ef fólkið semdi á sínum eigin vinnustöðum hvert fyrir sig mundi það ná miklu betri árangri. Vissulega mundi margt breytast, en það er ég sannfærður um að þeir sem verst eru settir færu verst út úr slíkum samningum. Þeir sem best eru settir og hvað grimmastir varðandi sjálfa sig mundu fá mest í sinn hlut ef svo yrði farið að. Staðreyndin er sú að þeir sem gera þessa samninga og bera ábyrgð á þeim frá hendi verkalýðssamtakanna eru að semja fyrir fólk og vegna fólksins í félögunum og það er það sem þrýstir á.

Ég treysti því og við teystum því að þau fyrirheit sem hér hafa komið fram verði efnd. Ef það yrði ekki gert á ég von á að meiri háttar átök mundu hefjast í þjóðfé­laginu og þá mundi ekki skipta máli hvort einstök félög hafi samþykkt samningana eða ekki. Þeim mun verða rift hjá hverju einasta verkalýðsfélagi ef ríkisstjórnin stendur ekki við sín fyrirheit. Það er svo einfalt með þau mál.

Ég vænti þess að menn sjái að þeir kjarasamningar sem nú hafa verið gerðir eru í þeirri mynd að samninga­nefnd Alþýðusambandsins hefur freistað þess að láta sem mest koma í hlut þeirra sem verst eru settir. Það er aðalsmerki þessara samninga. Og ég treysti því að verkafólk fái að vera í friði með að gera upp hug sinn um hvort það tekur þessum samningi eða ekki — í friði fyrir þeim sem reyna nú að skrumskæla það sem um hefur verið samið og gera tortryggilegt.

Ég endurtek að enginn í Alþýðusambandinu eða nokkru verkalýðsfélagi er ánægður með þennan samn­ing, en staðreyndin er sú, að menn töldu sig vera komna að leiðarlokum og valið var á milli þess að taka þessu eða efna til átaka. Alþýðusambandið og formannafund­ir hafa metið hlutina þannig að rétt væri í ljósi þess hvert ástandið er á vinnumarkaðnum, kjaralega séð líka, að mæla með samþykkt þessara samninga. Og ég endurtek: Við skulum vona að þeir sem vilja gera betur geti gert það við betri byr á næstunni.