27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

1. mál, fjárlög 1984

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Á fundi fjvn. í morgun mættu til viðtals fulltrúar frá Bandalagi ísl. leikfélaga. Þeir rifjuðu það upp fyrir okkur á þeim fundi að í n. sæti einn ágætur leikari, hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmason, og við auðvitað sannfærðumst um það hér á þingfundi í dag að þetta var rétt aths. hjá formanni bandatagsins. Karvel fór víða í sinni ræðu áðan eins og við var að búast og nefndi m.a. að hann drægi það mjög í efa að stefnan í verðtags- og launamálum, sem kemur fram í fjárlagafrv., mundi standast. Hann bætti síðan við að það skipti auðvitað ekki máli hvað hann vildi sjálfur — spurningin væri ekki hvað hann vildi — en ég held að málin séu raunverulega þannig að nú ríði á að við stöndum öll saman. Og ef menn standa ekki saman í þeim erfiðleikum sem fram undan eru heldur reyna að brjóta niður hver fyrir öðrum þá er að sjálfsögðu mjög óvíst að þessar forsendur fái staðist. Þess vegna segi ég það við hv. þm. að mér finnst það vera mikil spurning hvað hann vill og hvernig hann stendur að mátum eins og við reyndar öll.

Hv. 3. þm. Norðurl. v., fyrrv. fjmrh. Ragnar Arnalds, kom einnig víða við í sinni ræðu og byrjaði á því að telja að það væri óhæft að hefja hallarekstur í ríkisbúskapnum. Um þetta getum við sjálfsagt öll verið sammála en mér fannst einhvern veginn á því sem síðast kom í ræðu hjá honum að þar fylgdi ekki alveg hugur máli vegna þess að yfirleitt fannst mér að margt þyrfti að hækka mikið umfram það sem fjárlögin gerðu ráð fyrir og fæ ég ekki séð hvernig það mundi gerast öðruvísi en halli yrði á búskapnum. Hann taldi t.d. eðlilega og nauðsynlega hækkun á öllum fjárfestingarliðum vera um það bil 35%. Sjálfsagt væri æskilegt að geta hækkað þessa liði eins og hann ræddi um en það kostar bara mikið fjármagn sem við teljum okkur ekki hafa úr að spila eins og er.

Hann nefndi einnig, að engar hækkanir væru til lista og menningarmála eða til menningarstarfsemi. Rétt er að þeir liðir, sem fjalla um slíka starfsemi í fjárlagafrv., hafa verið settir þar inn óbreyttir. Það er hins vegar alls ekki óvenjulegt. Það hefur oft gerst áður í fjárlagaafgreiðslunni að þegar frv. hefur verið lagt fram þá hafa þessir liðir verið settir inn óbreyttir og fjvn. síðan unnið að því að hækka þá og lagfæra þá eftir því sem kröfur eða beiðnir bærust til nefndarinnar hverju sinni.

Fjárlagafrv. það, sem hér er til meðferðar, er á ýmsan hátt sérstætt og frábrugðið í uppbyggingu þeim fjárlagafrumvörpum sem lögð hafa verið fyrir hv. Alþingi undanfarin ár. Í fyrsta lagi er það lagt fram við óvenjulegar og erfiðar aðstæður í þjóðfélaginu. Mikill samdráttur hefur orðið í þjóðartekjum sem fyrst og fremst stafa af minnkandi sjávarafla. Þetta hefur leitt til verulegs samdráttar í þjóðfélaginu almennt sem síðan hefur sín áhrif á frumvarpsgerðina og setur sinn svip á uppbyggingu þess. Í öðru lagi má nefna að frv. tekur mið af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar á næsta ári og viðleitni hennar til að draga úr ríkisumsvifum án þess þó að skerða mikilvæga félagslega þjónustu. Í þriðja lagi er gerð tilraun til þess að setja fram fjárlög sem taka mið af raunverulegum ríkisútgjöldum og geti á þann hátt orðið það stjórntæki sem þeim ber að sjálfsögðu að vera. Fleira mætti nefna en lítum aðeins nánar á þessa þrjá þætti.

Í fyrsta lagi eru það ríkjandi aðstæður. Það erfiða ástand sem nú er í þjóðfélaginu stafar fyrst og fremst af verulegum samdrætti þjóðartekna. Þjóðarbúskapurinn hefur hreppt mikinn andbyr og orðið fyrir áföllum. Munar þar að sjálfsögðu mest um stórlega minnkandi þorskafla á s.l. ári og enn þá meiri samdrátt afla það sem af er þessu. Vandséð er hvernig leyst verða þau stóru vandamál sem nú eru að skapast í sjávarútveginum. Þá brást loðnuvertíðin sem hefur að sjálfsögðu einnig stórkostleg áhrif á þjóðarhag. Á sama tíma og þetta gerðist óx allur innlendur kostnaður vegna mikillar verðbólgu. Verulegur halli varð á viðskiptum við útlönd þar sem þjóðartekjur drógust saman og útflutningstekjur minnkuðu. Ljóst var því að grundvöllur atvinnuveganna var mjög ótryggur við þessar erfiðu aðstæður og þar með atvinnan í landinu. Því gripu ný stjórnvöld til mjög róttækra efnahagsaðgerða til að sporna við vandanum, draga úr skuldasöfnuninni við útlönd, lækka verðbólguna og treysta grundvöll atvinnulífsins. Þetta hefur vissulega leitt til tímabundins samdráttar í þjóðfélaginu. Þensla hefur minnkað með minni verðbólgu og rýrnandi kaupmáttur hefur einnig haft það í för með sér að neysla hefur minnkað, dregið hefur úr innflutningi og þar með viðskiptahalla en þá að sjálfsögðu einnig úr tekjum ríkissjóðs. Áður en til þessara aðgerða var gripið var atvinnuörygginu veruleg hætta búin og erfitt að gera sér í hugarlund hvert ástandið væri nú ef t.d. laun hefðu hækkað um 22% í júní og verðbólgan þar með tekið nýtt stökk upp á við. Ljóst er þó að nú þegar hefði fjöldi fyrirtækja verið kominn í strand, sveitarfélög t.d., sem hafa fasta tekjustofna sem ekki hækka með aukinni verðbólgu, hefðu einnig orðið að hætta við nánast allar sínar framkvæmdir og fjöldaatvinnuleysi með öllum sínum hörmungum væri skollið á. Ráðstafanir í maílok bættu hins vegar stöðu atvinnulífsins verulega. T.d. er ljóst að rekstrarstaða útflutnings- og samkeppnisiðnaðar hefur sjaldan verið betri en í kjölfar þessara aðgerða. Vissulega er hætt við að samdráttur tekna og eftirspurnar leiði til samdráttar í ýmsum þjónustugreinum sem starfa fyrir innlendan markað. Þó má geta þess og er full ástæða til að benda á það hér að samkvæmt nýlegri verðkönnun Verðlagsstofnunar, sem sagt var frá í fréttum útvarps í gær, eru Íslenskar vörur, sem á boðstólum eru í verslunum, mikið ódýrari en innfluttur varningur. Munar þar yfirleitt um meira en helming, í mörgum tilfetlum enn meira. Er því full ástæða til að þakka Verðlagsstofnuninni fyrir þessa upplýsingastarfsemi og nauðsynlegt að hvetja alla landsmenn til að gefa þessu gaum og hegða sér í samræmi við það því að ekki er víst að öllum hafi verið ljósar þessar staðreyndir. Má þá gera ráð fyrir að samdrátturinn beinist meira að innflutningnum en innlendri framleiðslu. Væri það vissulega af hinu góða og liður í því að gera atvinnuáhrif aðgerðanna jákvæðari.

Um stundarsakir eða þar til við höfum rétt úr kútnum og getum bætt lífskjörin með raunverulegri aukningu þjóðartekna hefur ástandið mikil áhrif á tekjur ríkissjóðs og þar með gerð og uppbyggingu fjárlagafrv. eins og ég nefndi í upphafi máls míns. Heildarskatttekjur ríkisins verða verulega lægri á næsta ári sem hlutfall af þjóðarframleiðslu en var t.d. á seinasta ári, jafnvel minni en áætlað er að verði nú í ár. Skýrist það m.a. af minni skatttekjum ríkisins af innflutningi og neyslu svo sem ég hef áður rakið og svo af þeim skattalækkunum sem ákveðnar voru í sumar sem liður í efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar svo sem lækkun tekjuskatts, hækkun barnabóta, lækkun aðflutningsgjalda og fleira sem oft vill gleymast þegar rætt er um þessar aðgerðir og hrópað er um einhliða árás á launin í landinu. Gert er ráð fyrir því í frv. að skattalækkun sú, sem orðin er, haldist á næsta ári og skattbyrði þyngist ekki miðað við greiðsluár.

Til að geta gert sér sem gleggsta grein fyrir heildarfjármáladæmi ríkissjóðs og þjóðarbúsins alls var lögð rík áhersla á að leggja hér fram fjárfestingar- og lánsfjáráætlun fyrir komandi ár um leið og fjárlagafrv. væri til meðhöndlunar í þinginu. Þetta hefur því miður ekki alltaf tekist en ber að gera og ánægjulegt að það tókst að þessu sinni því að í því felst markvissari og samstilltari stjórnun efnahagsmála. Hv. 3. þm. Norðurl. v. ræddi um misræmi sem hann taldi vera á uppsetningu frv. annars vegar og fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni hins vegar. Mun það hafa trúlega átt við hvað varðar málefni vegagerðar en það er hins vegar greint frá því í grg. með fjárlagafrv. að málefnum vegagerðarinnar verði gerð skil í lánsfjáráætluninni þannig að það er ekkert falið og það er ekki misræmi að þessu leytinu en málið var ekki endanlega frágengið eða fullfrágengið þegar fjárlagafrv. var til meðferðar og var hér lagt fram en hins vegar vísað til þess að málið yrði tekið til umfjöllunar með fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni. Meginstefnan í fjárlagafrv. og fjárfestingar- og lánsfjáráætluninni er að stilla saman viðunandi jafnvægi í viðskiptum við útlönd, áframhaldandi hjöðnun verðbólgunnar, viðleitni til að fjárfesta í arðbærum framkvæmdum sem best munu tryggja atvinnu til frambúðar og gæta þess jafnframt að margumræddur samdráttur tefli ekki atvinnuástandi í tvísýnu. Þetta er vandasamt verk og mikils um vert að ákvarðanir séu ábyrgar og teknar af fyllsta raunsæi.

Ríkisstj. leggur mikla áherslu á atvinnuöryggi og mun fylgjast vandlega með þróun atvinnumála um allt land, sagði hæstv. fjmrh. í ræðu sinni áðan. Það er ekki vafi á því að á undanförnum árum hefur ríkt töluverð umframeftirspurn á vinnumarkaði og enn mun nokkurrar spennu gæta, einkum hér á höfuðborgarsvæðinu, umfram það sem er víða úti á landi en þar er fremur farið að gæta samdráttar sem þó einkum mun enn sem komið er koma fram í byggingariðnaðinum. Að þessu verður ríkisstj. að gæta vandlega og bregðast við í tæka tíð og á réttan hátt ef verulegra breytinga eða misræmis fer að gæta í atvinnuástandinu. Einnig þarf að hafa þessi atriði í huga þegar skipt verður því takmarkaða framkvæmdafjármagni sem frv. gerir ráð fyrir. Þá tel ég að þurfi mjög að gæta að því að atvinnulífið verði treyst eins og mögulegt er með þeim aðgerðum og fjárveitingum sem fjárlagafrv. og fjárfestingar- og lánsfjáráætlun gera ráð fyrir.

Ég hef nú gerst nokkuð langorður um almennt efnahagsástand þó umr. eigi að sjálfsögðu ekki að snúast — a.m.k. ekki eingöngu — um það og skal frekar ræða um nokkra liði fjárlagafrv. og gerð þess.

Ég sagði í upphafi, að í öðru lagi bæri frv. vott um þá stefnu að draga úr ríkisumsvifum. Í kjölfar efnahagsaðgerðanna í sumar heyrðist oft sagt að ríkið ætti líka að spara sem er bæði sjálfsagt og nauðsynlegt og ekki bara þegar þrengist um heldur á alltaf að gæta aðhalds í meðferð opinbers fjár. En þessar raddir sem krefjast sparnaðar verða því miður æðioft hjáróma þegar nánar á að skilgreina sparnaðinn sjálfan, því að það er oft léttara um að tala en í að komast.

Í sumar hafa fulltrúar stjórnarflokkanna unnið með fjmrh. og fulltrúum hans í fjmrn. og fjárlaga- og hagsýslustofnuninni við að leita leiða sem leitt gætu til sparnaðar í ríkisrekstrinum. Ég hef tekið þátt í þessari vinnu fyrir hönd þingflokks Framsfl. Hefur fjölmargt verið athugað og margt af því tekið til greina við uppsetningu frv. Reynt hefur verið af fremsta megni að gæta þess að sá samdráttur bitnaði ekki á nauðsynlegri félagslegri þjónustu. En á hitt verður að líta að þau ráðuneyti, sem helst þjóna þessu hlutverki, þ.e. heilbr.- og trmrn. og menntmrn., fara með 55% eða meira en helminginn af heildarútgjöldum frv. Það er því ljóst, að útilokað er að koma við verulegum sparnaði án þess að það komi að einhverju leyti einnig við þessi ráðuneyti. Meginatriðið er líka það að spara og auka hagkvæmni í rekstri án þess að það komi niður á félagslegri þjónustu, reyna að ná því fremur fram í hagræðingu og sparnaði í rekstrinum.

Mikið hefur verið básúnað um fyrirhugaðan sparnað í tryggingakerfinu — og m.a. í umr. hér í dag að sjálfsögðu — upp á um það bil 300 millj. kr. Til almannatrygginga er áætlað að verja tæplega 4.7 milljörðum, hefðu verið 5 milljarðar að viðbættum þessum 300 millj. sem áætlað er að spara eða 28.7% af heildarútgjöldum ríkisins. Þessir 5 milljarðar eru 28.7% af heildarútgjöldum ríkisins. 300 millj. eru 6% af þessum 5 milljörðum og verður því vart trúað að ekki megi koma við slíkum sparnaði í öllu því kerfi án þess að leiði til stórvandræða eða að það þurfi að bitna á þeim sem síst skyldi. Því treysti ég að till. heilbr.- og trmrn. svo og meðferð fjvn. á þessu máli leiði til þess að við finnum leiðir sem við getum sætt okkur við í því að ná fram þessum sparnaði.

Í viðbót við margvíslegan sparnað á hinum ýmsu útgjaldaliðum er áætlað að ná fram heildarsparnaði sem nemi 2.5% á launaliðum frv. og 5% á almennum rekstrarútgjöldum. Um þetta hefur nokkuð verið rætt einnig í umr. í dag. Hv. 3. þm. Norðurl. v. taldi reyndar að það væri nokkuð auðvelt að spara í almennum rekstrarútgjöldum þessi 5%. Það ætti að vera hægt ef menn tækju á því máli en erfiðara yrði sjálfsagt að ná fram sparnaði í launaliðnum. Ég tel hins vegar að ef okkur ekki tekst að spara í launaliðnum þá verði erfitt að spara í almennum rekstrarútgjöldum. Það er til lítils að hafa starfsfólks sem kannske yrði ekki vinnandi ef það hefði engin rekstrarútgjöld til þess að greiða það sem þarf til þess að það geti unnið sitt starf, að hafa starfsfólk á skrifstofum, ef við höfum ekki fjármagn til að greiða rekstrarkostnaðinn sem þarf til, er einskis vert. Þess vegna verður þessi sparnaður að fara saman. Við verðum að geta náð utan um báða þessa liði og hv. 7. landsk. þm. orðaði það einnig í sinni ræðu að það þyrfti að lækka yfirstjórn í meðförum þingsins svo að ekki kvíði ég því að við eigum ekki gott samstarf við þann hv. þm. um það að ná fram þessum markmiðum.

Hugmyndir hafa verið uppi um sparnað í mannahaldi á þann hátt að t.d. verði ekki samstundis endurráðið í störf sem losna, dregið verði úr ráðningu vegna sumarafleysinga, reynt verði að flytja fólk milli starfa til hagræðingar og dregið verði úr yfirvinnu svo að eitthvað sé nefnt. Þá hefur rn. nú verið ritað bréf og þau beðin um að athuga hvort þessum sparnaði mætti koma við á þann hátt að flytja til milli stofnana ef ein gæti sparað meira en önnur og mundi þá fjvn. að sjálfsögðu flytja um slíkt brtt. Er þetta gert til að reyna að gera þessar sparnaðaraðgerðir léttbærari og raunhæfari.

Oft heyrist að ekkert sé gert til þess að spara í sambandi við útgjöld vegna landbúnaðar. Þennan söng syngja jafnvel þeir sem betur vita. Á undanförnum árum hefur verulega dregið úr ýmsum framlögum sem veitt hafa verið á fjárlögum til þess að efla og styrkja landbúnaðinn og gera hann sjálfstæðari og betur fallinn til að taka við ýmsum áföllum en eins og allir vita er hann einnig undirstaða þróttmikils iðnaðar. Bændur hafa sjálfir með samtökum sínum unnið að breytingum á framleiðsluháttum sem leitt hafa til þess að framleiðsla mjólkurafurða má nú ekki vera minni til að fullnægja innanlandsmarkaði og ekki er gert ráð fyrir því að í ár þurfi að fullnýta verðábyrgð ríkissjóðs vegna útflutnings sauðfjárafurða og ekki heldur útlit fyrir að svo verði á næsta ári eins og reyndar kom fram í ræðu hæstv. fjmrh. áðan. Hins vegar hefur ríkissjóður ekki staðið við félagsmálapakka sem landbúnaðinum voru lofaðir 1979 til að mæta lækkun á afurðaverði sem um var samið á þeim tíma en líklegt að sumar aðrar starfsstéttir hefðu látið meira í sér heyra en bændastéttin hefur gert út af slíkum svikum í samningum. (EgJ: Hann hefur svikið miklu meira en það.) Það kann að vera, hv. þm. (EgJ: Miklu meira.) En ég er þess fullviss að heyrst hefði meira í einhverjum öðrum hópum heldur en bændum út af þessu ef þeir hefðu verið sviknir á hliðstæðan hátt.

Og örfá orð um niðurgreiðslur sem oft eru í máli manna taldar styrkir til landbúnaðar en eru auðvitað ekkert annað en hagstjórnartæki stjórnvalda og m.a. notaðar til að jafna lífskjörin. Í júní 1982 var niðurgreiðsla 37% af óniðurgreiddu smásöluverði á 1. flokks dilkakjöti en í júlí 1983 var hlutfall- niðurgreiðslu 20% af þessu sama kjöti eða sams konar kjöti. Hér hefur orðið gífurleg breyting enda ráðgert að niðurgreiðslur lækki á næsta ári í krónutölu um 23 millj. frá því sem áætlað er að þær verði á þessu ári og mismunurinn var frá því að vera 37% af verðinu í fyrra í það að vera 20% af verðinu nú. Um þetta er hvorki ritað né rætt, enda kjósa sumir að halda sig við þann málflutning sem líklegastur er til að valda æsingi og óánægju.

Sjálfsagt er að taka til endurskoðunar lög er varða mátefni landbúnaðarins, eins og ýmsa aðra þætti ríkisfjármála, en sú umfjöllun þarf að vera sanngjörn og málefnaleg en ekki mótuð af einhverjum fordómum eins og oft virðist vera þegar rætt er um landbúnaðarmál.

Í þriðja lagi nefndi ég í upphafi máls míns að í þessu frv. væri gerð tilraun til að færa fjárlögin nær raunveruleikanum. Um þetta hafa einnig verið miklar umræður hér í dag einmitt um þetta atriði og túlkun þeirra sem standa að þessari fjárlagafrv.-gerð. Með þessum ummætum átti ég við að fjárlög undanfarinna ára hafa gert ráð fyrir ákveðinni verðtagsþróun og verið framreiknuð með ákveðinni reiknitölu. Við ákvörðun rekstrarútgjalda hefur verið stuðst við fyrri fjárlög en ekki tekið mið af ríkisreikningi, það er, því sem reksturskostnaðurinn varð í raun nema að mjög takmörkuðu leyti. Þessi aðferð var svo sem ekki verri en hver önnur, ef verðlagsþróun hefði orðið í samræmi við reiknitölur frv. en þegar verðbólgan varð á hinn bóginn miklu meiri kom að sjálfsögðu fram skekkja sem síðar var bætt með aukafjárveitingum til viðkomandi ráðuneytis eða stofnunar. Mun þetta reyndar vera aðferð, sem hefur verið viðhöfð lengi og jafnvel hér áður fyrr sem ég þekki reyndar ekki til, þá hafi ekki verið gert ráð fyrir neinum reiknitölum eða neinum hækkunum í frv., heldur því stillt upp á desemberverðlagi. Þetta vita að sjálfsögðu allir sem vilja vita og vilja fara með rétt mát. Því er hins vegar ekki til að dreifa í málflutningi stjórnarandstöðunnar eða málgögnum hennar, þegar slegið er upp fréttum um tuga og hundraða prósenta hækkun hjá einstökum ráðuneytum þá leyfa menn sér að líta framhjá, ég segi í áróðursskyni þeim staðreyndum að í mörgum tilfellum gera fjárlögin fyrir þetta ár, 1983, ráð fyrir minni upphæðum í krónum talið heldur en ríkisreikningur fyrir árið 1982 greinir frá að hafi í raun og veru verið eytt. Tvö rn. hafa oft verið nefnd hér í umr. í dag, forsrn. og utanrrn. Ég vil leyfa mér að lesa hér upp tölur sem fram koma í fjárlagafrv. og menn ættu þar að geta gengið að og séð þess vegna hvernig þetta dæmi lítur í raun út. Ef við tökum forsrn. fyrst, aðalskrifstofu, þar greinir ríkisreikningurinn fyrir 1982 frá því að útgjöld hafi verið 9 776 þús. Fjárlagafrv. fyrir árið í ár gerir hins vegar ráð fyrir því að þetta rn. eða aðatskrifstofa þess eyði 8 615 þús. eða nærri því 1 millj. lægri tölu en ríkisreikningurinn fyrir árið 1982 greinir frá. Frv. nú gerir hins vegar ráð fyrir, að þarna verði leiðrétting sem taki mið af raunveruleikanum og fjárveiting er nú upp á 17.8 millj.

Sömu sögu er að segja um utanrrn. en þar er munurinn reyndar enn þá meiri. Þar sýnir ríkisreikningur fyrir 1982, að utanrrn. aðalskrifstofa hafi eytt 20 098 þús. Fjárlagafrv. fyrir 1983 gerir hins vegar aðeins ráð fyrir að þetta rn. eyði 16 369 eða nær 4 millj. lægri tölu heldur en ríkisreikningur segir að hafi verið eytt árið 1982. Síðan er það leiðrétt nú í fjárlagafrv. að þessu sinni og þá koma út þessar hækkunarprósentur sem menn hafa lesið hér margoft í dag, 107% hjá forsrn. og 113 hjá utanrrn. Svona uppsetning tel ég að sjálfsögðu hafi verið algerlega óraunhæf. Einhverjir kunna að segja og hafa reyndar bent á það hér í dag líka, að með því að taka tölur ríkisreiknings sé verið að verðlauna eyðslusegginn, en e.t.v. að hegna þeim sem sparar og kann að felast í þessu nokkur sannleikur. Ríkisreikninginn á að sjálfsögðu að taka til gaumgæfilegrar athugunar og veita fullt aðhald við fjárlagagerðina eins og reyndar var gert að þessu sinni þar sem skoðað var sameiginlega ríkisreikningurinn, fjárlögin sjálf og endurskoðuð tekju- og gjaldaáætlun fjárlaga nú fyrir árið 1983. Og út úr því teljum við að við höfum unnið þessar tölur eins réttar og hægt væri. Á hinn bóginn hljóta allir að sjá hversu útilokuð og óraunhæf vinnubrögðin voru í raun orðin. Fjárlögin veittu ekki það aðhald og voru ekki það stjórntæki sem þau eiga að vera, þar sem tölurnar voru algjörlega óraunhæfar strax í upphafi og forráða- og forstöðumenn einstakra stofnana og rn. sögðu: Þetta er vonlaust, við getum ekki farið eftir því og þá þýðir ekkert um það að tala.

Þetta sáu menn reyndar fyrir ári síðan og í því sambandi má vitna í orð hæstv. félmrh., Alexanders Stefánssonar, en hann sagði við 1. umr. fjárlaga fyrir ári síðan, með leyfi forseta:

„Þegar ég les fjárlagafrv. og heyri forstöðumenn ýmissa ríkisstofnana útskýra fjárlagabeiðnir verð ég að játa að ég tel sjálfvirkni í fjárlagatölum ýmissa stofnana allt of ríkjandi aðferð. Verðlagsforsendum er bætt við fjárlagatölur gildandi árs og þar með málið afgreitt.“

Þetta sáu menn að sjálfsögðu fyrir ári en töldu þó rétt að reyna einu sinni enn afgreiðslu með þessu móti. Nú hefur hins vegar komið í ljós, ekki síst vegna rýrnandi tekna ríkissjóðs sem leiðir til þess að svigrúm til aukafjárveitinga er ekkert, að dæmið gengur ekki lengur upp á þennan hátt. Því var ákveðið að breyta nú til í vinnuaðferðum, reyna að finna raunhæfar tölur, en síðan verður að sjálfsögðu að standa á þeim. Þannig verða fjárlögin það stjórntæki sem þeim er ætlað að vera. Auk þess er eitt atriði enn sem gerir hækkun frá fjárlögum til frv. hærri en nokkrar verðlagsforsendur útskýra og vert er að gera grein fyrir. Á fjárlögum 1983 eru launaliðir tilgreindir á föstu verðlagi, en verðbótaliðurinn síðan tilgreindur í einu lagi á sérstökum lið undir fjmrn., Launa- og verðlagsmál, að upphæð 480 millj. rúmar. En nú er enginn slíkur liður heldur eru launin tilgreind á hverjum stað eins og áætlað er að þau verði á næsta ári og því eru launaliðirnir hærri sem þessu svarar í frv.

Af þessu öllu leiðir að þegar búið er að leiðrétta á þennan hátt rekstrarútgjöldin að lítið svigrúm er eftir til fjárfestingar, enda hækka fjárfestingarliðirnir lítið, lækka reyndar að raungildi og eru í sumum tilfellum alveg felldir niður, svo sem fjárveitingar til nokkurra fjárfestingarlánasjóða. Er þetta að sjálfsögðu óskemmtileg niðurstaða, en því miður óumflýjanleg og byggist auðvitað á þeirri staðreynd að sama krónan verður ekki notuð nema einu sinni.

Við höfum að undanförnu byggt nýjar og nýjar þjónustustofnanir, skóla, heilsugæslustöðvar, sjúkrahús o.fl. o.fl., sem stöðugt kalla á aukin rekstrarútgjöld sem að lokum leiðir okkur í þá stöðu sem nú er uppi. Að þessu leytinu verðum við að vera raunsæ og horfast í augu við vandann. Máli mínu til áréttingar langar mig til að lesa nokkrar línur úr ræðu hv. fyrrv. form. fjvn., hv. þm. Geirs Gunnarssonar, er hann mælti fyrir nál. við 2. umr. um fjárlög fyrir 1982, hinn 14. des. 1981 með leyfi forseta. Þar segir hv. þm.:

„Undirstaða allrar getu til að standa undir félagslegri þjónustu í landinu, hvort heldur er í skólamálum, heilbrigðismálum eða öðrum efnum, er verðmætasköpun í þjóðfélaginu, undirstöðuframleiðslan, og því aðeins er unnt að auka sífellt við þjónustuþættina að verðmætaöflunin aukist að sama skapi eða í einhverju sé dregið úr þeirri sóun sem kann að eiga sér stað á ákveðnum sviðum, t.d. í verslun hér á höfuðborgarsvæðinu. Ef við leggjum fjármagnið fyrst og fremst í þjónustustofnanir, án þess að efla grundvallarframleiðsluna, veltur þessi sístækkandi yfirbygging fyrr eða síðar, hversu nauðsynlega og óhjákvæmilega sem menn telja hana. Hún stendur ekki ein sér. Það nægir ekki að tryggja fjármagn í uppbyggingu þjónustuaðstöðu, svo báglega sem flestum finnst það takast við afgreiðslu hverra fjárlaga. Á hitt verður einnig að líta að þegar t.d. byggingu sjúkrahúss eða heilsugæslustöðvar er lokið, jafngildir árlegur rekstrarkostnaður, sem við tekur, að jafnaði þriðjungi byggingarkostnaðar. Það jafngildir því að slík stofnun væri reist þriðja hvert ár um alla framtíð.“

Herra forseti. Ég fer nú að stytta mál mitt. En í beinu framhaldi af þessum ágætu heilræðum sem fyrrv. formaður fjvn., hv. þm. Geir Gunnarsson, sem stundum hefur nú verið talinn eini maðurinn í Alþb. sem hafi eitthvert vit á fjármálum, langar mig til þess að fara örfáum orðum um nokkra einstaka þætti frv. Framlag til Framkvæmdasjóðs fatlaðra er nokkuð skert miðað við það sem lög sjóðsins ráðgera. Hefur þetta að vonum orðið töluvert umfjöllunarefni, bæði í fjölmiðlum og hér í dag, og talið að ráðist væri á garðinn þar sem hann er lægstur. Skerðingin á þessum sjóði er í samræmi við framlög til annarra sjóða og ekki skal ég draga úr því að þörf hefði verið á að geta gert betur, en hinu er sleppt í gagnrýninni að skv. frv. eru fjárveitingar til „málefna fatlaðra“ hækkaðar um 77 millj. eða 108%. Hér er einmitt verið að taka inn í fjárlagadæmið reksturskostnað þeirra heimila sem byggð hafa verið eða komið á fót fyrir tilstuðlan Framkvæmdasjóðsins að undanförnu. Er þetta gott dæmi til staðfestingar þeim ummælum hv. þm. Geirs Gunnarssonar sem ég vitnaði í áðan.

Ellefu ný heimili fyrir fatlaða taka til starfa og stöðugildum í þessum málaflokki til að reka þessi heimili fjölgar um 55. Krefst þessi aukning, 11 nýrra heimila, 55 stöðugilda, 77 millj. kr. í viðbófar- eða auknum rekstrarútgjöldum. Hér er ekki um litla aukningu að ræða og auðvitað lítill tilgangur í því að efla framkvæmdasjóð fatlaðra til fjárveitingar ef ekki er síðan kleift að reka stofnanirnar og þetta þurfum við að passa og geta ávallt stillt saman.

Með Framkvæmdasjóð aldraðra gegnir nokkuð öðru máli en með aðra fjárfestingarlánasjóði. Tekjur hans byggja á föstum nefskatti sem í ár var 300 kr. á hvern skattgreiðanda, með þeim undantekningum sem lögin þó greina. Í frv. er að sjálfsögðu gert ráð fyrir að sjóðurinn haldi þessum mörkuðu tekjum og að þessi skattur verði hækkaður í samræmi við aðra skattaálagningu. Hins vegar er ekki í frv. gert ráð fyrir að ríkissjóður leggi sjóðnum til fjármagn umfram tekjustofninn, en í ár er slík viðbótarfjárveiting sem gæti numið 8–9 millj. kr. skv. upplýsingum frá Þjóðhagsstofnun, en stofnunin gerir ráð fyrir því að innheimtur skattur verði á árinu rúmar 30 millj., kannske 31 eða 32, en fjárlögin í ár gera ráð fyrir 40 millj. kr. útgjöldum.

Um Lánasjóð námsmanna er það að segja að þar er gert ráð fyrir sömu skerðingu við úthlutun námslána á næsta ári og grípa varð til á þessu. Þá er gert ráð fyrir 8% fjölgun lána frá fyrra ári sem er nokkru lægri tala en tillögur sjóðsstjórnar gera ráð fyrir. Verði skerðing námslána á næsta ári ekki látin gilda, eins og á þessu, þýðir það u.þ.b. 150 millj. kr. í viðbótarfjárþörf sem því miður er ekki svigrúm til þess að veita eins og nú er háttað í þjóðfélaginu.

Tveir málaþættir hafa fengið þá sérstöku meðhöndlun að stefnt er að því að halda fullum framkvæmdum miðað við árið í ár. Er þar um að ræða húsnæðismál og vegaframkvæmdir. Svo sem kunnugt er hefur ríkisstj. samþykkt að hækka lán frá Byggingarsjóði ríkisins um 50% frá n.k. áramótum, svo og hjá þeim sem fengið hafa lán á árunum 1981–1983. Þetta þýðir að nú er gert ráð fyrir að íbúðabyggingar verði jafnmiklar á næsta ári sem þessu, en að öllu óbreyttu hefði mátt gera ráð fyrir samdrætti í samræmi við það sem þjóðartekjur og ráðstöfunartekjur einstaklinga hafa dregist saman.

Í vegamálum er einnig ráðgert að halda uppi öflugum framkvæmdum og stefnt að því að útgjöld til vegamála nemi 2.2% af þjóðarframleiðslu 1984.

1. landsk. þm. tilnefndi hér í sinni ræðu áðan sérstaka heimildargrein, eina sérstaka heimildargrein, sem fjallaði um niðurfellingu á aðflutningsgjöldum af myndsegulbandstæki til MR, Menntaskólans í Reykjavík, sem skólinn fékk að gjöf, og gerði fremur lítið úr því að því er mér fannst. Ég hafði nú ekki séð þessa grein áður og vissi ekki af henni þarna, en fletti þessu upp og las. Og ég verð að segja þessum ágæta hv. þm. og öðrum að á undanförnum árum hafa sams konar eða svipaðar greinar oft verið inni í fjárlögum eða hliðstæðar þessari, sem að sjálfsögðu auðvelda ýmis tækjakaup til stofnana sem vinna að líknar- eða menningarmálum, og geta oft ráðið úrslitum um það hvort ráðist er í þessi tækjakaup. Er á þennan hátt oft nýttur kraftur einstakra félaga eða klúbba, jafnvel afmælisárganga, sem virðast nú í ræðu hv. þm. vera eitthvað sem væri mjög óviðeigandi. — Þetta kæmi samfélaginu ekki að gagni, ef þarna væri ekki svigrúm og sveigja af hálfu stjórnvalda til þess að nýta þetta fjármagn og nota það einmitt til þess að efla starfsemi þessara stofnana.

Fjölmargt annað mætti hér fjalla um, en ég hef nú þegar gerst allt of langorður, auk þess sem hæstv. fjmrh. gerði ítarlega grein fyrir einstökum liðum frv. hér í sinni ræðu áðan.

Ég vil því aðeins að lokum minna á að ýmsir smærri fjárveitingaliðir til einstaklinga og félagasamtaka hafa verið tilgreindir óbreyttir, eins og ég reyndar nefndi í upphafi ræðu minnar, óbreyttir í krónutölu í þessu frv. frá því sem greinir í fjárlögum fyrir árið í ár. Og einstaka liðir hafa jafnvel fallið út svo sem á hefur verið bent. Þessa þætti mun fjvn. að sjálfsögðu taka til sérstakrar athugunar og leiðréttingar þar sem þörf er á og ástæða til eftir því sem frekast eru tök á. Því verð ég að lýsa því yfir hér að þótt svigrúm kunni að skapast við endurskoðun tekjuáætlunar tel ég varla svigrúm til frekari skattalækkana en þegar eru ráðgerðar. Ólíklegt er að það svigrúm verði meira en svo að fjvn. veiti af því til að gera ýmsar smávægilegar og nauðsynlegar breytingar, eða breytingar sem hún telur nauðsynlegar á frv. í meðferð n. Vænti ég góðs samstarfs við nefndarmenn mína í því starfi sem fram undan er.