23.02.1984
Sameinað þing: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3163 í B-deild Alþingistíðinda. (2727)

Umræður utan dagskrár

Eiður Guðnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. að marki, enda gerist nú áliðið dags og þær hafa staðið nokkuð lengi. aðeins örfá orð, athugasemd við ummæli sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson lét falla áðan og vék þar sérstaklega að hv. 6. landsk. þm. Karli Steinari Guðnasyni, sem nú hefur beðið um fjarvistarleyfi og er að undirbúa fund í því verkalýðsfé­tagi þar sem hann hefur forustu.

Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson vék að þeim útreikningum sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason vitnaði til og taldi þá afar tortryggilega og vildi sem minnst úr þeim gera. — Því miður er hv. þm. ekki hér í salnum, en ég sé mig knúinn til að gera þessa aths. ­Ég tel nauðsynlegt að það komi fram í umr. að þessir útreikningar voru ekki gerðir að frumkvæði Alþýðu­sambandsins eða beiðni. Hins vegar veit ég, og hef fyrir því orð forseta Alþýðusambands Íslands, að hagfræð­ingar Alþýðusambandsins hafa yfirfarið þessa út­reikninga og skoðað þá og hafa komist að sömu niðurstöðu og þessir útreikningar leiða til. Mér þykir það merkilegt þegar talsmenn Alþb. koma hér í ræðu­stól og rengja útreikninga sem Alþýðusambandið telur rétta. Ég hef ekki upplifað það áður, en einu sinni verður nú allt fyrst.

Annars hygg ég, herra forseti, að umr. í dag, gagnlegar eru þær, marki að vissu leyti tímamót. Ég hef ekki upplifað það áður í þingsölum að þm. Alþb. komi hver á fætur öðrum með formann flokksins í broddi fylkingar hv. þm. Svavar Gestsson, síðan hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrv. formaður þingflokks­ins, hv. þm. Kjartan Ólafsson, ritstjóri málgagns Alþb., og hv. þm. Steingrímur Sigfússon, og ráðist — ekki bara leynt heldur ljóst á forseta Alþýðusambands Íslands og alla forustu Alþýðusambands Íslands vegna þeirrar niðurstöðu sem samningamálin hafa leitt til. Þetta þykir mér vera nokkur tímamótaviðburður. Ég ætla ekkert að spá í hvaða afleiðingar þetta muni hafa eða hvort það muni hafa afleiðingar, hvort það muni draga einhvern dilk á eftir sér, en ég bendi þm. á, eins og raunar hefur verið gert hér áður í kvöld í þessum umr., að það hefur ekki gerst hér áður að þm. Alþb. hafi með þessum hætti ráðist að forustu Alþýðusambands Íslands fyrir það sem hún hefur verið að gera í samningamálum. Þetta er nokkur nýlunda og athyglisverð nýlunda.

Það var vitnað áðan til ummæla forseta Alþýðusam­bandsins í Þjóðviljanum um samningana. Sömuleiðis var vitnað til ummæla formanns Alþb. Ummæli þessara tveggja manna fara nokkuð á svig og skjön. Þeim ber ekki saman. Ég tek undir það sem Ásmundur Stefáns­son forseti Alþýðusambands Íslands segir. Ég held að mat hans á stöðunni núna sé rétt. Þó að hann sé ekki jarðfræðingur, eins og hér hefur komið fram, held ég að hann hafi margfalt betra jarðsamband en hv. þm. Alþb. sem hér hafa talað og ég held að hann viti miklu betur og sé í miklu nánari tengslum við fólkið á vinnustöðun­um. Ég held að þar hafi hann miklu betra jarðsamband. Þess vegna held ég, og það er mín tilfinning og mitt mat, að niðurstaða hans, sem hann orðar með þeim hætti í Þjóðviljanum í dag sem hér hefur þegar verið vitnað til í umr., sé rétt.

Ég vil aðeins enn einu sinni, herra forseti, áður en ég lýk máli mínu, vekja athygli á þeim sérstæðu atburðum sem hér hafa gerst í dag. Í fyrsta skipti í langan tíma, að ég hygg, eru forusta Alþb. og Alþýðusambandsins ekki samstíga. Og hugleiði menn þann ofsa og offors sem einkennt hefur málflutning hv. þm. Alþb. úr þessum ræðustól í dag, þann hávaða, þann tilfinningahita og þunga, hversu mikið þeim hefur verið niðri fyrir, hversu heitt þeim hefur verið í hamsi og sumir raunar reiðir, eftir því sem maður metur það hlustandi á þá í þingsölum. Þetta eru athyglisverð tíðindi og ég hygg að þau eigi eftir að verða mönnum ekki bara umhugsunar­efni heldur umræðuefni í nokkuð langan tíma.