24.02.1984
Neðri deild: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3174 í B-deild Alþingistíðinda. (2738)

191. mál, lágmarkslaun

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Frv. þetta á sér nokkra forsögu þó svo að það sé sýnt í fyrsta skipti í frv.-formi á því þingi sem nú situr. Forsaga þess er sú, að á árunum 1980 og 1981 var svipuð staða á íslenskum vinnumarkaði eins og nú hefur verið. Þá var rætt um samninga sérstaklega með hliðsjón af hagsmun­um láglaunafólksins og þá eins og nú kom upp sú staða að það virtist mjög erfitt, jafnvel ógerningur að gera með frjálsu samkomulagi aðila vinnumarkaðarins kjarasamninga sem færðu hinu raunverulega láglauna­fólki kjarabætur án þess að þær kjarabætur gengju jafnframt upp allan launastigann. Þetta er ekki nýtt vandamál hér á Íslandi. Það er búið að vera nokkuð tengi við lýði. Ástæðan er sú hvernig menn hafa byggt upp sín launakerfi.

Launakerfin eru gjarnan byggð þannig upp, að þeir sem betri hafa launin miða sig við tiltölulega lágt taxtakaup, lágt grunnkaup og leggja ofan á það alls konar álags- og hlunnindagreiðslur, sem eru jafnvel stærsti hlutinn af þeirra launatekjum, þegar upp úr umslaginu er talið. Þetta er gert í tvennum tilgangi, jafnvel þrennum tilgangi. Í fyrsta lagi til þess að dylja raunveruleg launakjör tiltekinna launastétta. Þetta kemur t.d. mjög glögglega í ljós í þeim neyslukönnun­um sem gerðar hafa verið bæði á vegum Hagstofu Íslands til undirbúnings á nýjum vísitölugrundvelli og í úttekt Þjóðhagsstofnunar á skattframtölum einstakl­inga og hjóna. Þar kemur í ljós að meðaltekjur í landinu og meðalútgjöld venjulegrar fjölskyldu eru miklu meiri en látið er í veðri vaka að launþegar hafi að meðaltali í tekjur þegar vitnað er í gerða kjarasamninga. Ástæðan er m.ö.o. sú, að vísvitandi hafa menn byggt sér upp launakerfi, sem er þannig gert að tiltölulega tekjuháir hópar sækja sér verulegan og jafnvel meiri hluta tekna sinna með alls kyns álags- og viðbótargreiðslum ofan á lág grunnlaun. Það er verið að byggja launakerfið þannig upp raunverulega til að halda því leyndu, a.m.k. í opinberri umr., hver raunveruleg launakjör eru. Það kemur hins vegar í ljós, þegar athuguð er úttekt á skattaframtölum og gerðar eru neyslukannanir eins og gerðar voru 1978, að tekjur fólks eru miklu meiri en látið er í veðri vaka. Þegar þessar niðurstöður voru fyrst kynntar fyrir fulltrúum verkalýðshreyfingar­innar, og á ég þá við niðurstöðurnar úr neyslukönnun­inni 1978 og niðurstöðurnar úr úrtaksathugun Þjóð­hagsstofnunar á skattframtölum frá svipuðum tíma, voru ýmsir sem ekki vildu við það kannast að rétt væri með farið. En hvaða Íslendingur er það sem t.d. lýgur á sig tekjum á skattframtali? Það gerir ekki nokkur maður. Þær upplýsingar sem þarna komu fram eru því a.m.k. haldbærar í þá átt að harla ólíklegt er að tekjur fólks séu lægri en fram kom í þessum úttektum. Launakerfið sem menn hafa komið sér upp er m.ö.o. þess eðlis að tiltölulega vel launaðar stéttir miða sitt grunnkaup við lága taxa en síðan bætast álagsgreiðslur þar ofan á. Höfuðskýringin er sú, að með þessu eru menn að dylja sín raunverulegu launakjör.

Mér er t.d. skýrt frá því, að úttekt á þeim kjarasamn­ingum sem nú hafa nýlega verið gerðir við starfsmenn ÍSALs bendi til þess að raunveruleg launahækkun skv. þeim kjarasamningum, þegar metin eru öll slík atriði, sé 17–18%. Þegar upp verður staðið verður hins vegar látið í veðri vaka að aðeins hafi verið samið um 5–7% launahækkun til handa þessu fólki, til þess eins að vekja ekki athygli láglaunafólksins í þjóðfélaginu á því hversu miklu rýrari hlut það ber frá borði.

Í öðru lagi er ástæðan fyrir uppbyggingu svona launakerfis sú, að ítrekað hafa stjórnvöld haft afskipti af samningum aðila vinnumarkaðarms eftir að þeir hafa lokið sinni samningagerð. Þá hafa stjórnvöld gjarnan gripið í taumana og reynt að breyta niðurstöðum samninga, reynt að færa til innan launþegahópsins frá þeim betur launuðu og til hinna lægra launuðu. Þetta hafa menn t.d. gert með þaki á vísitölubótum og alls kyns slíkum aðferðum sem alþekktar eru. Með því að miða laun sín við tiltölulega lágan grunn eru hærra launaðir hópar að reyna að koma í veg fyrir að þetta sé hægt. M.ö.o., þeir eru að byggja upp sína launataxta þannig, að ef á með einhverjum ráðum á grundvelli kjarasamninga að koma þeim lægst launuðu til hjálpar, þá sé það ekki hægt öðruvísi en svo, að það sem á að gera fyrir láglaunafólkið gangi upp í gegnum allt launakerfið.

Ég man eftir því að á árunum 1979 og 1980 gerðum við Alþfl.-menn og Alþb.-menn ítrekaða könnun á þessum málum, þar sem m.a. var athuguð ýmiss konar útfærsla á þaki á vísitölubætur til þess að reyna að koma láglaunafólkinu sérstaklega til hjálpar. En jafnvel þótt við miðuðum þá við ótrúlega lág laun á pappírnum kom það út úr þessum athugunum að undir það þak féllu ávallt 85–90% af öllum launamönnum innan ASÍ, þar á meðal t.d. flestallar iðnaðarmannastéttir, sem voru þ6 ekki almennt taldar til allra lægst launuðu hópanna. Þetta er sem sé önnur skýringin á því að menn hafa byggt launakerfið svona upp. Betur launaðir hópar hafa með slíkum hætti bókstaflega komið í veg fyrir það að hægt sé að veita lægst launaða fólkinu kjarabætur án þess að þær kjarabætur gangi jafnframt upp allan launastigann.

Þriðja ástæðan fyrir þessu launakerfi er svo sú, að afstaða vinnuveitenda hefur ávallt verið slík, að þeir hafa verið miklu fúsari að semja um launahækkanir við hærra launaða hópa heldur en láglaunafólkið. Gangur­inn hefur gjarnan verið sá, að haft hefur verið samflot í kjarasamningagerð um almenn atriði, þar á meðal tiltölulega lága prósentuhækkun á grunnkaupi. Síðan hafa sérkjarasamningarnir komið á eftir og í þeim sérkjarasamningum hafa hinir betur settu samið um alls konar hlunnindi og fríðindi sér til handa. Slíkir samn­ingar mega undir engum kringumstæðum, það er sam­eiginlegt áhugamál þeirra og vinnuveitenda, koma fram sem hækkun á grunnkaupi heldur birtast þeir í formi alls konar álags- og hlunnindagreiðslna. Síðasta dæmið eru kjarasamningarnir hjá ÍSAL, sem munu fela í sér 17–­18% hækkun þegar allt er metið, en látið verður líta út fyrir að bjóði upp á 5–7% eins og láglaunafólkinu er ætlað að fá. Þetta eru út af fyrir sig engin ný sannindi sem ég er hér að rekja. Þetta hefur legið fyrir alllengi og varð til þess m.a., eins og ég sagði áðan, að við fórum að skoða það í þáverandi þingflokki Alþfl. árið 1980 hvort ekki væri hægt að fara einhverjar aðrar leiðir. Við tókum okkur sérstaklega saman um að athuga þetta í umboði þingflokksins ég og hv. þáv. þm. Vilmundur Gylfason, og meðal þeirrar niðurstöðu sem við kom­umst að var að leita fyrirmynda í öðrum löndum um lausn á sambærilegum vandamálum. Fyrirmyndin sem við fundum var sú fyrirmynd sem t.d. Franklin Roose­velt Bandaríkjaforseti gaf með lögum sínum um lág­markslaun o.fl. frá 1938 og Frakkar með lágmarks­launalögum sem ég veit nú ekki hvenær sett voru upphaflega. Eitt fyrsta verkefni nýkjörins Frakklands­forseta, jafnaðarmannsins Francois Mitterand, var ein­mitt að hækka þessi lágmarkslaun, sem ákveðin eru með lögum í Frakklandi, umfram þau mörk sem almenn verðhækkunartilefni gáfu tilefni til. Hans fyrsta verk í embætti eftir að hann hafði náð kjöri var að hækka láglaunamarkið franska um 5% umfram verðhækkanir. Þessi tvenn lög, bandarísku lögin frá 1938 með seinni tíma breytingum og frönsku lögin eins og þau eru í gildi núna, útveguðum við okkur fyrir milligöngu bandaríska og franska sendiráðsins og fengum leyfi skrifstofustjóra Alþingis til að láta þýða ákvæði þessara laga á íslensku. Fylgja þau ákvæði sem fskj. með frv. þessu ásamt þýðingu á bandarískum bæklingi um bandarísku lág­markslögin sem bandaríska vinnumálaráðuneytið gaf út. Ég vil taka fram að bandarísku lágmarkslaunalögin eru ekki lengur í gildi því að eitt af fyrstu verkum núverandi forseta Bandaríkjanna eftir að hann kom til valda var að afnema lög um lágmarkslaun í Bandaríkj­unum í samræmi við þá stefnu sína að slík afskipti eigi stjórnvöld ekki að hafa af málum. Þarna eru m.ö.o. tveir forsetar, fulltrúar tveggja mismunandi stefnu­miða, annars vegar hinn íhaldssami forseti Bandaríkj­anna sem felldi niður einhver merkustu lög sem Frank­lin Roosevelt setti árið 1938 í Bandaríkjunum um lágmarkslaun og hins vegar franski jafnaðarmaðurinn Mitterand sem lét það verða eitt sitt fyrsta verk að hækka markið í lágmarkslaunalögunum frönsku um 5% fram yfir verðhækkunartilefni.

Herra forseti. Ég held að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um ástæður þess að stjórnvöld taka þær ákvarðanir að setja lög um lágmarkslaun. Slík ákvörðun felur það eitt í sér að stjórnvöld, í þessu tilviki Alþingi Íslendinga, væru að taka þá einföldu ákvörðun í fyrsta lagi: Hvaða laun eru það lægst sem Íslendingar og íslensk stjórnvöld tel]a verjandi að þegnum þessa þjóðríkis skuli boðið? Í öðru lagi: Hvers konar atvinnu­starfsemi er það sem á að eiga sér framtíð í þessu landi?

Þegar menn taka ákvörðun, eins og gert hefur verið í samningum aðila vinnumarkaðarins nú, um að lág­markslaun í landinu skuli vera milli 11 600 og 12 600 kr. á mánuði fyrir fulla dagvinnu, þá eru menn ekki bara að taka ákvörðun um að sá hluti vinnuaflsins sem vinni slík störf skuli vera neðan fátæktarmarka. Með slíkum ákvörðunum eru menn líka að taka skuldbindandi ákvarðanir fyrir framtíðina um hvers konar atvinnu­starfsemi eigi að þrífast í landinu. Menn eru að taka þá ákvörðun fyrir framtíðina að skapa hér á Íslandi þess konar jarðveg á vinnumarkaðnum að hér eigi að þrífast og geti þrifist atvinnufyrirtæki sem eigi ekki að borga mannsæmandi laun. M.ö.o. eru menn að taka ákvörð­un um að Ísland eigi að vera frambúðarláglaunasvæði.

Það gefur auga leið að ef lágmarkslaun á Íslandi væru 20 þús. kr. í dag fyrir fullan starfsdag á mánuði í stað 11 600– 12 600 kr. væru menn ekki bara að taka ákvarðanir um hvað mannsæmandi væri talið að greiða í laun fyrir fulla vinnu á Íslandi, menn væru líka að taka ákvarðanir um það fyrir framtíðina hvers konar at­vinnustarfsemi eigi að þrífast. Það er ekki æskilegt og ekki eftirsóknarvert að í kjarasamningum aðila vinnu­markaðarins skuli menn vera að festa þá stefnu í sessi eftir því sem árin líða fram að dæma ákveðinn hluta þjóðfélagsþegnanna til að búa við fátækt og að gera ráð fyrir að hér á Íslandi skuli þrífast atvinnustarfsemi sem eigi afkomu sína undir því að fólkið sem þar starfi sé fátækt.

Út af fyrir sig má segja að það sé ákvörðun verkalýðs­hreyfingar og eigi að vera í frjálsum kjarasamningum að semja við aðila vinnumarkaðarins, semja við atvinnu­rekendur um hvert þetta láglaunamark skuli vera. En það hefur nú ekki tekist betur til en svo á umliðnum árum að gamla krafan um mannsæmandi laun fyrir dagvinnu virðist alveg gleymd. Hún heyrist ekki lengur nefnd. Hún hefur ekki sést í kröfugerðum verkalýðs­hreyfingarinnar um margra ára skeið. Hér eru menn farnir að ganga út frá því sem gefnu að fólk eigi ekki að geta lifað af dagvinnutekjum. Ef fólk eigi að lifa eðlilegu lífi eigi annaðhvort allir sem unnið geta á heimilinu að vinna úti eða þá að þeir sem útivinnandi eru afsali sér öllu eðlilegu fjölskyldulífi til þess eins að hafa í sig og á.

Út af fyrir sig er ekkert að segja við þeirri stefnu, sem verið hefur í samningamálum aðila vinnumarkaðarins nokkuð lengi, að draga inn í samningaviðræður um almenn launakjör í landinu atriði eins og félagslegar úrlausnir sem fást frá ríkissjóði, ríkisvaldi og Alþingi. Slíkt er eðlilegt og réttlætanlegt að gera við tilteknar aðstæður um tímabundið skeið, t.d. ef þjóðin verður fyrir tímabundnu áfalli. En ef það er orðin regla í kjarasamningum að auk þess að semja um almenn vinnulaun þurfi verkalýðshreyfingin stöðugt, kannske árum saman, að byggja upp lágmarkslaun með því að semja við ríkisvaldið um alls konar tilfærslur frá einum launþeganum til annars eða jafnvel milli vasa hjá sama launþeganum eru menn að festa í sessi lágmarkslaun í landinu sem eru lægri en svo að það sé hægt að lifa af þeim. M.ö.o.: til þess að fólkið geti framfleytt sér, til þess að fólkið geti haft í sig og á verði auk þeirra launa sem fólkið ber úr býtum með einhverjum hætti að sjá því fyrir framfærslu úr ríkissjóði. Þetta hefur aldrei verið hugsjón félagshyggjunnar, þetta hefur aldrei verið það sem jafnaðarmenn börðust fyrir þó því hafi verið haldið fram í gær. Þetta er framfærslusjónarmiðið sem var ríkjandi hjá íhaldsöflunum á árunum áður — það sjónarmið að almannatryggingarnar væru framfærslu­eyrir og fólki sem þyrfti á almannatryggingu að halda bæri að sækja sér þangað hálfgert sveitarframfæri.

Þegar aðilar vinnumarkaðarins eru farnir að gera kjarasamninga þar sem lægstu launin duga ekki einu sinni fyrir nauðþurftum, heldur þurfi fólk að fá svo og svo mikla peninga aukalega með tekjutilfærslum úr ríkissjóði til þess eins að geta lifað, þá er verkalýðs­hreyfingin farin að taka undir með sjónarmiðum aftur­haldsins eins og við þekktum það fyrir 30 árum, því þá er hún að segja: Við eigum að taka ákveðinn hluta launafólks á ríkisframfærslu, á sveitarframfæri, vegna þess að atvinnulífið í landinu getur ekki borgað mannsæmandi laun.

Við getum deilt endalaust um hvort aðstæður hafi verið til þess í samfélagi okkar á undanförnum árum að gera hagstæðari kjarasamninga þar sem fólk hefði getað fengið laun sín greidd í peningum fyrir framlagða vinnu fremur en með tilfærslum eins og nú eiga sér stað. Sú deila mun ekki leiða til neinnar sérstakrar niðurstöðu og við getum haldið henni lengi áfram. En ég held að um það verði ekki deilt að þessi stefna við kjarasamninga­gerð hefur orðið til þess að það er fjarlægari möguleiki í dag en hefur verið um langan aldur að fólk geti fram­fleytt sér á dagvinnutekjum og þá á ég við lægst launaða fólkið.

Hugsið ykkur hversu fráleitt það er, eins og ég hef áður á minnst, að það skuli viðgangast í okkar samfé­lagi, það skuli þykja siðlegt í okkar samfélagi, eins og gerðist hér og mörg dæmi eru um, og nefni ég sem dæmi það sem gerðist um s.l. áramót. Þá eru hér í Reykjavík, á gamlárskvöld og nýársdagskvöld, flestöll stærstu dans-, skemmti- og veitingahús bæjarins opin fyrir fólkið sem vill fara út að skemmta sér. Bara aðgöngu­miðinn kostaði þá 1 800–2 500 kr. Hjón sem fóru inn á slíkan stað á gamlárskvöld eða nýárskvöld til að halda upp á nýja árið og kveðja það gamla munu með öllum kostnaði þegar allt er talið hafa eytt.á þessari einu nóttu í mat, áfengi, aðgöngumiða og leigubíla 8–10 þús. kr. Þetta er álíka upphæð og ætlast er til að láglaunamaður á Íslandi þiggi í verkalaun fyrir heils mánaðar starf. — Og vita menn það, herra forseti, að öll þessi rúmgóðu dans- og skemmtihús í Reykjavík voru full af fólki báðar þessar nætur og komust færri að en vildu? Hvernig geta menn horft upp á svona hluti gerast í þjóðríki eins og Íslandi, þar sem enginn þarf að líða skort, þar sem enginn þarf að búa við neyð? Hvernig getur verkalýðs­hreyfingin, Alþingi og stjórnvöld, stjórnmálaflokkarnir yfir höfuð að tala, hvernig geta þessir aðilar liðið að það skuli vera fólk í þessu landi sem ætlast er til að þiggi álíka fjárhæð í verkalaun á mánuði fyrir fullt starf og ein hjón fóru með til að skemmta sér fyrir á gamlárskvöld s.l. hér í Reykjavík?

Ef verkalýðshreyfingin nær ekki betri árangri í kjara­samningum en þetta verðá stjórnvöld auðvitað að grípa inn í með því að ákveða hvað stjórnvöld vilji að teljist mannsæmandi lágmarkslaun á Íslandi. Með því eru stjórnvöld að ákveða tvennt: Í fyrsta lagi hvað menn telja að þeir megi minnst borga í laun fyrir fullt starf fullfrísks manns eða konu hér í landinu og í öðru lagi hvers konar atvinnustarfsemi eigi að eiga sér framtíð í þessu landi. Við eygjum mikið af tækifærum, Íslending­ar, til að byggja upp okkar atvinnulíf. Við þurfum ekki á því að halda að skapa atvinnutækifæri í láglaunagrein­um bara til þess að fólkið hafi eitthvað að gera. Við höfum nóga aðra möguleika á fjölmörgum sviðum atvinnustarfsemi, þar sem atvinnufyrirtækin geta borg­að góð laun, og þorri þjóðarinnar býr við slíkar aðstæður. Og við eigum ekki að skilja hinn fátæka minni hluta eftir bara vegna þess að hann er alls staðar í minni hluta. Hann er í minni hluta í þjóðfélaginu, hann er í minni hluta meðal kjósenda, hann er í minni hluta í verkalýðshreyfingunni og á sér því hvergi málsvara. En samviska okkar býður okkur að skilja hann samt ekki eftir, eins og við höfum gert á undanförnum árum.

Í því skyni að reyna að leysa þetta vandamál er það frv. til laga flutt um lágmarkslaun sem ég hef hér lagt fram. Það felur það eitt í sér að við Íslendingar gerum það sama og gert hefur verið í Frakklandi, gert var í Bandaríkjunum, gert er í Bretlandi, jafnvel gert í vanþróuðu ríki eins og Singapore, að við setjum lög um hver lágmarkslaun sé leyfilegt að borga í þessu landi og þau launalög taki til allrar atvinnustarfsemi í landinu hvað sem hún heitir. Halda menn t.d. að það sé nokkurt vit í því að einhver blómlegasti útflutningsiðn­aður okkar, útflutningur á íslensku prjónlesi, skuli byggjast á því að konur vinni á heimilum sínum við að búa til þessa hluti og þiggja í verkalaun kannske 200­–300 kr. á dag? Þetta er einhver dýrasti fatnaður sem sést í búðum erlendis. En fólkið á Íslandi sem býr þetta til gefur vinnuna sína eða allt að því. Þetta fólk á sér ekki heldur marga málsvarana. Það eru ekki margir innan verkalýðshreyfingarinnar sem telja sig þess umkomna að semja fyrir það. Til skamms tíma hafa kjörin verið skömmtuð því einhliða af atvinnurekendum án þess að það hafi nokkurn rétt til íhlutunar í þau mál. Þetta er eitt dæmið af mörgum sem við verðum að hugleiða, verðum að horfa á og má ekki gleyma. Og halda menn að það sé nokkurt vit í því, þegar rætt er um „blómleg fyrirtæki“ á Íslandi eins og t.d. Hampiðjuna, sem talið er vera eitt blómlegasta fyrirtæki í veiðarfæraiðnaði um: Lágmarkslaun. 3180 alla vestanverða Evrópu, að framkvæmdastjóra fyrir­tækisins er hrósað upp í hástert fyrir góða stjórn og hann er ráðinn sem framkvæmdastjóri Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna úti í Bandaríkjunum fyrir 7 millj. króna árslaun, að því er blöðin segja? En á hverjum byggist þessi atvinnustarfsemi, þetta blómlega fyrirtæki hér í bænum? Það byggist á því að það hefur fátækt fólk fyrir vinnuafl, sem hefur þetta 10–12 þús. kr. á mánuði í full laun. Á það er aldrei minnst. Á það er aldrei minnst að slík fyrirtæki eru fátækraverksmiðjurnar á Íslandi. Þetta eru sams konar fyrirbæri, þó við nýtísku­legri og skárri aðstæður búi, og fátækraverksmiðjurnar voru í Englandi áður en verkalýðshreyfingin reis þar á legg. Og þetta er fölkið sem íslenska verkalýðshreyfing­in hefur skilið eftir og liggur óbætt hjá garði.

Ástæðan fyrir því að ekki er hægt að hækka kaupið við þetta fólk er í rauninni sú, að þeir sem hafa tvöföld og þreföld laun segja: Nei, við föllumst ekki á að þessu fólki sé veitt sérstök úrlausn nema við fáum a.m.k. tvöfalt eða þrefalt meira. Á meðan þetta er meirihluta­skoðun við samningaborð aðila vinnumarkaðarins mun þetta fátæka fólk liggja óbætt hjá garði.

Það er því mín tillaga að þetta vandamál sé leyst af stjórnvöldum með sama hætti og það hefur verið gert annars staðar þar sem menn hafa horfst í augu við svipað vandamál og ég hef hér um rætt.

Enda þótt ég geri í 1. gr. í þessu frv. þá till. að lágmarkslaun verði miðuð við I5 þús. kr. á mánuði fyrir fullt starf dettur mér ekki í hug að nokkur einstaklingur, hvað þá heldur fjölskyldufaðir eða móðir, geti fram­fleytt sér og sínum fyrir slíkar tekjur. Jafnvel 15 þús. kr. duga hvergi nærri til þess eins að fólk hafi í sig og á. Ætli það léti ekki nærri að ef menn ætluðu að lifa af dagvinnunni væru 20–22 þús. kr. dagvinnutekjur ekki of í lagt til þess eins að hafa fyrir nauðsynlegasta fæði og klæðum? Verkalýðshreyfingin mat hins vegar aðstæður þannig að hún vildi ekki við ríkjandi aðstæður fara fram á meira en 15 þús. kr. og því er sú tala sett inn í frv. sem ég hér flyt, en tekið fram í grg. að auðvitað þurfum við að stefna hærra. Við þurfum að stefna að því marki sem verkalýðshreyfingin setti sér einu sinni, þó það mark­mið virðist nú vera gleymt, að fólk eigi að geta lifað eðlilegu lífi af dagvinnutekjum, síðan eigi hver og einn að taka ákvörðun um það sjálfur, án þess að hann sé neyddur til þess, hvort hann vill leggja á sig aukavinnu og fjarveru frá eðlilegu fjölskyldulífi til að vinna fyrir vörum eða þjónustu umfram daglegar þarfir eða hvort hann vill sætta sig við að eiga fyrir helstu nauðsynjum og láta vera að vinna meira en dagvinnu nemur.

Herra forseti. Auðvitað eru margvíslegar leiðir til að framkvæma frv. eins og það sem hér um ræðir. Í bandarísku lögunum voru t.d. ekki aðeins sett ákvæði um lágmarkslaun fyrir dagvinnu. Í þeim lögum eru einnig talsvert yfirgripsmiklir lagabálkar um önnur félagsleg réttindi, t.d. eins og vinnu barna, vinnu við landbúnaðarstörf, vinnu útlendinga, mætingaskyldu og annað slíkt. Í bandarísku lögunum er einnig kveðið á um álög fyrir yfirvinnu og helgidagavinnu þar sem þau eru lögbundin. Það er hins vegar ekki gert í frönsku lögunum. Þar eru bara sett ákvæði um lágmarkskaup fyrir dagvinnuna eina, en aðilum vinnumarkaðarins látið eftir að semja um hvaða álög skuli koma ofan á lágmarkskaupið fyrir eftirvinnu og helgidagavinnu.

Eingöngu út frá því sjónarmiði að hafa sem allra minnst afskipti af frjálsum samningum aðila vinnu­markaðarins hef ég valið þá leið í þessu frv. að leggja aðeins til að lögbundið sé lágmarkskaup fyrir dagvinnu án þess að snert sé við öðrum atriðum í samningum aðila vinnumarkaðarins. Ég er fús til þess og meira en fús að ljá stuðning við þá breytingu að jafnframt yrði ákveðið í slíkum lögum hvaða prósentur mætti reikna lægst­ar ofan á lágmarkskaup í dagvinnu fyrir eftir- og helgi­dagavinnu. Ég er meira en fús til að fallast á slíka breytingu. En ég vil vekja athygli manna á að jafnvel þó svo að svona frv. um lágmarkslaun yrði samþykkt mundi það í engu breyta frjálsum samningum sem gerðir eru milli aðila vinnumarkaðarins. Allir samning­ar sem gerðir eru milli aðila standa óraskaðir. Allir samningar, sama hvort eru um kaupliði, bónusgreiðslur og annað slíkt, standa óraskaðir. Það eina sem frv. segir er þetta: Hvað svo sem aðilar semja um í kjarasamning­um á Íslandi er óheimilt að greiða fólki lægri laun fyrir fullan vinnudag en sem svarar því að það beri úr býtum fyrir heils mánaðar starf í dagvinnu 15 þús. kr. Ef umsamin laun aðila vinnumarkaðarins nægja ekki til þess að fólkið fái þessar tekjur fyrir fulla dagvinnu, hvort sem þær eru greiddar út fjórum sinnum á mánuði, þ.e. vikulega, eða einu sinni á mánuði, verður atvinnu­rekandinn að borga uppbót á það kaup sem hann ella greiðir þannig að kaupið nái 15 þús. kr.

Hafi fólk hins vegar meiri launatekjur fyrir dagvinnu — ekki fyrir yfirvinnu, heldur dagvinnu — en nemur 15 þús. kr., þó svo umsaminn taxti sé lægri, eins og á sér stað hjá ýmsum hærra launuðum hópum, þ.e. þeir semji um tiltölulega lágan taxta, en sæki sér þó kannske helmings- eða jafnvel 80% viðbót ofan á kauptaxtann með alls lags álags- og hlunnindagreiðslum, þannig að launin þannig útreiknuð fari upp fyrir 15 þús. kr., þá hafa þessir aðilar þar með náð láglaunamarkinu, farið upp fyrir það. Þá kemur ekki hækkun á slíkt kaup. M.ö.o. er frv. hugsað út frá hagsmunum láglauna­fólksins eins. Það er hugsað út frá þeirri einföldu kenningu, að hvað svo sem verkalýðshreyfing og vinnu­veitendur telja sér sæma að semja um, jafnvel þó að þessir aðilar telji sér sæma að semja um kaup fyrir fulla dagvinnu sem sé 11 600–12 600 kr. á mánuði, þá sé ekki heimilt að borga fyrir vinnu íslenskra handa minna en sem svarar 15 þús. kr. á mánuði hið minnsta fyrir fullt starf.

Yfirvinnutekjur koma að sjálfsögðu ekki inn í þetta mál. Nái fólk t.d. ekki nema 12 þús. kr. á mánuði í dagvinnutekjur, en hafi 4 þús. kr. í yfirvinnutekjur, þá fær það sínar yfirvinnutekjur, en dagvinnulaunin hækka úr 12 þús. í 15 þús. Þarna er aðeins verið að setja láglaunamark. Niður fyrir það fyrir vinnu í dagvinnu mega launagreiðslur ekki fara á Íslandi.

Það eru fleiri, herra forseti, sem verður að taka slíkar ákvarðanir um en starfandi fólk. Hvað um þá sem vegna aldurs eða sjúkleika geta ekki lagt fram starf í þágu þjóðfélagsins þó þeir fegnir vildu? Einnig það fólk verður að eiga sér einhverja lífskjaratryggingu. Á því máli er tekið í ákvæði til bráðabirgða með þessu frv., en þar er gert ráð fyrir að lágmarkstrygging elli- og örorkulífeyrisþega skuli vera 16 870 kr. á mánuði fyrir hjón og 9 697 kr. fyrir einstakling. Lægri fjárhæðir eigi þessir aðilar ekki að bera úr býtum. Ég held að allir séu sammála um að lægri megi fjárhæðin ekki vera til þess að þetta fólk geti haft fyrir brýnustu nauðþurftum.

Þessar tölur eru ekki valdar út í loftið. Þetta eru þær upphæðir sem aldraða tólkið og öryrkjarnir mundu fá ef hæstv. ríkisstj. hefði látið óskertar þær elli- og örorku­bætur sem búið var að semja um að þetta fólk mundi fá ef hæstv. ríkisstj. hefði látið kjör þess í friði. Þetta eru sem sé elli- og örorkubæturnar eins og þær ættu að vera í dag ef hæstv. ríkisstj. hefði ekki haft afskipti af málunum til lækkunar á framfærslueyri gamla fólksins og öryrkjanna.

Herra forseti. Ég er að sjálfsögðu fús til að veita allar frekari upplýsingar sem ég get um framkvæmd laga af þessu tagi, bæði í Frakklandi, Bandaríkjunum, Bret­landi og Singapore. Mínar bestu heimildir eru frá Frakklandi og Bandaríkjunum og nokkrar af þeim prentaðar sem fskj. með frv. þessu. Einnig eru lág­launaákvæði í gildi í Bretlandi og Singapore, eftir því sem ég veit, og e.t.v. víðar. Er sjálfsagt að láta þeirri n., sem væntanlega fær þetta mál, slíkar upplýsingar í té.

Ég vænti þess, herra forseti, að þessu máli verði vel tekið og það verði skoðað í fullri alvöru því að ég er alveg sannfærður um það, miðað við reynslu ekki bara nýjustu kjarasamninga heldur síðustu ára, jafnvel ára­tuga, að þetta er eina lausnin sem til er út úr þeim taxtafrumskógi sem búið er að búa til í samningum milli aðila vinnumarkaðarins og mun örugglega halda ákveðnum hluta þjóðfélagsþegnanna neðan fátæktar­marka um ókomna framtíð, þannig að tiltekinn hluti þjóðfélagsþegnanna muni á næstu árum einskis fá notið í þeim framförum, uppbyggingu og lífskjarabót sem við getum vonandi átt von á. Og menn þurfa ekki að láta sér detta það í hug að ef stjórnmálamennirnir, ef Alþingi ekki fæst til þess að afgreiða hagsmunamál láglaunafólksins með einhverjum slíkum hætti eins og hér er gerð till. um verði aðrir til þess. Það er því miður fullreynt.

Ég legg svo til, herra forseti, að að þessari umr. lokinni verði frv. vísað til 2. umr. og hv. félmn.