24.02.1984
Neðri deild: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3182 í B-deild Alþingistíðinda. (2740)

176. mál, skipan opinberra framkvæmda

Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég flyt ásamt hv. 2. þm. Reykv. frv. á þskj. 317 til l. um breyt. á lögum um skipan opinberra framkvæmda. Shlj. frv. hefur verið flutt nokkrum sinnum á undanförnum þingum, en hefur ekki fengið afgreiðslu.

Með lögum nr. 6311970 voru fest í lög ákvæði um skipan opinberra framkvæmda. Í 13. gr. þeirra laga er ákvæði um að verk skuli að jafnaði unnið skv. tilboði á grundvelli útboðs. Þó er heimilt að víkja frá útboði ef verk er þess eðlis eða aðstæður slíkar að öðru leyti að útboð teljist ekki munu gefa góða raun, en fá þarf umsögn samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir. Þá segir enn fremur í þessari lagagr. að verkinu skuli ráðstafað á grundvelli samningsverðs eða eftir reikningi, ef tilboð séu óhæfilega há eða að öðru leyti ekki aðgengileg.

Þessi ákvæði kveða ótvírætt á um að meginreglan átti að vera sú, að útboð á vegum ríkisins og ríkisstofnana skyldi vera meginreglan. Þetta má enn fremur sjá með því að skoða grg. frv. laganna um skipan opinberra framkvæmda, sem fylgdi þegar frv. var lagt hér fram á hv. Alþingi, en þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseta: „Frv. gerir ráð fyrir að sem flest verk á vegum hins opinbera verði unnin á útboðsgrundvelli og tryggt verði samræmt bókhald, þannig að samanburður kostn­aðar verkanna fáist.“ Og í aths. við 13. gr. segir: „Greinin hefur að geyma stefnuyfirlýsingu um það, að opinberar framkvæmdir skuli að jafnaði unnar eftir útboði, þótt gert sé ráð fyrir undantekningum eftir eðli verks eða öðrum ástæðum.“

Í reynd hefur framkvæmd orðið nokkuð á annan veg. Það hefur verið upplýst hér á hv. Alþingi í fsp.-tíma nokkrum sinnum hvernig þetta hefur orðið í raun, þ.e. hve útboð séu stór þáttur í verklegum framkvæmdum nokkurra ríkisstofnana, og til viðbótar við þær upplýs­ingar, sem þá komu fram, hef ég sjálfur aflað upplýs­inga frá þeim þremur stofnunum sem helst hafa með að gera verklegar framkvæmdir á vegum ríkisins, þ.e. Flugmálastjórn, Vita- og hafnamálaskrifstofu og Vega­gerð ríkisins.

Víkjum fyrst að Vegagerð ríkisins og hugum að því hve greiðslur til verktaka voru stór hluti af heildarverk­um þessarar stofnunar. Árið 1978 voru greiðslur til verktaka 11%, 1979 12%, 1980 voru verk verktaka 18.8% og 1981 voru greiðslur til verktaka 20.2% af heildarframkvæmdum, 1982 25% og 1983 28%. Rétt er að taka fram að hér er ekki eingöngu um útboðsverk að ræða, heldur líka um að ræða verk þar sem samið er sérstaklega við verktaka.

Hjá Hafnamálastofnun var hlutfall útboða af fram­kvæmdum árið 1978 14.7%, 1979 14.6%, 1980 17.8%, 1981 16.25%, 1982 17.93% og 1983 38.26%. Hjá Flug­málastjórn hafa þessar hlutfallstölur verið þannig: Árið 1978 13%, 1979 24%, 198019%, 1981 13.2%, 1982 eru útboðin 56.9% og 1983 31.6%. Að auki hafa verktakar unnið án úfboðs 20% af verkunum 1982 og 1983 12.9%.

Af þessum tölum má sjá að því fer fjarri að upphaf­legum tilgangi laganna hafi verið fylgt og ljóst er að ríkisstofnanir hafa með ýmsum ráðum reynt að komast hjá því að hafa útboð á sínum verkum. Þegar hugað er að því hver sé lagagrundvöllur fyrir því að reynt sé að komast hjá þessu þrátt fyrir nokkuð ótvíræð ákvæði í lögum hafa forustumenn þessara stofnana vitnað til þess að 3. mgr. 21. gr. laganna hljóði svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Heimilt er að fela einstökum ríkisstofnunum umsjón nánar skilgreindra flokka opinberra framkvæmda, enda hafi þessar stofnanir aðstöðu til að annast þetta verk­efni.“

Þessi grein hefur verið notuð til að skjóta sér á bak við það að láta útboð ekki fara fram, heldur að stofnununum sjálfum sé falið að annast viðkomandi verk með eigin tækjum og eigin mannafla. Þetta frv. er um að auka við þessa grein sem notuð hefur verið sem undankomuleið í þessu efni. Er lagt til að aftan við þau tilvitnuðu orð sem ég las áðan, í 21. gr., komi setning sem hljóði svo: „Engu að síður skal verk að jafnaði unnið skv. tilboði á grundvelli útboðs, sbr. 13. gr. laganna.“

Ég þarf ekki að hafa mörg orð um hvað það hlýtur að öllu jöfnu að vera hagkvæmara fyrir ríki og ríkisstofnan­ir að hafa útboð á sínum verkum. Ég geri mér að vísu fulla grein fyrir því að auðvitað er það ekki einhlítt frekar en annað. Þannig geta aðstæður verið að eðlilegt sé og rétt að vinna ákveðin verk af viðkomandi stofnunum eða jafnvel semja við ákveðna verktaka. Ég þykist t.d. vita að Vegagerð ríkisins telji sig þurfa að hafa í sinni eigu allmikið af tækjum t.d. til snjóruðnings á veturna, sem þá sé hægt að nota til nýbygginga á sumrin, en engu að síður held ég að nauðsynlegt sé að gera mun betur í þessum efnum.

Mér er kunnugt um af viðræðum við forstöðumenn hinna ýmsu stofnana að t.d. Vegagerð ríkisins hefur mikinn áhuga á því að auka útboð á sínum vegum. Hitt verður að segjast alveg eins og er, að starfsmenn Vegagerðar ríkisins kvarta undan því að þótt þeir sjálfir hafi áhuga á að hafa útboð á einstökum framkvæmdum af sinni hálfu sé mjög algengt að þm. í viðkomandi kjördæmum komi til Vegagerðarinnar og óski eftir því að ekki fari fram útboð á ákveðnum verkum vegna þess að það séu til staðar menn í viðkomandi kjördæmi sem þurfi að fá vinnu fyrir sinn bíl eða sín tæki. Ég held að þetta séu ákaflega mikil skammsýnissjónarmið. Við urðum t.d. vitni að því, að þegar útboð fór fram á veginum fyrir Ólafsvíkurenni á síðasta ári tók verktaki þetta verk að sér fyrir um það bil helming þess verðs sem Vegagerð ríkisins treysti sér sjálf til að vinna verkið fyrir og áætlun hljóðaði upp á.

Ég held líka að reynslan sé sú, að þegar um venjuleg vegagerðarverkefni er að ræða séu heimamenn mun betur í stakk búnir og hafi miklu betri aðstöðu en utanaðkomandi menn til að ná þessum verkum á hagstæðu verði. Af þessu hef ég reynslu úr stjórn Landsvirkjunar. Þar er undantekningarlaust boðið út þó um smáverk sé að ræða, t.d. smærri vegir innan virkjanasvæða eða að virkjunarsvæðum. Allir slíkir vegir hafa verið boðnir út. Um þá hefur verið sam­keppni, en niðurstaðan hefur yfirleitt verið þannig, að heimamenn hafa átt lægstu boðin og náð þessum verkum. Það hefur sýnt sig að þeir hafa staðið mun betur að vígi en utanaðkomandi fyrirtæki til að fá slík verk. Ég er nefnilega viss um að þegar fólkið í kjör­dæmunum fer að skynja að hægt er að nýta það fjármagn sem veitt er til kjördæmanna, þegar það sér að hægt er að fá mun meira framkvæmt fyrir peningana á grundvelli útboða en ef Vegagerðin sjálf t.d. gerði þetta eða semur við einstaka verktaka, skynji fólkið fljótt að sú leið borgar sig til lengdar að ná fram því sem er ódýrast. Ég hygg t.d. að þeir Snæfellingar hafi skynjað að með því að hægt var að vinna það tiltölulega stóra verk sem þar var unnið fyrir helming þess fjármagns sem Vegagerðin sjálf treysti sér til að vinna það fyrir, þá er þó hinn helmingur fjárins afgangs í framkvæmdir annars staðar í kjördæminu. Fjármagnið sem veitt er til þessa kjördæmis nýtist því mun betur.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð, en ég geri það að till. minni að þessu frv. verði vísað til fjh.- og viðskn. og 2. umr. í hv. deild.