24.02.1984
Neðri deild: 51. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3186 í B-deild Alþingistíðinda. (2743)

176. mál, skipan opinberra framkvæmda

Bragi Michaelsson:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína með að þetta mál skuli vera komið á ný inn í þingið. Ég vil taka undir að mikil nauðsyn er að efla útboðsstarfsemi, bæði á vegum opinberra aðila og einstaklinga. Sem dæmi má nefna að ég starfa við fyrirtæki sem býður mikið út og hef orðið var við það í mínu starfi að aðilar utan af landi sækja nú í ríkari mæli í að bjóða í verk á höfuðborgarsvæðinu, sem leiðir til þess að það eflir atvinnustarfsemi um landið. Ég held því að það þurfi ekki með nokkru móti að skaða atvinnustarf­semi í hinum dreifðu byggðum landsins þó að útboð fari fram, heldur þvert á móti, eins og hv. 4. þm. Reykv. tók fram, muni það efla atvinnustarfsemi úti um land.

Ég veit að á Eskifirði var boðin út bygging sýslu­mannsbústaðar og þar voru það bæði heimamenn og aðkomuaðilar sem buðu í. Þar voru það heimaaðilar sem tóku að sér verkið og stóðu sig með prýði, eftir því sem ég hef best getað kynnt mér, og sýnir það að aðilar úti um land geta verið fyllilega samkeppnishæfir.

Ég get líka upplýst hér að ég hef nýverið boðið út smíði eldhúsinnréttinga í framkvæmdum sem mitt félag, sem er byggingarsamvinnufélag ungs fólks í Kópavogi, er með. Það var boðið út núna nýverið og þar kom fram að fyrirtæki utan af landi eru síður en svo með óhagstæðari tilboð en fyrirtæki af höfuðborgarsvæðinu.