27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í B-deild Alþingistíðinda. (275)

1. mál, fjárlög 1984

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að fara að lengja þessar umr. um of. Það er auðvitað af mörgu að taka og væri kannske ástæða til að fara orðum um eitt og annað sem komið hefur fram hjá tveimur hv. stjórnarsinnum sem talað hafa hér seinast. En ég sé nú ekki ástæðu til að lengja þessar umr. nú. Hv. þm. Lárus Jónsson viðurkenndi að 1. gr. frv. væri mjög ranglega upp sett vegna þess að það vantaði þar inn í 480 millj. kr. Vissulega gat hann bætt því við til skýringar eða til réttlætingar að þess væri getið í athugasemdum með frv. að málefni Vegagerðarinnar yrðu til áframhaldandi skoðunar. En ég hygg nú að þeir sem lásu þá athugasemd hafi ekki haft neina ástæðu til að ætla að þar væri um að ræða upphæð af þessari stærðargráðu, næstum hálfan milljarð vantaði inn í frv.

Þegar á þetta var fyrst bent í blöðum, og það hefur fyrrv. fjmrh. sighvatur Björgvinsson líklega gert, þá lá nú við að mér fyndist þetta ekki alveg sanngjarnt hjá honum vegna þess að við yrðum að gera ráð fyrir því að ríkisstj. myndi afla þess sem við bættist hjá Vegagerðinni að einhverju leyti með innlendri fjármögnun, hugsanlega einhverri gjaldtöku. Og ég vildi a.m.k. ekki trúa því að ríkisstj. fyndi ekkert annað ráð en þessa einföldu patentlausn, að taka alla upphæðina að láni erlendis og þar með skapa rekstrarhalla inn í fjárlagafrv. upp á samsvarandi upphæð, ég vildi bara ekki trúa því. En ég sá það hins vegar þegar frv. til lánsfjárlaga var lagt fram þar sem þetta kemur skýrt í ljós að hann hafði haft alveg rétt fyrir sér og að ábending hans var fullkomlega réttmæt, eða öllu heldur að ágiskun hans var fullkomlega réttmæt, því vissulega varð ekki vitað fyrirfram hvernig þessa fjár yrði aflað.

Hv. þm. Lárus Jónsson benti hins vegar á það að þarna kæmi annað á móti og að það mætti ekki taka þessa upphæð eina sem skekkju í 1. gr. frv. vegna þess að það væri annað sem skekkti dálítið myndina miðað við það sem verið hefði undanfarin ár, það væru í fyrsta lagi byggðalínurnar og önnur meðferð þeirra í þessu frv. en verið hefði og í öðru lagi kaup bankanna á verðbréfum. Um kaup bankanna á verðbréfum fyrr og nú er það að segja að það breytir að sjálfsögðu engu um rekstrarniðurstöðuna. Það lán sem ríkissjóður tekur breytir að vísu einhverju varðandi greiðslujöfnuðinn, en það breytir engu um rekstrarjöfnuðinn. Þar af leiðandi skiptir það ekki miklu máli í þessu sambandi. En hvað byggðalínurnar snertir þá er það út af fyrir sig alveg rétt að sem afleiðing af því að Landsvirkjun yfirtók byggðalínurnar á s.l. ári þá hefur verið gerð nokkur breyting á meðferð afborgana og vaxta af þessum byggðalínum í fjárlagafrv. Ég hef nú ekki haft aðstöðu til að kynna mér það til fulls hvernig þessi breyting er bókfærð og get ekki alveg fyllilega dæmt um það hvort þar er í raun og veru nákvæmlega rétt að staðið, en það er rétt hjá hv. þm. að þar kemur allveruleg upphæð á móti. En það er hins vegar rangt hjá honum að það sé öll upphæðin sem hann nefndi, 410–20 milljónir, vegna þess að þarna er annars vegar um að ræða afborganir og hins vegar vexti og það eru bara vextirnir sem færast inn í A-hlutann, en afborganirnar koma aftur á móti inn í lánahreyfingarnar og breyta þeim. Ég hygg að upphæðin sem þarna er um að ræða sé einhvers staðar í kringum 267 millj. kr. sem eru vextirnir af byggðalánunum og koma sem sagt inn í rekstrarhlið frv., en það sem eftir er af upphæðinni kemur aftur inn í lánahliðina og breytir engu um rekstrarniðurstöðuna.

Ekki meira um þetta, við fáum vafalaust tækifæri til að átta okkur betur á þessum atriðum á síðara stigi. Eins og ég sagði hér í upphafi er auðvitað allt of snemmt að spá neinu um það hvort horfir í mikinn eða lítinn halla á næsta ári þó að þarna séu stórar tölur á ferðinni. Það er t.d. í fljótu bragði ekki svo auðvelt að átta sig á því hvort tekjur af innflutningi eru fremur ofáætlaðar, eins og einn hv. þm. fullyrti hér í dag, eða vanáætlaðar, eins og reynslan hefur svo sem oftast verið.

Ég vildi svo að lokum fara örfáum orðum um smá formsatriði sem er þó mál sem geysimikið hefur verið fjölyrt um, þ.e. hvenær frv. til lánsfjárlaga og lánsfjáráætlun eru lögð fram. Hér hefur hver maðurinn af öðrum staðið upp og sagt að þau einstæðu tíðindi hafi gerst að lánsfjáráætlun og lánsfjárlög hafi verið lögð fram um líkt leyti og fjárlög og komið til umr. við 1. umr. fjárlaga. Mér hefur skilist á þessum ræðumönnum að slíkt hafi bara ekki gerst í manna minnum og nú eigum við allir að hoppa upp og fagna þeirri gerbreytingu sem orðið hefur. En það er gömul saga að menn eru fljótir að gleyma.

Ég vil nú til að byrja með viðurkenna að í fyrra stóð dálítið sérstaklega á. Þá lögðum við fram frv. til fjárlaga á réttum tíma og höfðum öruggan meirihluta til afgreiðslu þess, en ríkisstj. tapaði meiri hluta sínum í upphafi þings og hún hafði ekki öruggan meiri hluta til að afgreiða lánsfjárlögin. Þetta var meginástæða þess að verulegt hik var á mönnum með að leggja lánsfjárlögin fram. Auk þess var lengi vel óljóst hvort kosningar kynnu kannske að skella yfir á miðjum vetri, jafnvel fyrir áramót, og þá myndi ekki taka því að vera að reyna að afgreiða lánsfjárlög. Þetta var nú aðalástæðan til þess að svo lengi dróst að leggja fram lánsfjárlagafrv. í fyrra. Það er raunar rétt hjá hv. þm. Lárusi Jónssyni að hin eiginlega lánsfjáráætlun var aldrei lögð fram. Það var mikið óvissuástand í íslenskum stjórnmálum á s.l. vetri og margt óvenjulegt sem þá gerðist.

Önnur ástæða þess að ekki var nú gengið frá lánsfjáráætluninni fyrr en nokkuð seint og frv. sjálft kom ekki fram fyrr en líklega í febrúarmánuði var sú að halda þurfti erlendum lántökum í algeru lágmarki. Hins vegar var einn stór liður sem gat ráðið verulegum úrslitum um niðurstöðutölur lánsfjáráætlunar sem Alþingi hafði á sínu valdi og þurfti fyrst að taka ákvörðun um, en það var spurningin um hvort ætti að hefja byggingu kísilmálmverksmiðju á Reyðarfirði. Þess hafði verið óskað að þingflokkarnir tækju afstöðu til þess máls og að fyrir lægi áður en lánsfjáráætlun væri endanlega frágengin hvort vilji væri fyrir hendi til að ráðast í þá framkvæmd eða ekki. Þarna var um mjög stóra upphæð að ræða og ef sú upphæð átti að koma inn var líklegt að einhverjar aðrar upphæðir þyrftu að dragast saman eða minnka. En því miður voru stjórnmálaflokkarnir að velkja þessu máli á milli sín mánuðum saman og svör bárust ekki. Það má kannske segja að þetta mál hafi tafið óþarflega mikið fyrir því að lánsfjáráætlun væri lögð fram samhliða hinni pólitísku óvissu að öðru leyti. En þetta var árið í fyrra og það var alveg óvenjulegt og sérstakt og á vafalaust ekki sinn líka.

Í hittifyrra, haustið 1981, var lánsfjáráætlun lögð fram 21. október. Ég hygg að það sé næstum að segja sömu dagana ef ekki sama daginn og sú lánsfjáráætlun var lögð fram sem hér er til umr. Frv. til lánsfjárlaga var lagt fram 27. október 1981. Hitt er önnur saga að ekki tókst að afgreiða lánsfjáráætlunina fyrir áramót og ég hygg nú að stjórnarandstaðan á þeim tíma hafi átt eigi lítinn þátt í því að svo fór. En þetta var sem sagt önnur missögnin sem kom hér fram áðan hjá hverjum ræðumanninum á fætur öðrum.

Hin missögnin kom fram hjá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni sem fullyrti að það gerðist aldrei, ekki nú og raunar aldrei áður, að gerð væri nein grein fyrir framkvæmd lánsfjáráætlunar á líðandi stund. Og þegar þing kæmi saman er lánsfjáráætlun fyrir næsta ár væri lögð fram lægju ekki fyrir neinar upplýsingar um það hvernig til hefði tekist með framkvæmd lánsfjáráætlunar á því ári sem væri að líða. Ég er hérna fyrir framan mig með þessi plögg sem lögð voru fram hér haustið 1981. Ég sé að í frv. til lánsfjárlaga í athugasemdum við 28. gr., þar sem leitað er eftir heimild til þess að taka lán vegna endurskoðunar lánsfjáráætlunar fyrir þetta sama ár upp á 42 millj., er gerð mjög ítarleg grein fyrir því að hvaða leyti hefur verið farið fram úr og að hvaða leyti staðið hefur verið við lánsfjáráætlun líðandi árs þannig að það er líka rangt að þannig hafi ævinlega verið staðið að málum að upplýsingar af þessu tagi hafi skort.