27.02.1984
Efri deild: 55. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3194 í B-deild Alþingistíðinda. (2752)

195. mál, þinglýsingalög

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Á þskj. 351 er frv. til I. um breytingu á þinglýsingalögum nr. 39 10. maí 1978. Frv. fjallar um breyttar reglur um þinglýsingu skjala er varða skráðar bifreiðir. Er frv. flutt í tengslum við frv. sem liggur fyrir deildinni um breytingu á umferðarlögum, þar sem gert er ráð fyrir breyttri skipan á skráningu bifreiða og annarra skráningar­skyldra ökutækja. Reglur um þinglýsingu skjala er varða bifreiðir byggja á umdæmaskráningu. Verði um­dæmaskráning bifreiða felld niður raskast að óbreyttum þinglýsingarlögum tengsl milli skráningar og þinglýsing­ar. Þarf því að aðlaga þinglýsingareglur að þessu leyti nýjum skráningarreglum ef þær verða lögfestar og fjallar frv. um það efni.

Í frv. er við það miðað að skjalinu verði þinglýst á heimavarnarþingi eiganda bifreiðar og er það í raun og veru óbreytt fyrirkomulag þó miðað sé við það hvar bifreið er skráð. Við flutning bifreiðar verður hins vegar ekki þörf á nýrri þinglýsingu eða sendingu skjala milli umdæma. Þess í stað er gert ráð fyrir að upplýsing­um um að skjali hafi verið þinglýst á bifreið verði komið í ökutækjaskrá Bifreiðaeftirlitsins þannig að þar liggi jafnan fyrir upplýsingar um hvort og þá hvar skjali hafi verið þinglýst, en hins vegar ekki upplýsingar um efni skjals. Upplýsingar um það yrði einungis að fá við embættið þar sem skjali var þinglýst.

Við fyrri umræður um breytt skráningarkerfi bifreiða þótti nokkur óvissa um það hvernig þinglýsingu yrði hagkvæmast komið fyrir miðað við að áfram yrði heimilað að veðsetja bifreiðir og að veðsetning veitti veðhafa svipaða vernd og verið hefur. Þær leiðir sem þá koma helst til álita hefðu væntanlega haft í för með sér aukna pappírsvinnu við sendingu skjala milli umdæma með hættu á mistökum. Þær leiðir hefðu og trúlega að einhverju leyti dregið úr viðskiptaöryggi og rétti veðhafa.

Einnig kom til álita að koma á fót einni þinglýsinga­stofu fyrir allt landið við Bifreiðaeftirlitið eða borgar­fógetaembættið í Reykjavík. Með tölvuvæðingu Bif­reiðaeftirlits og embætta þinglýsingardómara verður nú unnt að koma upplýsingum þeim sem hér um ræðir í ökutækjaskrá um teið og skjal er móttekið til þinglýs­ingar. Verður að ætla að með þessum hætti verði unnt að halda uppi fullu öryggi í sambandi við þinglýsingu auk þess sem aðgangur að upplýsingum að þessu leyti yrði greiðari svo sem við kaup og sölu bifreiða.

Rétt er að taka fram að færsla í ökutækjaskrá Bifreiðaeftirlitsins á upplýsingum um þinglýsingu skjala er varðar bifreiðir er þegar hafin við borgarfógetaemb­ættið í Reykjavík og mun það að óbreyttu skráningar­kerfi hafa í för með sér ýmiss konar þægindi fyrir bifreiðaeftirlit, borgarfógetaembættið og bifreiða­eigendur. Skiptir þetta verulegu máli í Reykjavík þar sem þinglýsing og skráning fer ekki fram á sama stað. En einnig á öðrum stöðum mun þetta hafa í för með sér hagræði og er við það miðað að upplýsingar um þinglýsingar á bifreiðum við önnur embætti verði og færðar í ökutækjaskrána og að því verki megi ljúka á árinu.

Hæstv. forseti. Ég tel eigi þörf á að víkja frekar að efni þessa frv. en legg til að því verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. allshn.