27.02.1984
Efri deild: 55. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3195 í B-deild Alþingistíðinda. (2756)

122. mál, framsal sakamanna

Frsm. (Ólafur Jóhannesson):

Virðulegi forseti. Allshn. hefur fjallað um það frv. um framsal saka­manna og aðra aðstoð í sakamálum sem hér er til 2. umr. Hefur n. skilað um það áliti á þskj. 320. Eins og það nál. ber með sér leggur allshn. til að frv. verði samþykkt.

Með þessu frv. er stefnt að því að setja almenn lög um framsal sakamanna. Slík lög eru nú ekki fyrir hendi en í 9.–11. gr. almennra hegningarlaga eru ákvæði um framsal sakamanna. Um framsal sakamanna á milli Norðurlandanna gildir samræmd löggjöf, sbr. íslensku lögin nr. 7 frá 1962.

Þetta frv. skiptist í fimm kafla. I. kaflinn er um efnisreglur, þ.e. skilyrði fyrir framsali sakamanna. II. kaflinn er um réttarfarsreglur, þ.e. meðferð framsals­mála. III. kaflinn fjallar um aðrar ákvarðanir í tengslum við framsal. IV. kaflinn fjallar svo um aðra aðstoð í sakamálum og loks eru svo í V. kafla nokkur loka­ákvæði.

Þetta lagafrv. er byggt á lögum sem sett hafa verið á Norðurlöndum um framsal sakamanna. En þau lög munu hafa verið sett með tilliti til samninga sem gerðir hafa verið um þetta efni á vegum Evrópuráðsins. Hafa Norðurlöndin önnur en Ísland fullgilt aðalsamninginn, sbr. bls. 9 í grg. með þessu frv. Ísland hefur skrifað undir en ekki fullgilt. Verði þetta frv. að lögum getur Ísland fullgilt samningana. Þeir eru birtir sem fskj. með þessu frv., sbr. bls. 25–45 og fer ég ekki út í þá.

Ísland hefur verið talið bundið af gagnkvæmum framsalssamningum við nokkur lönd, sbr. bls. 8 og 9 í grg. þar sem greint er frá því hverjir þeir samningar eru. Verði þetta frv. að lögum er eðlilegt að þeir samningar verði endurskoðaðir þannig að tryggt sé að þeir séu í samræmi við þessi væntanlegu lög og Evrópusamning­ana. Það mun vera í samræmi við almenna réttarvitund hér á landi að varlega eigi að fara í framsal sakamanna og að það eigi sér því aðeins stað að tilteknum skilyrðum sé fullnægt.

Ekki þarf að eyða orðum að því að framsal á saka­manni er mjög alvarleg íhlutun í frelsi einstaklings. En ákvæði þessa frv. eru í samræmi við þá almennu réttar­vitund hér á landi, sem ég drap á, þar sem þær reglur sem hér eru settar um framsal virðast mjög varfærnis­legar og skynsamlegar. Í skilmerkilegri grg. með frv. er gerð grein fyrir þeim og fer ég ekki nánar út í það enda mun hafa verið gerð grein fyrir því í framsögu á sínum tíma. Ég get aðeins undirstrikað það sem segir á bls. 10 í grg. þar sem dregin eru saman grundvallaratriði sem byggt er á í Evrópusamningnum. Ég sé ekki ástæðu til að lesa þau upp en vísa til þeirra.

Ég held, virðulegi forseti, að ekki sé ástæða til að ég fari að fjölyrða frekar um málið. Allshn. er sammála um að mæla með því. Læt ég þá máli mínu lokið.