27.10.1983
Sameinað þing: 9. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í B-deild Alþingistíðinda. (276)

1. mál, fjárlög 1984

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Ég skal leitast við að lengja þessar umr. ekki mikið þó full ástæða sé auðvitað til að fá a.m.k. þeim spurningum svarað sem á hugann leita við lestur ræðu hæstv. fjmrh. í dag. Ég mun stikla hér lauslega í gegnum þá ræðu. Það sem fyrst vekur athygli þegar hlustað er á slíka ræðu er að allan tímann er hér talað um fjárlög ríkisins sem bókhald með tveim dálkum, annars vegar tekjum, hins vegar útgjöldum. Þetta er auðvitað ágætt og sjálfsagt er bókhaldið í fullkomnu lagi hjá þeim sem að því hafa staðið og hér eru staddir í húsinu, en um það snýst málið ekki. — Það er vissulega verið að ræða hér um tekjur og útgjöld en það er auðvitað ekki sama hvernig þessum útgjöldum er varið. Hæstv. fjmrh. endaði ræðu sína í dag með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Þetta frv. er mikið aðhaldsfrv. og ýmsir verða vafalaust óánægðir með það, en við því er ekkert að gera. Ég lít ekki á það sem hlutverk mitt í embætti fjmrh. að gera öllum til hæfis.“

Ég hlýt því að spyrja hæstv. fjmrh.: Hverjum ætlar hann að gera til hæfis, og hverjum ætlar hann ekki að gera til hæfis? Um það snýst þessi ræða. Málið er, að mér sýnist, að eiginlega sé varla verjandi að halda því fram hér í sölum Alþingis að einhverjum landsmönnum eigi alls ekki að gera til hæfis.

Það hefur komið fram að ráðh. segir þetta mikil aðhaldsfjárlög. Hann segir líka í miklum hneykslunartón í inngangi ræðu sinnar að mál sé til komið að sporna við fótum og takmarka hið óþingræðislega vald sem hæstv. fjmrh. hverju sinni er gefið. Það er þá ekki nema stundum sem hæstv. ráðh. hneykslast á óþingræðislegu valdi vegna þess að við höfum nú setið í sjö mánuði undir því að landinu hefur verið stjórnað án þingræðis, ég vil aðeins benda honum á það.

Síðan segir seinna í inngangsræðu hæstv. fjmrh. þar sem hann er að tala um þriðja meginmarkmiðið með þessum fjárlögum, með leyfi forseta:

„Þetta þýðir einfaldlega að ríkið hyggst soga minna til sín af aflafé því sem atvinnuvegir og einstaklingar skapa.“

Um það snúast líka þessi fjárlög og þessi umr. um þau, en við Alþb.-menn lítum ekki þannig á að ríkið sé eitthvað sem sogar til sín fé landsmanna. Við höfum hingað til litið svo á að það sé okkar sameiginlegi sjóður sem hæstv. ráðh. Albert Guðmundsson að þessu sinni stýrir, en við höfnum auðvitað þessari skilgreiningu á nýtingu á þjóðartekjum. Það sem mér sýnist að verið sé að segja þarna er einfaldlega þetta: Við ætlum að færa þjóðartekjurnar úr fleiri höndum í færri hendur. Og ég bið þá hæstv. ráðh. að leiðrétta mig ef ég skil þetta rangt.

Í þriðja kafla sem heitir Efnahagsaðstæður á þessu ári er talað um hvert verðbólgan stefndi. Í allt sumar hafa verið lesnar yfir okkur svimandi tölur um hvert verðbólgan hefði verið komin, en alltaf láist að segja eitt, halda aðeins áfram með einni aukasetningu, — ef ekkert hefði verið að gert. En ég held nú að þeir sérfræðingar hæstv. núv. fjmrh. hljóti að hafa haft einhvern grun um það innst inni að hver sú ríkisstj. sem að völdum sat hefði nú kannske líka gert till. um einhverjar aðgerðir og vissulega höfum við Alþb.-menn þær till. tilbúnar fyrir löngu síðan. En allan tímann hefur verið talað um að með því að hætta að stjórna þjóðinni hefði verðbólgan farið hingað og þangað, upp í 130 eða ég veit ekki hvað. Þetta er auðvitað enn ein fölsun í málflutningi sem við sitjum hér undir endalaust vegna þess að sjaldnast er fólk hér að tala saman um staðreyndir heldur að pexa um meiningarlausa hluti. Það er vandi, við vitum það líka Alþb.-menn, að það er töluverð kúnst að stjórna löndum. Eins og Lao Tse segir: Að stjórna ríki er eins og að sjóða litla fiska. Þetta kunnum við allt saman, og við hefðum líka gert okkar ráðstafanir.

En lítillega skal áfram haldið. Hv. þm. Lárus Jónsson sagði hér áðan að nú ætlaði ríkisstj. að skilja 2 milljarða af þjóðartekjum eftir hjá landsmönnum. Við það hef ég tvennt að athuga. Það hefur komið fram að þjóðartekjur hafa lækkað um 10%. Það er þess vegna ekki af eins miklu að taka,.við skiljum það áreiðanlega bæði rétt, er það ekki? Jafnframt því hafa laun landsmanna verið lækkuð svo að ég hygg að það verði líka af minna að taka, þannig að ég hef töluverðar efasemdir um hvort þetta dæmi er alveg heiðarlega uppsett. Ég hef aðra athugasemd við þetta að gera. Ég er nefnilega ekkert alveg sammála því að þessir 2 milljarðar séu skildir eftir hjá öllum landsmönnum. Ég vil gjarnan að þeir fari til sumra en ég vil aldeilis ekki að þeir fari til allra. Ég vil ekki að þeir fari til þeirra sem nær enga skatta greiða, og það eru ævinlega þeir sem mest fé hafa milli handa. Það væri afskaplega ánægjulegt ef þeir héldu áfram að borga skatta eða tækju jafnvel upp á því, þeir sem hingað til hafa ekki gert það. Síðan tala menn hér um mikil erlend lán hjá fyrrv. ríkisstj. Um þetta snýst náttúrlega alltaf umr., hvað þessi ríkisstj. er vitur og hin, sú sem síðast var, var misvitur. Svona einfalt er nú málið ekki. Það skiptir nefnilega töluverðu máli í hvað þessi erlendu lán voru notuð. Og ef þau voru notuð, sem þau voru m.a., til að koma um 80% íslenskra húsa á hitaveitu eða í virkjanir til þess að menn gætu sparað sér olíukaup, þá er þetta arðbært verkefni eins og segir í þjóðhagsáætlun. Þess vegna skiptir dálitlu máli í hvað þessi erlendu lán voru notuð. Öllum ber saman um að slíkar framkvæmdir geti borgað sig á einum fjórum árum. Þau eru auðvitað dýr til að byrja með, en þau eru mjög fljót að borga sig. Verkefni sem ríkisstj. taka að sér eru mislengi að borga sig og afskaplega misjafnlega arðbær. Við Alþb.-menn höfum t.d. afskaplega sterka tilhneigingu til að telja að bygging seðlabankahúss og bygging flugstöðvar séu tiltölulega lítið arðbær verkefni.

Eina athugasemd enn vil ég gera eða öllu heldur bera fram eina spurningu. Það hefur komið fram að til stendur að spara um 300 millj. í almannatryggingakerfinu. Ég hef ekki enn þá heyrt nein svör um hvernig á að finna þær 300 millj. Ég er kannske ekki að biðja um svör akkúrat nú, ég býst ekki við því að ríkisstj. hafi hugmynd um hvernig hún ætlar að finna þessar 300 millj., en ég vil þá biðja hana um að komast að því áður en fjárlög koma til baka úr n.

Á bls. 25 og 26 er atriði sem vekur vissulega athygli. Þar er talað um tekjuskatt einstaklinga á árinu 1983 og 1984 og þar er talað um að hækkun á tekjuskatti einstaklinga sé um 51%. Það sem vekur hins vegar athygli mína er á bls. 26 þar sem talað er um tekjuskatt á félögum. Þar segir, og ég held ég hljóti að lesa, með leyfi forseta:

„Álagður tekjuskattur á félög nemur rúmlega 460 millj. kr. á þessu ári sem er um 55% hækkun frá fyrra ári.“

Sá sem ekki læsi lengra kæmist að þeirri niðurstöðu að tekjuskattur á félög væri hærri en tekjuskattur á einstaklinga, þ.e. um meiri hækkun væri að ræða. Nú bið ég enn um að ég verði leiðrétt ef ég skil rangt því svo er áfram haldið:

„Hér er um frumálagningartölur að ræða og miðað við reynslu undanfarinna ára má ætla, að endanlegar álagningartölur verði talsvert lægri. Miðað við svipaðan mun á frumálagningu og endanlegri álagningu og í fyrra, en heldur slakari innheimtu er áætlað að innheimta tekjuskatts félaga verði um 285 millj. kr.“

Það er ekki 55% hækkun frá fyrra ári. Ég vil benda á að frá því að talað er um 460 millj., sem er frumáætlun álagningar, er reiknað með að hún verði ekki nema 285, en slíkur kostur er ekki gefinn einstaklingum. Minnast menn nú að lesa mátti í blöðum bæjarins fyrir stuttu

síðan að einn virtur og duglegur atvinnurekandi sat á fundum með hæstv. fjmrh. til þess að ræða við hann um slaka innheimtu gjalda hjá honum því hann skuldaði litlar 13 millj. sem nú var rætt um hvernig ætti að gera honum þægilegt að greiða. Ekki veit ég hvort það verður strikað út eins og annað, en við einstaklingar höfum hingað til ekki fengið slík kostaboð. Og ég óska sem sé að því sé svarað hvort ég skil rétt að þarna sé orðinn gífurlegur munur á tekjuskatti einstaklinga og félaga.

Á bls. 27 í ræðu hæstv. fjmrh. er talað um heildargjöld ríkissjóðs og hversu mikið af þeirri fjárhæð fari til samneyslu, en það er nú sem samsvarar 45.6%. Ég sé ekki að það komi fram hér og hafði ekki tækifæri til þess að kanna það vegna þess að við sáum og heyrðum ekki ræðu hæstv. ráðh. fyrr en í dag. Mig langar að spyrja: Hver er mismunur á samneysluhluttallinu frá síðustu fjárlögum? Ég vænti að hæstv. fjmrh. skrifi það hjá sér.

Þá er ég nú eiginlega næstum komin í gegnum þessar athugasemdir mínar. Mig langar að minnast aðeins á Lánasjóð ísl. námsmanna. Ég veit ekki betur en að við höfum þm. allra flokka samið lög sem tóku gildi fyrir einu eða tveimur árum og áttu að fara að fullu í gildi 1. jan. n.k., þar sem fjárþörf námsmanna yrði fullnægt að 100%. Ég vil óska eftir endanlegu svari við því hvort ekki þarf að gera lagabreytingu til þess að víkja frá ákvæðum þeirra laga.

Það mætti auðvitað mar t og miklu fleira um þetta segja eða a.m.k. spyrja. Ég ætla mér ekki þá dul að vera alvitur um hvernig skuli semja fjárlög í þessu landi, en þykist hafa einhverjar meginhugmyndir um forsendur sem auðvitað stangast mjög á við þær forsendur sem hér er gengið út frá. Hér er t.d. hikstalaust sagt að nú eigi að verða samdráttur, 9–10%, í uppbyggingu dagvistarheimila, skólamála, grunnskóla, sjúkrahúsa og raunar hafnargerðar. Það er varla ástæða til að segja það einu sinni enn að slíkum samdrætti erum við auðvitað gjörsamlega ósammála vegna þess að við teljum að eitthvað það arðbærasta sem hægt sé að gera í þessu landi sé að sinna börnum og reyna að gera þau að góðum og nýtum borgurum. Þess vegna er allur samdráttur í þeim efnum auðvitað stórhættulegur.

Að lokum vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. fjmrh., varðandi frv. til laga um lánsfjáröflun ríkissjóðs og þá einkum um 2. gr., hvort hugsanlegt sé að 2. gr. frv. kynni að stangast á við lög um Seðlabanka Íslands. Ég er ekkert að halda því fram. Ég hef reynt að líta lauslega í gegnum lögin um Seðlabankann sem ég reyndar er nokkuð vel kunnug, enda höfum við hæstv. fjmrh. oftlega í umr. um Seðlabanka Íslands verið sammála um ákveðna hluti og mjög sammála um ákveðnar breytingar. Ég hef sjálf oft gagnrýnt það mikla pólitíska vald sem mér þykir Seðlabankinn hafa og ég er andvíg því, en það breytir því ekki að lög höfum við í landinu um seðlabanka Íslands og á meðan þau eru í gildi hljótum við að fara að þeim. Og þá verður fyrir mér 12. gr., sem segir, með leyfi forseta:

„Seðlabankanum er heimilt að ákveða að innlánsstofnanir sem um ræðir í 10. gr. skuli eiga ríkistryggð bréf og önnur trygg verðbréf“ o.s.frv.

Og síðan segir í 13. gr.: „seðlabankinn hefur rétt til að ákveða hámark og lágmark vaxta“ o.s.frv. En hér í 2. gr., þar sem talað er um að út megi gefa ríkisskuldabréf og spariskírteini miðað við vísitölu sem fjmrh. ákveður o.s.frv., segir síðan orðrétt:

„Fjmrh. er heimilt að ákveða lánskjör þessara bréfa og er ekki bundinn við almennar vaxtaákvarðanir Seðlabanka Íslands við þá ákvörðun“.

Ég vil aðeins varpa fram þeirri spurningu og biðja hæstv. fjmrh. að ganga úr skugga um það, áður en þetta frv. kemur sem sérstakt mál fyrir hv. Sþ., hvort í raun og veru hefði þá ekki verið eðlilegra að gera breytingu á lögum um Seðlabanka Íslands stangist þetta á við lög um hann. Mér hefði þá fundist eðlilegra lagalega séð að breyta lögum um Seðlabankann.

Ég vona að hæstv. fjmrh. hafi tekið niður þessar athugasemdir. Ég ætla ekki að eyða hér tímanum í að pexa um hver hefur verið bestur fjmrh. á síðustu áratugum né annað slíkt, en óska eftir að þessar athugasemdir verði teknar til greina og þeim svarað.