27.02.1984
Efri deild: 55. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3212 í B-deild Alþingistíðinda. (2763)

197. mál, virðisaukaskattur

Karl Steinar Guðnason:

Virðulegi forseti. Ég fagna framlagningu þessa frv., frv. til l. um virðisaukaskatt. Skattlagning er oft rædd á Atþingi og oft hefur virðis­aukaskattur verið nefndur sem betra kerfi en það kerfi sem við nú notum, en menn hafa ekki treyst sér til að setja neitt á blað í þá veru. Nú hefur fjmrh. gert það og ber það vitni um röskleika hans og dugnað að gera það. Hins vegar tel ég að umfjöllun um þessa skattlagningu þurfi að vera mjög ítarleg. Ég lít svo á að þetta séu fyrst og fremst frumdrög, sem síðan verði skoðuð vandlega í fjh.- og viðskn., og þessu frv. verði breytt á þann hátt sem viðunandi telst. Hafa þarf í huga að hætta er á að þessi skattlagning raski ýmsum hlutum óeðlilega, eink­um hvað varðar matvöruna, en ég er viss um að hægt er að finna leið til að komast hjá miklum erfiðleikum í þeim efnum.

Við fyrstu sýn tel ég skattinn áætlaðan of háan, 21%. Þennan skatt á að innheimta af miklu fleiri þáttum en gert er með söluskatt og því tel ég að virðisaukaskatts­prósentan gæti verið lægri. En það á eftir að koma í ljós. Öllum er vel kunnugt að söluskattssvik eru veruleg í þjóðfélaginu. Mætti herða þá skattheimtu mjög frá því sem nú er þó að seint verði það gert til fullnustu þannig að allt skili sér. Staðreyndin er sú að söluskatturinn er of hár og það er mikil freisting fyrir þá aðila sem þurfa að innheimta söluskattinn að svíkja hann undan. Því er það gert í stórum mæli. Það er svo með öll skattkerfi að tímans tönn vinnur á þeim og menn læra að spila á skattkerfið. Þess vegna eru uppi umræður um að breyta fyrirkomulagi nú.

Ég tel einnig að samfara því að breyta um kerfi þurfi að huga að því að leggja niður tekjuskattinn sem er einn ranglátasti skattur sem innheimtur er í dag. Það raskar miklu líka, en þar eiga tryggingarnar að koma á móti að mínu mati. Ég leyfi mér að spyrja fjmrh. hvort ekki hafa verið hugað að því að skoða það mál í samhengi við þetta. Ég tel að tekjuskattskerfið hafi verið ágætt á sínum tíma og þjónað sínum tilgangi, en í dag er það úreltur skattur og ranglátur, vegna þess að það eru svo fjölmargir í þjóðfélaginu sem geta í raun ákveðið hversu háan tekjuskatt þeir greiða. Því þarf að breyta líka.

Við umr. í fjh. og viðskn. verða þessi mál sjálfsagt skoðuð vandlega. Ég treysti því að fundinn verði viðunandi millivegur þar sem menn geta mæst. Og ég endurtek: ég fagna því að nú er í alvöru farið að huga að þessum breytingum sem geta verið til stórra bóta ef vel er að staðið. Jafnframt þarf í leiðinni að fella niður tekjuskattinn. Það þarf að nota það lag sem þessar breytingar hafa í för með sér. Þá er hægt að breyta fleiru til batnaðar, til réttlátara horfs en er í dag. Ég óska eftir að fjmrh. upplýsi okkur um það hvort einhverjar umr. hafi farið fram um þau mál.