27.02.1984
Neðri deild: 52. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3214 í B-deild Alþingistíðinda. (2773)

192. mál, kirkjusóknir

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Á þskj. 344 er frv. til l. um kirkjusóknir, safnaðarfundi, sóknarnefndir, héraðsfundi o.fl. Frv. þetta er upphaflega samið af svokallaðri kirkjulaganefnd er skipuð var til þess að endurskoða kirkjulöggjöfina. Að tilhlutan kirkjuráðs var frv. lagt fyrir kirkjuþing á árinu 1982 er gerði á því smávægilegar breytingar. Á síðasta vetri var frv. lagt fram á Alþingi en fékk ekki umfjöllun. Frv. er nú aftur lagt fram í óbreyttri mynd og mun ég hér drepa á nokkur atriði í frv. og einkum ákvæði er teljast vera nýmæli.

Núgildandi ákvæði um sóknir og sóknarnefndir er fyrst og fremst að finna í lögum nr. 36/1907, um skipan sóknarnefnda og héraðsfunda. Auk þess er að finna ákvæði um þetta efni í öðrum lögum, einkum lögum nr. 35/1970, um skipan prestakalla og prófastsdæma og um kristnisjóð.

Í 1. kafla þessa frv. er vikið að umdæmaskiptingu innan þjóðkirkjunnar. Sóknin er grunneining í þeirri umdæmaskiptingu. Um skiptingu landsins í prófastsdæmi og prestaköll og hvaða sóknir tilheyra hverju prestakalli er ekki fjallað í þessu frv. enda er það gert í lögum nr. 35/1970, um skipan prestakalla, prófastsdæma og um kristnisjóð.

Í II. kafla frv. er fjallað um kirkjusóknir og skipan þeirra, um sóknamörk, skiptingu kirkjusókna, sameiningu þeirra og um það hvenær og hvernig sókn verði lögð niður. Hér er um fyllri ákvæði að ræða en nú eru í gildandi lögum.

Ákvæði í 4.–6. gr. frv. um breytingu á sóknamörkum, niðurlagningu sókna o.fl. er að mestu efnislega samhljóða ákvæðum í 11.–13. gr. laga nr. 35/1970. Þó er rétt að benda á að í gildandi lögum er tilskitið að kirkjumálaráðherra staðfesti breytingar er kunna að vera gerðar á mörkum sókna og sóknarskipun, að undangenginni umfjöllun viðkomandi safnaða og héraðsfunda og að fengnum tillögum biskups. Í frv. er einungis gert ráð fyrir afskiptum ráðh. af slíkum málum ef tillögur ná eigi samþykki viðkomandi safnaða og héraðsfunda. Það kann að orka tvímælis að breyta frá gildandi ákvæðum í þessu efni og er því rétt að nefnd sú er fær málið til umfjöllunar taki þetta til athugunar.

Í 3. gr. er kveðið á um að í kirkjusókn skuli að jafnaði eigi vera fleiri en 4000 sóknarmenn og eigi færri en 100. Hér er fyrst og fremst um viðmiðunarreglu að ræða. Í lögum nr. 35/1970 um skipan prestakalla og prófastsdæma og um kristnisjóð eru í gildi þær viðmiðunarreglur að í Reykjavíkurprófastsdæmi skuli jafnan vera svo margir prestar að sem næst 5000 manns komi á hvern að meðaltali en í kaupstöðum utan Reykjavíkurprófastsdæmis er miðað við að 4000 manns komi á hvern prest.

Það er nýmæli að tilgreina lágmarksfjölda sóknarmanna. Í nokkrum sóknum eru færri en 100 sóknarmenn. Spyrja má hvort með þessu ákvæði sé verið að þvinga fram fækkun sókna. Svo er raunar ekki. Eins og fyrr greinir er hér um að ræða viðmiðunarreglur. Það er undir vilja sóknarmanna komið hvort þeir kjósa að leggja niður sókn og sameinast annarri og þarf slíka ákvörðun m.a. að leggja fyrir aðalsafnaðarfund. Víða kann að vera heppilegt að sameina tvær eða fleiri sóknir í eina þar sem landfræðilegar og félagslegar ástæður mæla með því. Umrætt ákvæði ætti að ýta undir þessa þróun án þess þó að þvinga hana fram. Þetta atriði verður þó að sjálfsögðu athugað nánar í nefnd.

Í III. kafla er fjallað um sóknarmenn og rétt þeirra til kirkjulegrar þjónustu og að nokkru um stöðu þeirra og réttindi og skyldur innan sóknar og þar af leiðandi innan þjóðkirkjunnar. Hér er gert ráð fyrir að lögfesta þá meginreglu að skírn sé forsenda fyrir því að menn tilheyri þjóðkirkju.

Rétt er að vekja athygli á ákvæðum 9. gr. Þar er tilgreindur réttur sóknarmanna til guðsþjónustu. Í sóknum þar sem sóknarmenn eru 600 hið fæsta skal almenn guðsþjónusta haldin hvern helgan dag. Í sóknum þar sem eru færri sóknarmenn er guðsþjónustan bundin við annan hvern, fjórða hvern eða áttunda hvern helgan dag eftir nánari reglum þar um. Það kann að orka tvímælis hvort rétt sé að binda guðsþjónustuskylduna í lögum með þeim hætti sem hér er gert og rétt er því að mál þetta verði athugað nánar í þeirri n. sem fær málið til umfjöllunar.

IV. kafli frv. fjallar um safnaðarfundi, m.a. verkefni þeirra, starfshætti, fundarboðun, ályktunarfærni o.fl. Ákvæði frv. um þetta efni eru ítarlegri en ákvæði gildandi laga.

Í V. kafla er ákvæði um sóknarnefndir, skipun, störf og starfshætti. Skv. gildandi lögum eru þrír sóknarnefndarmenn þar sem sóknarmenn eru færri en eitt þúsund, en annars fimm. Skv. 14. gr. frv. er gert ráð fyrir að fjölga sóknarnefndarmönnum þannig að þeir verði þrír þar sem sóknarmenn eru færri en 300, en ella fimm, þó svo að þegar sóknarmenn eru 1000 hið fæsta mega sóknarmenn vera 7 og 9 ef sóknarmenn eru fleiri en 4000. Frv. gerir ráð fyrir að kjörtímabil sóknarnefnda verði fjögur ár í stað sex ára skv. gildandi lögum.

Skv. 22. gr. er lagt til að safnaðarfulltrúar verði kosnir af sóknarnefndum í stað þess að þeir eru nú kosnir á safnaðarfundi. Er hér fylgt ályktun kirkjuþings frá 1978 um þetta efni en nauðsynlegt er að safnaðarfulltrúar séu í nánum tengslum við sóknarnefnd á hverjum stað.

Í 24. gr. er það nýmæli að gert er ráð fyrir að biskup geti sett sóknarnefndum erindisbréf.

Í VI. kafla er ákvæði um starfsmenn sókna. Er þar um nokkur nýmæli að ræða sem ekki er ástæða til að fjölyrða frekar um.

VII. kafli fjallar um héraðsfundi og héraðsnefndir. Í 36. gr. er kveðið á um að í hverju prófastsdæmi skuli starfa þriggja manna héraðsnefnd sem er framkvæmdanefnd héraðsfunda. Ætti þetta að efla kirkjulega starfsemi innan hvers prófastsdæmis og horfa því til bóta.

Ég hef hér rakið helstu atriði frv. þar sem um nýmæli er að ræða og legg svo til að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.