28.02.1984
Sameinað þing: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3217 í B-deild Alþingistíðinda. (2779)

117. mál, húsnæðismál námsmanna

Flm. (Stefán Guðmundsson):

Herra forseti. Ég tala hér fyrir till. til þál. á þskj. 144 um húsnæðismál námsmanna. Þar segir:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að kanna sérstaklega á hvern hátt megi bæta úr þeim mikla húsnæðisvanda sem námsmenn utan Reykjavíkur og nágrennis búa við vegna staðsetningar Háskóla Íslands og flestra sérskóla.

Áhersla skal á það lögð að ljúka þessari könnun svo fljótt sem kostur er.“

Í grg. með þáltill. segir m.a.:

Stærstu árgangar Íslandssögunnar eru það æskufólk sem nú er á aldrinum 18–25 ára. Menntun, og þá sérstaklega framhaldsmenntun, er orðin mun algengari en nokkru sinni fyrr. Menntastofnanir framhalds- og sérnáms eru aðallega á Reykjavíkursvæðinu. Námsfólk utan af landsbyggðinni leitar því í miklum mæli til höfuðborgarinnar eftir menntun sinni. Þannig hefur skólakerfið verið byggt upp.

Á undangengnum árum hafa verið settir á stofn fjölbrauta- og menntaskólar víða um landið, auk menntaskólanna sem voru fyrir. Á skólaárinu 1982– 1983 voru 5733 nemendur utan Reykjavíkur í þessum skólum, þar með taldar framhaldsdeildir grunnskólanna.

Í grg. eru taldir upp 19 framhaldsskólar, sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu, sem um 1800–2000 landsbyggðarnemendur sækja. Sem dæmi um hlutfall nemenda í þessum skólum má nefna að í einum skóla sem telur um 400 nemendur eru 168 af landsbyggðinni. Í öðrum skóla eru nemendur alls 285, þar af 125 utan höfuðborgarsvæðisins. Einnig þekkjum við hlutfallið 84:50, 44:29, einnig 230:100, svo að aðeins nokkuð sé nefnt, en það segir okkur samt sína sögu.

Í Háskóla Íslands munu skráðir nemendur nú vera um 4013, þar af utan höfuðborgarsvæðisins 923 nemendur. Það er hins vegar alveg ljóst að landsbyggðarnemendur eru í raun miklu fleiri en þessar tölur gefa til kynna þar sem mikill fjöldi þeirra hefur flutt lögheimili sitt til Reykjavíkur meðan á náminu stendur.

Öllum er ljóst að húsnæði er ein af forsendum þess að hægt sé að stunda nám hér í Reykjavík. Álitið er að um 5500–6000 íbúðir séu til leigu í Reykjavík. Ásókn í þær er gífurleg, sbr. umfjöllun Leigjendasamtakanna svo og skýrslu frá árinu 1982 sem Félagsstofnun stúdenta lét gera um húsnæðisaðstöðu háskólastúdenta sem er mjög fróðleg skýrsla. Samkeppni um of fáar íbúðir gerir það að verkum að mikil fyrirframgreiðsla og tiltölulega há húsaleiga eru oft forsenda fyrir því að íbúðir fáist á leigu. Þetta eykur mjög allan tilkostnað landsbyggðarnemenda við öflun menntunar í Reykjavík og mismunar þess vegna fólki vegna búsetu sinnar. Stór hluti þeirra 5733 nemenda, sem nú stunda undirbúningsnám utan höfuðborgarsvæðisins, á eftir að leita á þennan þrönga húsnæðismarkað.

Ég sé ekki ástæðu til að nefna við framsögu málsins hugsanlegar leiðir til úrbóta. Þar koma sjálfsagt nokkrir kostir til greina. Ég veit að skólastjórar viðkomandi skóla hafa velt þessu máli mjög fyrir sér og sumir þeirra hafa nokkuð ákveðnar skoðanir á því.

Með tillöguflutningi þessum, ef samþykkt verður, treysti ég á skilning og velvilja núv. ríkisstj. til að bregða skjótt við og leita sem skynsamlegastra leiða til úrbóta. Það er ástæða að fagna því atveg sérstaklega að í því frv. til l. um Húsnæðisstofnun ríkisins sem núv. félmrh. hefur lagt fram er farið inn á þá athyglisverðu braut að opna námsmönnum leið inn í húsnæðislánakerfið vegna félagslegra íbúðabygginga.

Eftir að hafa átt viðræður við marga skólamenn og fjölda nemenda, er þessi mál snerta, er mér ljósara en áður hversu brýnt er að hefjast nú handa um úrbætur. Það er sorgleg staðreynd að á hverju ári verður nokkur hópur nemenda að hverfa frá námi vegna þess ástands sem nú er ríkjandi í húsnæðismálum námsmanna. Hér verður að sporna gegn þeirri óheillaþróun. Það eru sjálfsögð mannréttindi að hafa sem jafnasta aðstöðu til mennta og við það verður að sjálfsögðu að standa. Efnahagur nemenda og/eða þeirra er þeim næst standa á ekki að geta skipt sköpum um möguleika viðkomandi nemenda til framhaldsmenntunar.

Ég geri mér ljósa grein fyrir því að margir telja að nú sé ekki efni til mikilla átaka í þessum málum. Minnkandi þjóðartekjur blasa við sem þýðir minni framkvæmdagetu þess opinbera. Breytt stefna efnahagsmála hefur þó þegar skilað jákvæðum árangri. Hefur ástandið í þjóðfélaginu nú um skeið verið á nokkuð annan og betri veg en fyrr. Því tei ég að nú sé lag til að hugsa og kanna á hvern hátt megi hér best að vinna. Með flutningi þessarar till. til þál. er reynt að vekja til umræðu og leita leiða til að bæta úr því slæma ástandi sem nú ríkir og búa betur í haginn.

Herra forseti. Ég vil að loknum þessum hluta umr. leggja til að till. verði vísað til allshn.