28.02.1984
Sameinað þing: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3224 í B-deild Alþingistíðinda. (2786)

173. mál, takmörkun fiskveiða í skammdeginu

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Þessi till. til þál. er um stöðvun veiða að mestu leyti frá því um miðjan desember og fram eftir janúarmánuði og er meiningin góð, ef svo má segja. Hins vegar tel ég vera nóg komið af höftum og bönnum á íslenskan sjávarútveg þó ekki sé farið að bæta þessu við. Ég sé ekki annað en þarna sé um viðbót að ræða við það sem þegar liggur fyrir í þessum efnum.

Reynsla undanfarinna ára er sú, að útgerðir og fiskvinnslustöðvar hafa í æ ríkara mæli reynt að haga sínum rekstri þannig að hægt væri að gefa bæði sjómönnum og fiskvinnslufólki sem mest frí í kringum hátíðar, einkum jól og nýár. Hins vegar eru víða uppi vandamál. Við skulum gera okkur ljóst að t.d. fyrir þá sem stunda togaraútgerð, og við getum nefnt bæði stóra og smáa togara, hefur einmitt þessi árstími verið hvað hagkvæmastur til siglinga. Ég held að enginn okkar leggist á móti því að við nýtum ferskfiskmarkaði okkar eins og við getum. Það má öllum vera kunnugt að sölur fyrst eftir áramót eru yfirleitt hæstu ísfisksölur ársins. Þess vegna vil ég ekki leggja höft á þá sem stunda þá starfsemi.

Ég held að það séu í vaxandi mæli eingöngu stærstu skipin sem sjái sér hag í að stunda veiðar í svartasta skammdeginu. Nú þegar höfum við reglur, sem hafa verið í gildi í allmörg ár, um t.d. þorskveiðar. Línubátum sem stunda þær er bönnuð veiði frá 21. des. og fram yfir áramót. Þarna er um að ræða reglugerð og hefur hún verið framkvæmd undanfarin mörg ár.

En það skal tekið fram, og er 1. flm. Eyjólfi Konráð kunnugt um þá afstöðu mína, að ég er ekki á móti því að stuðlað sé að sparnaði í öllum rekstri, síður en svo.

Ég tel óæskilegt að við förum að blanda till. til þál. um minnkandi veiðar á þessum árstíma inn í það fyrirkomulag sem við samþykktum að hafa á veiðum, kvótakerfið, áður en við fórum í jólafríið, eins og kom fram hjá hv. 4. þm. Vesturl. áðan. Hann vildi fara að blanda þarna inn í annarri leið en valin var í sambandi við kvótafyrirkomulagið. Það er enginn okkar að lýsa sérstakri blessun yfir því. Hins vegar var málið sent hv. Alþingi til úrlausnar. Við urðum að taka upp stjórn á veiðum. Það má deila um aðferðir og það er margt og mikið fundið að kvótakerfinu, en það á eftir að leiðrétta það og færa til bóta, það er ég viss um. Við skulum ekki hlaupa frá því á fyrstu dögum þings eftir áramót án þess að búið sé að reyna á það eins og gera þarf.

En ég vil aðeins láta það koma fram varðandi þáltill. að ég er stuðningsmaður þess að gefa fiskvinnslustöðvunum og útgerðunum sem frjálsastar hendur um hvernig þau fyrirtæki vilja haga sínum rekstri á þessum árstíma sem öðrum. Ég er mótfallinn frekari höftum en þegar eru á íslenskum sjávarútvegi.