28.02.1984
Sameinað þing: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3234 í B-deild Alþingistíðinda. (2794)

173. mál, takmörkun fiskveiða í skammdeginu

Skúli Alexandersson:

Herra forseti. Mín tilfinning er sú að ráðh. hafi komið hér upp í ræðustól fyrst og fremst til að staðfesta það að loðnukvótinn sé að vissu leyti hruninn og varla sé hægt að tala um að lengur sé kvóti í sambandi við loðnuna. Ráðh. sagði að allar líkur bentu til að ekki næðist að fiska það magn af loðnu sem talið væri í lagi með og að heimilað hefði verið og jafnframt að einhver hluti loðnuskipaflotans væri þegar að verða búinn með sinn kvóta. Ef forsendur kvótans eru ekki brostnar við þær aðstæður að ákveðinn hluti loðnuskipaflotans verður að hætta veiðum þrátt fyrir að ekki sé búið að veiða það magn sem gefið er út að leyfilegt sé þá veit ég ekki hvað það er, ef sá kvóti er ekki hruninn og forsendan fyrir því að það sé kvóti og skiptiregla í gangi, ef skipum er bannað að veiða á sama tíma og ekki næst að fiska það magn sem leyfilegt er að fiska.

Þessi umr. hefur farið svolítið út um víðan veg og á ýmislegt verið drepið. Hv. 3. þm. Vesturl. Valdimar Indriðason taldi að nóg væri komið af höftum í sambandi við rekstur íslensks sjávarútvegs. Ég get tekið undir það og ég hugsa að við sem fáumst við þann rekstur séum allir sammála um, að þegar sé komið nóg af alls konar höftum í sambandi við þau mál. En stærstu höftin sem sett hafa verið á íslenskan sjávarútveg er sá kvóti sem ég veit ekki betur en hv. þm. Valdimar Indriðason stæði hvað ákveðnast að að settur skyldi. Ég hef ekki heyrt hv. þm. mótmæla því að settar hafi verið alls konar takmarkanir á veiðar. M.a. nefndi hann í ræðu sinni að verið hefur þorskveiðibann hjá línubátum ákveðið tímabil í kringum áramót. Þetta er líka þvingun og dálítið sérstök þvingun að því leyti til að það er ýmiskonar kostnaður sem til fellur sem hv. þm. Tryggvi Gunnarsson benti á að myndi koma ef ætti að fara að banna skipum að veiða ákveðin tímabil.

Útgerð sem stendur nú þegar illa verður að standa frammi fyrir því að borga ákveðnum hluta skipshafnar kaup eftir að búið er að fyrirskipa slík stopp sem þorskveiðibannið er um áramót. En rétt er að upplýsa að ekki lendir allur mannskapurinn í því að fá kaup frá útgerðinni meðan á þorskveiðibanni stendur, það eru aðeins yfirmennirnir á skipunum. (Gripið fram í: Þeir dýrustu.) Þeir dýrustu, en hinum hópnum, þ.e. hásetunum, er gert að góðu að fara heim og hafa ekkert kaup. Því miður mun vera atgengt að þessir skipverjar geri lítið af því að tilkynna sig til atvinnuleysistryggingaskráningar og standa því slyppir og kauplausir frammi fyrir þessu banni. Þetta er eitt af því sem sjálfsagt væri að taka til frekari umr. en aðeins að nefna í svona framhjáhlaupi á hv. Alþingi.

Sjálfsagt er að undirstrika það sem hv. þm. Tryggvi Gunnarsson sagði að ef á að fara að fyrirskipa veiðibann kemur það niður á útgerð sem öll stendur nú illa að þurfa að borga þetta kaup. En þegar slíkt er gert á það vitaskuld að vera þannig að það séu aðrir en þessir illa stæðu útvegsmenn sem standi bak við það að borga kaup á þessu tímabili og vitaskuld á það að vera nákvæmlega eins í sambandi við þorskveiðistoppið. Það er ranglátt að ætlast til þess að útgerðir, sem er fyrirskipað að hætta veiðum, séu um leið ábyrgar fyrir þessum hluta rekstrarkostnaðarins. Nógu erfitt er að standa undir öðrum föstum kostnaði. Þarna á strax að koma til opinber aðili, Atvinnuleysistryggingasjóður vitaskuld að hluta og þá að öðru leyti einhver önnur stofnun, sem grípi þarna inn í til að standa undir kaupi sjómanna og verkafólks sem er bundið þessum atvinnurekstri. Ég veit ekki betur en að ákveðnir hópar í þjóðfélaginu taki sér ákveðið frí yfir áramót, sumir nokkra mánuði yfir sumarið, og eru á fullum launum hjá okkur úr okkar sameiginlegu sjóðum. Er meira til ætlast að slíkt hið sama væri gert gagnvart sjómönnum þegar talin væri þörf á áð stöðva fiskiskipaflotann vegna þess að of lítill fiskur væri í sjónum og takmarka þyrfti sóknina?

Hv. þm. Tryggvi Gunnarsson nefndi í sambandi við kvótann að við skyldum ekki halda uppi mjög mikilli gagnrýni á hann. Nauðsynlegt hefði verið að setja þennan kvóta á. Ég geri ráð fyrir að við séum öll meira og minna sammála um að setja þurfti einhverja stjórnun á en við erum mismunandi ánægð með þá leið sem farin var. En hinu er ég ekki sammála hjá hv. þm. að hægt sé að bjarga þessum málum ef nógur fiskur er í sjónum einhvern tíma síðar á árinu. Því verður ekki bjargað nema fyrir ákveðinn hluta flotans. Ef við ætlum að fara að bjarga því eða bæta við kvótann fyrir Sunnlendinga og fyrir Vestlendinga eftir að komið er fram í apríl standa málin þannig að aðalaflavon bátaflotans á þessu svæði er lítil. Þegar komið er fram um miðjan apríl er orðin mjög lítil aflavon á þorski á bátaflotann hér sunnan- og vestanlands. Einhver leiðrétting á aflakvóta þegar komið er fram í síðari hluta apríl eða síðar á árinu kemur þessum útgerðum og þessum byggðum að mjög litlu gagni.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson hélt hér merka og langa ræðu og tók í upphafi mjög undir það sem hv. þm. Tryggvi Gunnarsson nefndi að hann óttaðist að lítill fiskur væri í sjónum og hefði aldrei verið minni. Hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði með allmiklu yfirlæti að enginn hefði viljað trúa honum í sambandi við þetta og þar væri loksins kominn einn sem tryði þessari kenningu. Ég hef ekki orðið var við að hv. þm. hafi efast um að staðan í sambandi við þorskstofninn og reyndar fleiri fiskstofna okkar er mjög alvarleg. Við erum sjálfsagt öll sammála um að fara þarf að með mikilli varúð. Það þarf ekki að trúa einum eða neinum um það sérstaklega. Ég held að við séum öll sammála um það og berum ákveðinn kvíðboga yfir því að þarna standi hlutir illa.

Hv. þm. Garðar Sigurðsson mun hafa höggvið eftir því í ræðu minni áðan að ég nefndi að þm. hefðu verið þvingaðir til að samþykkja lögin um aflakvótann fyrir áramót. Hv. þm. bar mjög ákveðið á móti því að það hefði verið gert. Reyndar er staðreynd að það var gert, ekki að verið væri að þvinga neinum skoðunum upp á menn, því hef ég ekki haldið fram, en því var ákveðið þvingað hér í gegnum þingið á mjög stuttum tíma. Og hvað var það sem átti sér stað? Þvingunin var fólgin í því að Alþingi fékk ekki nægan tíma til að ræða þessi mál. Það var það sem ég var að undirstrika hér áðan. Ég er nokkurn veginn viss um að ef þessi mál hefðu verið tekin til umr. fyrr í haust hefði orðið önnur niðurstaða í sambandi við kvótaafgreiðsluna og annað þessum málum samfara. Í því fólst þvingunin.

Í öðru lagi ítrekaði hv. þm. Garðar Sigurðsson það mjög hér að með þeirri lagabreytingu sem gerð var fyrir jólin í sambandi við kvótann hefði engu verið breytt. En þetta er allt allt annað en okkur var sagt þegar var verið að afgreiða þessi mál hér á hv. Alþingi fyrir jól. Þá var okkur sagt að ef þessi lög yrðu ekki afgreidd væri ekki hægt að stjórna fiskveiðum á Íslandi, þá gæti ekki rn. tekið þær ákvarðanir sem nauðsynlegar væru til að stjórna og fyrirskipa kvótann. Þess vegna kemur það alveg þvert á að nú skuli koma yfirlýsingar á hv. Alþingi um að þessi lög hafi ekki skipt neinu máli, þau hafi raunverulega verið allt að því marklaus. Deila má um þessa hluti báða, um gildi laganna, um hvort menn hafa verið þvingaðir til aðgerða eða samþykktar, en aðalatriðið í sambandi við þessa málaafgreiðslu fyrir jólin var að verið var að breyta um verkháttu. Jafnan undanfarið þegar um verulegar breytingar hefur verið að ræða í sambandi við stjórnun fiskveiða á Íslandi hafa þær verið gerðar á allt annan máta en gert var nú. Það hefur verið gert á þann máta að málin hafa verið rædd í þingflokkum, í hagsmunasamtökum, í sveitarstjórnum og á fundum vítt og breitt um landið. Það var það sem ekki var gert í haust. Það varð raunverulega ákveðinn trúnaðarbrestur á milli þjóðarinnar og Alþingis. Alþingi tók sér allt í einu vald til að útkljá þessi mál án þess að ræða við aðila um málið.

Ótal margt má ræða um kvótann eins og hv. þm. Garðar Sigurðsson gerði áðan. Ég vil ekki lengja þessa umr. en þó benda á að það eru að koma í ljós í sambandi við kvótann ýmsir annmarkar sem verða allillyfirstíganlegir. Við blasir eftir því sem ég hef heyrt um útgerð frá þeim góða útgerðarstað Grímsey, að ef þar fiskast svipað og undanfarin ár verði búið að afla þar upp í kvótann í lok mars. Hvað eiga Grímseyingar þá að gera? Ég veit um að vestur á Snæfellsnesi voru þrír aðilar sem keyptu sér smábáta á síðasta ári og hugðust stunda veiðar á þeim í ár. Til þess er nú leikurinn gerður þegar keyptur er fiskibátur. Þessum bátum er öllum úthlutað aflakvóta í kringum 50–60 tonn. Það sér hver maður að hverju stefnir í slíkri útgerð. Það sér hver maður að í mörgum tilfellum í sambandi við kvótann þýðir það að viðkomandi aðili verður að hætta útgerð, hann verður að gefast upp.

Jöfnum höndum er verið að segja að þessi kvóti skuli aðeins gilda í eitt ár og þá skuli stokka upp og þá skuli koma aðrar nýjar reglur. Ég get ekki ímyndað mér að það hafi verið meiningin með þessari kvótasetningu að þetta eina ár verði til þess að fjölda margir útvegsmenn hringinn í kringum landið þurfi að leggja eða hætta sinni útgerð, gefast upp. Ef það hefur verið meiningin hefur sú meining ekki komið fram í umr. á hv. Alþingi og ég trúi ekki að það hafi verið meiningin. Það hlýtur því að vera krafa okkar alþm. til þeirra sem nú eru að útbúa kvótann raunverulega í okkar nafni að svona hlutir verði ekki látnir ske, hvorki að að því stefni að útgerð þurfi að stöðvast í Grímsey, þeim góða útgerðarstað, í lok mars né heldur að margir útvegsmenn þurfi að hætta útgerð vegna ákveðinna takmarka í sambandi við þessa kvótagerð.