28.02.1984
Sameinað þing: 59. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3237 í B-deild Alþingistíðinda. (2795)

173. mál, takmörkun fiskveiða í skammdeginu

Tryggvi Gunnarsson:

Herra forseti. Ég þarf reyndar ekki að svara hv. 4. þm. Vesturl. út af loðnunni, en þó get ég ekki stillt mig um það af því að þetta snertir öll þessi mál. Það var svolítið misjafnt hvenær menn byrjuðu á loðnuveiðum. Menn byrjuðu misjafnlega snemma og þeir sem byrjuðu fyrst voru búnir á undan hinum, þannig að ég er sammála hæstv. ráðh., að kvótinn sé ekki hruninn þó að þetta dæmi hafi komið þannig upp. Þá kusu útgerðarmennirnir bara að byrja á misjöfnum tíma og það er eðlilegt að þeir endi líka á misjöfnum tíma.

Örfá orð úf af ræðu hv. 4. þm. Vesturl. Skúla Alexanderssonar. Hann sagði að það gæti komið upp sú staða að það væri búið að fiska þann þorsk sem raunverulega væri um að tala í vertíðarlok hér sunnanlands t.d. í apríllok. Þá séu skipin, sem þar eru, búin með sinn aflakvóta hvað þorsk varðar. Það var vitað fyrir fram að ekki væri hægt að fiska jafnmikið og við höfum gert. Við vissum það um áramót og það var ætlast til þess að við skipulegðum veiðar okkar þá. Þó að lögin væru að vísu ekki samþykkt fyrr en seinna, þá var strax um það talað að þau mundu virka aftur fyrir sig. Þetta vissu allir. Og þar sem ég nefndi að við gætum bætt við þessi aflamörk seinna á árinu, þá fyndist mér það ekkert óeðlileg aðferð. Að vísu skal játað að það kæmi illa við Sunnlendinga og Vestlendinga, ef við héldum okkur við gamla fyrirkomutagið á vertíðinni, því að þá var það þannig fyrir norðan og austan að fólk sópaðist þaðan suður á vertíðina og fiskurinn var tekinn hér á vertíðinni. En það er liðin tíð. Við lifum ekki á þeim tímum núna að við flytjum fólkið að norðan til þess að vinna hér á suðvesturhorninu hvað þetta varðar. Þetta er náttúrlega slæm hreppapólitík, verður sagt án efa. En svona er þetta nú samt. Stjórnun þessara veiða er því aðeins til komin að við erum hræddir. Við erum öll hrædd um að fiskveiði í sjónum sé á mjög miklu hættustigi, það sé verið að ganga þar of langt. Og þess vegna er þessi krafa gerð.

Það var reyndar rétt, sem hefur komið fram hjá hv. þm., ég man ekki hverjum eða hvort þeir voru fleiri en einn. Það hefur verið reynt að stjórna. Hæstv. ráðh. nefndi það líka. Það hefur verið reynt að stjórna undanfarið. Það hefur bara ekki tekist. Ég minnist þess að árið 1981, að mig minnir, var reynt að fara eftir tillögum fiskifræðinga og mörg önnur ár reyndar líka. Ég held að það sé rétt með farið að það ár lögðu fiskifræðingar til að veidd yrðu 350 þús. tonn og 360 þús. ákváðu stjórnvöld. Því var að vísu aðeins breytt. En útkoman varð 490 þús. tonna þorskafli það ár. Þetta var stjórnin á því ári. Og svona var þetta hvert einasta ár. Þess vegna er komið sem komið er. Við höfum alltaf farið fram úr þeim mörkum sem um hefur verið talað. En með þessu móti er reynt í fyrsta skipti að sporna alvarlega við, að ekki verði veitt meira en hæfilegt er talið. Ég sé enga ástæðu til annars en að það megi endurskoða þetta seinna á árinu. Þótt það verði að hluta erfiðara fyrir Sunnlendinga og Vestlendinga að sækja þennan aukaafla, þá hefur þekkst og við höfum séð sunnanbáta bæði fyrir norðan og austan og höfum ekkert á móti því að sjá þá þar. Ég held því að þeir geti sótt þennan viðbótarfisk þangað ef hann er ekki á þeirra miðum. Þar sem við sækjum oft á þeirra mið, þá er það ekki nema eðlilegt að það geti verið gagnkvæmt.

Hv. 4. þm. Vesturl. kom víða við og ég skrifaði nú ekki marga punkta hjá mér. Þó var það eitt. Mig minnir að hann hafi orðað það svo að kvótalögin eða hvað á að kalla þau hafi verið sett í óþökk flestra aðila og það hefði verið öðruvísi staðið að þessu áður. Þá hefði verið talað við hagsmunaaðila. Ég man ekki betur en þessi áskorun kæmi frá næstum öllum samtökum. Ég get nefnt Farmanna- og fiskimannasambandið, Landssamband ísi. útvegsmanna og Fiskifélag Íslands. Þessi samtök öll mæltu með þessu fyrirkomulagi og þetta var búið að ræða t.d. í fiskideildunum um allt land. Og þaðan kom þessi samsuða frá Fiskiþingi hér í Reykjavík sem er samkoma allra þeirra aðila. Hún kom þaðan. Að vísu var vitað mál að ekki voru allir þar sammála. En þetta var niðurstaða þeirra samt sem þeir létu fara frá sér. Og eins mun hafa verið með hin samtökin. Það er þess vegna ekki atveg rétt að þetta sé gert í óþökk skyldra aðila.