29.02.1984
Efri deild: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3279 í B-deild Alþingistíðinda. (2815)

182. mál, umferðarlög

Flm. (Salome Þorkelsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breytingu á umferðarlögum, nr. 40 frá 23. apríl 1968, með síðari breytingum. Flm. auk mín eru hv. þm. Karl Steinar Guðnason, Davíð Aðalsteinsson, Eyjólfur Konráð Jónsson, Eiður Guðnason, Helgi Seljan, Stefán Benediktsson og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir.

Á síðasta þingi flutti ég frv. sem var ætlað að hafa nokkur áhrif til bóta á öryggi í umferðinni. Það frv. hlaut ekki afgreiðslu. Það frv. sem hér er flutt er sama efnis að viðbættu nýju ákvæði skv. 2. gr. um réttindi skólabifreiða.

Um alllangt skeið hefur umferðaróhöppum fjölgað hér á landi ár frá ári. Meiðslum og dauðaslysum hefur fjölgað og eignatjón er geysilegt. Þrátt fyrir aukna löggæslu og bætta umferðarlöggjöf næst ekki sá árangur sem vænst var.

Oft verða óhöppin vegna þess að gangandi vegfarandi verður þess ökutækis, sem óhappinu veldur, ekki var í tæka tíð eða stjórnendur ökutækja, sem rekast á, gera sér hættuna ekki ljósa fyrr en of seint.

Í nokkrum löndum hefur ökutækjum verið gert að aka með ljósum allan sólarhringinn árið um kring. Víða eru ökumenn hvattir til þess að aka með ljósum á daginn ef skyggni er ekki gott. Margir verða við þeirri áskorun en aðrir ekki. Þá verður jafnvel enn erfiðara að forðast hættu þegar á eftir 3–4 bifreiðum sem aka með ljósum kemur ein ljóslaus. Allir sem reynslu hafa af akstri vita að t.d. þeirrar bifreiðar sem kemur á móti í umferðinni verður mun fyrr vart ef hún ekur með ljósum þó að albjartur dagur sé. Af þessum ástæðum hafa t.d. „Greyhound“ langferðabifreiðarnar í Bandaríkjum Norður-Ameríku ekið með ljósum allan sólarhringinn í meira en hálfa öld. Svíar hafa ekið með ljósum allan sólarhringinn í allmörg ár og eru eina Norðurlandaþjóðin sem náð hefur því marki að fækka umferðaróhöppum. Finnar hafa fylgt fast á eftir með mjög góðum árangri. Bifreiðar framleiddar í Svíþjóð eru nú þannig gerðar að á þeim tendrast ökuljós um leið og bifreiðin er ræst. Það má einnig geta þess að Norðmenn eru með í athugun að beita sér fyrir því að skylt verði að nota full ljós við akstur allan sólarhringinn hjá þeim.

Öldruðum í umferðinni fer fjölgandi og þótt kannanir sýni að aldraðir ökumenn valdi ekki slysum öðrum fremur, nema síður sé, þá er þó ljóst að þetta ákvæði í umferðarlögum mundi auka öryggi allra sjóndapurra í umferðinni, bæði ökumanna en þó einkum gangandi vegfarenda.

Einn af hverjum 14 körlum sem aka bifreið er skv. erlendum skýrslum haldinn svonefndri „rautt-grænt“ litblindu, þannig að slíkir ökumenn eiga erfitt með að greina rauða og græna hluti við vissar aðstæður, en bifreið með ljósum sjá þeir vel.

Í skýrslu, sem landlæknisembættið hefur tekið saman um slys í umferð, kemur fram sú hörmulega staðreynd að í aldurshópnum 7–20 ára eru slysin algengasta dánarorsökin hjá okkur og á aldrinum 17–25 ára eru umferðarslysin ein algengari dánarorsök en nokkur önnur. Allra ráða verður því að leita til að tryggja rétt ungra vegfarenda. Aukið öryggi varðandi skólabifreiðar er þáttur í þeirri viðleitni. Í 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að bifreiðar sem notaðar eru til að flytja skólabörn skuli vera sérstaklega auðkenndar með þar til gerðum skiltum. Ég vil í sambandi við þetta atriði geta þess að ég hef aðeins spurst fyrir um þetta atriði og hef fengið þær upplýsingar að það sé mjög einfaldur búnaður að koma slíkum merkjum fyrir á bifreiðum.

Þegar norræna ráðherranefndin ákvað á sínum tíma að tillögu Norðurlandaráðs að árið 1983 skyldi helgað umferðaröryggi á Norðurlöndum var vakin athygli á því að slysavarnir á landi eru ekki síður mikilvægar en slysavarnir á legi og í lofti. Vegna norræna umferðaröryggisársins hafa þessi mál verið í brennidepli. Hér á landi hafði umferðarráð allan veg og vanda af undirbúningi umferðaröryggisársins og það er vissulega ástæða til að fagna því og þakka það ágæta starf sem unnið var í þeim efnum, svo sem með meiri fræðslu, auknum áróðri í fjölmiðlum, námskeiðahaldi, umferðarvikum og ráðstefnum.

Það má líka geta þess að einmitt vegna áhrifa af þessum áróðri umferðarráðs er greinilegt að notkun ljósa, t.d. úti á þjóðvegum, hefur aukist mjög mikið á s.l. ári. Norræn umferðarslysaráðstefna var haldin á vegum Umferðarlæknisfræðifélags Íslands í ágúst s.l. með þátttöku hinna Norðurlandanna. Á þessari ráðstefnu voru sérstaklega tekin til meðferðar umferðarslysin og afleiðingar þeirra. Í erindi sem Davíð Gunnarsson forstjóri ríkisspítalanna flutti kom fram að á árinu 1982 hafi umferðarslysin kostað íslenska þjóðfélagið 440 millj. kr. eða álíka mikið og það kostaði að reka Landspítalann það sama ár. Það kom einnig fram hjá honum að kostnaður við eitt slys, þar sem viðkomandi einstaklingur verður varanlega fatlaður, er átíka mikill og eitt gott einbýlishús kostar.

Það er oft minnst á það, og með réttu, að frv. sem hv. alþm. flytja séu útgjaldaaukning fyrir ríkissjóð og ekki fylgi alltaf með hvernig mæta eigi þeim útgjöldum. Með þessu frv. er ekki verið að leggja aukin útgjöld á ríkissjóð umfram aðra þegna. Hér er fyrst og fremst verið að leggja til lagabreytingu og ákvæði í umferðarlögum sem leggja ákveðnar skyldur á herðar ökumönnum. Kostnaðarauki fyrir hvert ökutæki er óverulegur ef haft er í huga hver kostnaður er af slysum. Ljósin eyða að vísu orku og perur þarf e.t.v. að endurnýja oftar, en ég sé þó ekki að slíkur viðbótarkostnaður, sem svarar e.t.v. til einnar aukafyllingar á bensíntankinn á ári, og einhver perukaup gætu haft úrslitaþýðingu ef haft er í huga að með því að aka með ljósum eru ökumenn hver og einn að leggja sitt af mörkum til að auka umferðaröryggið og fækka slysum.

Mikilvægi ljósanotkunar er að vissu leyti tvíþætt. Úti á þjóðvegum er það tillitssemi við aðra ökumenn sem á móti koma að nota ljósin, þ.e. að láta vita af sér fyrr en ella. Í þéttbýli er fyrst og fremst um að ræða tillitssemi við gangandi vegfarendur. Í yngstu aldurshópunum og þeim elstu eru þeir sem ekki hafa allir fullt sjónskyn. Eins eru margir gangandi vegfarendur hreyfihamlaðir að meira eða minna leyti og viðbragðsflýtir skertur vegna aldurs eða af öðrum ástæðum. Svo eru einnig þeir sem eru sjóndaprir. Ökuljós veita þessum vegfarendum aukið öryggi.

Það er vitað að umferðarlögin eru í heildarendurskoðun, en ástandið hjá okkur er svo slæmt að við megum ekki bíða. Ákvæði sem þetta frv. fjallar um eru einföld og geta tekið gildi strax eftir samþykkt frv. og þar má vænta árangurs.

Ég vil, herra forseti, leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allshn. að lokinni þessari umr.