29.02.1984
Efri deild: 56. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3281 í B-deild Alþingistíðinda. (2816)

182. mál, umferðarlög

Valdimar Indriðason:

Herra forseti. Það er með hálfum huga að ég kem hér upp þar sem átta af hv. fulltrúum þessarar deildar eru flm. þessa frv. um notkun ljósa. Ég er þar ekki atgerlega sammála, en tel þó rétt að á það sé bent hér. Auðvitað er ég sammála frsm. og flm. öllum um að við verðum að gera allt sem kleift er til þess að hafa sem mest öryggi í umferð og forðast slys. En ég dreg stórlega í efa að við gerum það með því að skylda öll ökutæki landsmanna til þess að vera alljósa allt árið. Í gildandi lögum, sem eru mjög þröng má segja segir með leyfi forseta í 2. gr.:

„Ljósatími: Tími frá hálfri klukkustund eftir sólartag til hálfrar klukkustundar fyrir sólarupprás er ljósatími. Ákvæði laganna um ljósatíma gilda einnig, þótt á öðrum tíma sé, í þoku og við önnur svipuð birtuskilyrði.“

Það fer ekki milli mála að á s.l. ári bar áróður umferðarráðs og annarra aðila, sem vinna hér af miklum dugnaði að því að reyna að gera öryggi okkar sem mest í umferðinni, mikinn árangur. Sá áróður sem beitt hefur verið t.d. á sumrin í sambandi við akstur úti á vegum, þar sem er mikið ryk og slæm birtuskilyrði, hefur gefið ákaflega góða raun. Mér sýnist það vera orðið þannig á þjóðvegunum, að í allflestum tilvikum séu ljós höfð uppi við þau skilyrði. Fólki finnst þetta orðið sjálfsagður hlutur, ekki síst af því að útvarp og aðrir fjölmiðlar minna iðulega á þetta. Ég held að ástandið þar sé ekki eins slæmt og ætla mætti af þessu frv. Hins vegar er ég viss um að það yrði erfitt að framfylgja ákvæðum frv. ef það yrði að lögum. Hér er talað um að setja í lög að við keyrum t.d. í Reykjavíkurborg og annars staðar alljósa á björtum dögum, t.d. um Jónsmessuleytið. Ég held að það yrði ákaflega erfitt fyrir löggæsluna að fylgjast með slíku, en mér skilst að það eigi að vera sektarákvæði sem eigi að beita ef þessu er ekki fullnægt af hverjum bifreiðareiganda. Ég vara við því að setja slík lög sem ekki yrðu framkvæmd. Þess vegna vildi ég varpa því fram hér við flutningsmenn og þá nefnd sem um málið mun fjalla hvort ekki væri rétt að undanskilja ákveðinn tíma ársins. Ég er ekki ósammála því að láta þetta gilda yfir skammdegið, yfir dimmasta árstímann, en að á mesta birtutímanum hjá okkur á okkar ágæta landi væri það ekki bundið á þennan hátt. Ég þekki ekki hvernig þessum málum er háttað erlendis en ég dreg í efa að það ætti við okkur öll að hér væru allir akandi alljósa á sólskinsdögum, t.d. í Reykjavík eða annars staðar á þéttbýlisstöðum á landinu. Ég er dálítið hræddur um að þetta verði brotið.

Ég leggst ekki á móti því að öryggis sé gætt eins og hægt er, en ég mæli með því að þetta verði skoðað vel og slík ákvæði látin gilda á þeim árstímum sem fyllsta þörf væri á. Sömuleiðis verði á góðviðrisdögum á sumrin, sem eru allt of fáir hér hjá okkur, þegar ryk er mikið og aðrar aðstæður erfiðar úti á þjóðvegum, haldið áfram þessum áróðri. Hann hefur geysimikil áhrif og flestir nota þá ljós.

Í sambandi við skólabifreiðarnar er ég algerlega sammála flm. að gera þarf átak til að setja upp þær varnir sem mögulegt er. Hins vegar verður að gæta þar mjög mikillar varúðar, því að það getur einnig orðið hættulegt ef sett eru ströng lög og við gerum rétt þessara bifreiða það mikinn að svo gæti farið að börnin missi tilfinninguna fyrir því að gæta sín. Því þau teldu sig alltaf eiga réttinn. Þau eru því miður of mörg gangbrautarslysin hér og annars staðar. Það er þess vegna ákaflega brýnt að gangbrautir séu nógu vel merktar og gengið örugglega frá öllu þar sem menn keyra fram hjá eða mæta slíkum bifreiðum. Á slysum af þessu tagi er ekki síst hætta t.d. hér utan við borgina og í dreifbýlinu. En ég er því fylgjandi að þetta sé kannað mjög ítarlega. Þetta er áreiðanlega atriði sem þarf að taka mjög föstum tökum, að gera skólaaksturinn sem öruggastan. Enginn má misskilja orð mín svo, að ég sé á móti því að við gætum sem mests öryggis í umferðinni. Ég óttast aftur á móti að ekki verði farið sem skyldi eftir þessum reglum með ljósin, ef að lögum verður, og bendi þess vegna á hvort ekki væri rétt að kanna þetta frekar.