29.02.1984
Neðri deild: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3287 í B-deild Alþingistíðinda. (2827)

31. mál, kosningar til Alþingis

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir er um staðfestingu á brbl., sem gefin voru út 22. apríl 1983 til þess að heimilt yrði að hafa kjördaga tvo við kosningarnar sem þá fóru fram, ef veður og aðstæður hömluðu kjörsókn.

Um þetta mál er í sjálfu sér ekkert að segja og sjálfsagt að Alþingi staðfesti það eins og lagt hefur verið til af þingnefndum í báðum deildum þingsins.

Það sem ég vildi vekja athygli á, herra forseti, er hins vegar það, að á dagskrá funda Nd. hefur að undanförnu verið annað mál um kosningar til Alþingis. Það er framhaldsumræða um frv. til l. um kosningar til Alþingis sem hér hefur verið lagt fyrir hv. deild af formönnum stjórnmálaflokkanna fjögurra. Það er svokölluð kjördæmabreyting sem þeir hafa náð samkomulagi um útfærslu á og flutt frv. til staðfestingar á hér í hv. deild.

Fyrir jól knúði Alþb. á um það að málið kæmist til meðferðar hér, ekki til þess að taka það sérstaklega út úr öðrum málum sem snerta stöðu byggðarlaganna í landinu, heldur til þess að þetta mál fengi eðlilega afgreiðslu hér í þinginu. Við umr. gerðist það að hv. 1. þm. Suðurl., formaður Sjálfstfl., gerði grein fyrir frv. af sinni hálfu og síðan var umr. frestað. Síðan eru liðnar margar vikur. Alþingi hefur þegar starfað þó nokkrar vikur það sem af er þessu ári og málið hefur verið hér ítrekað á dagskrá í hv. Nd. Nú er auðvitað ekki ástæða til að umr. um þetta mál fari fram endilega í dag, vegna þess að hæstv. forsrh., formaður Framsfl., er fjarverandi. En ég hef hér kvatt mér hljóðs til að vekja athygli á því að málið er ekki á dagskrá dagsins í dag, sem mér finnst óeðlilegt, þó að það verði ekki tekið fyrir. Ég kveð mér og hljóðs til þess að leggja á það áherslu við hæstv. forseta Nd. að hann sjái til þess að það verði aðstaða til að ræða þetta mál strax á næsta fundi Nd. þegar frsm. og flm. viðkomandi frv. eru hér viðstaddir.

Ég tel í rauninni algerlega óeðlilegt hversu það hefur dregist að meðhöndla þetta mál. Ég vona að það sé ekki til marks um það að þeir sem að því stóðu í upphafi séu að hlaupa frá því nú. Ég vil í tilefni af umr. um þetta mál, sem fram fóru hér fyrir nokkru, láta koma fram að sú yfirlýsing sem fylgdi málinu í fyrravor um jafnréttismál byggðanna er að sjálfsögðu í fullu gildi enn þá, a.m.k. af hálfu Alþb., og væntanlega annarra þeirra flokka sem að henni stóðu. Frá henni á ekki að hvika að mínu mati í neinu. Við munum í Alþb. leggja mjög ríka áherslu á það að við hana verði staðið og ganga eftir því við hæstv. núv. ríkisstj.

Hins vegar er eitt meginmálið það að fjalla hér um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis. Jafnréttismálin verða einnig að koma hér til umr., jafnréttismál byggðanna. Á þau leggur Alþb. mjög þunga áherslu og mun fyrir sitt leyti ekki líða það að þau mál verði vanrækt af núv. hæstv. ríkisstj.

Herra forseti. Ég taldi mig tilknúinn til þess að koma þessari aths. á framfæri vegna seinagangs í meðferð á máli þessu hér á hv. Alþingi, þ.e. frv. sem formenn fjögurra stjórnmálaflokka flytja um breytingar á lögum um kosningar til Alþingis.