29.02.1984
Neðri deild: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3290 í B-deild Alþingistíðinda. (2840)

223. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Eins og öllum er kunnugt hafa upp á síðkastið verið að berast upplýsingar m.a. frá Sjómannasambandi Íslands um afkomuhorfur sjómannastéttarinnar á þessu ári. Af því tilefni ræddi ég í gær við hæstv. sjútvrh. um þessi mál og óskaði eftir því við hann að hann gæfi á Alþingi í dag tilteknar upplýsingar um fyrirætlun stjórnvalda í þeim málum ef einhverjar slíkar upplýsingar lægju fyrir. Ég óskaði eftir því að þessar umr. gætu orðið á Alþingi í dag og þá utan dagskrár, en hæstv. ráðh. benti á að á dagskrá fundarins væri mál sem varðaði aðgerðir ríkisstj. í fiskveiðimálum þar sem þessar umr. gætu mætavel fallið undir og er það mál nú hér á dagskránni. Ég vil aðeins taka þetta fram til þess að það komi fram að þær upplýsingar sem ég óska eftir að hæstv. ráðh. gefi koma honum ekki á óvart og eiga fullt erindi inn í þessa umr. Ég hafði samráð um það við hann í gær, herra forseti, gerði honum viðvart um að ég mundi taka þetta mál upp undir þessum dagskrárlið enda á það þar heima.

Það liggur fyrir, herra forseti, skv. úttekt Sjómannasambands Íslands, að sú stétt launamanna í landinu sem á fyrir sér mesta kjaraskerðingu allra launastétta eru íslenskir sjómenn. Sjómannasamband Íslands hefur gert lauslega athugun á framtíð þessarar atvinnustéttar sem lítur þannig út, svo tekin séu tvö dæmi, annars vegar af vertíðarbát og hins vegar af togara: Vertíðarbátur tiltekinn, sem Sjómannasamband Íslands miðaði við, sem hafði á árinu 1982 1119 tonna afla mun á árinu 1984 ekki fá heimild til að fiska meira en 652 tonn. Skerðing hjá þessum bát á afla er 42%. Á verðlagi 1984 var verðmæti afla þessa báts 10 millj. 180 þús. krónur en verður ef hann nær þeim afla sem honum er úthlutað á árinu 1984 aðeins röskar 6.5 millj6nir kr. Skerðing á aflaverðmæti er þarna 35%. Hvað varðar afkomu sjómannsins á þessum bát, þá fékk hann í aflahlut fyrir aflann sem fiskaðist á árinu 1982, á verðlagi 1984, 270 þús. kr. tekjur en mun bera úr býtum á þessu ári aðeins 150 þús. kr. Skerðingin á tekjum þessa manns mun nema 44%. Það skal tekið fram að þessi vertíðarbátur sem Sjómannasamband Ístands miðaði við hefur síldveiðileyfi annað hvert ár og fékk síðast leyfi haustið 1983. Þessi bátur fær því ekki slíkt leyfi í ár og skv. kvótakerfinu á hann ekki völ á öðrum leyfum utan hefðbundinna botnfiskveiða en djúprækjuveiðum.

Þessi bátur sem hér er um að ræða er síður en svo einsdæmi heldur má ætta að sama staða verði uppi hjá tugum ef ekki hundruðum slíkra vertíðarbáta. Tekjuskerðingin hjá sjómönnunum á föstu verðtagi frá 1982 á þessum skipum mun nema 44%.

Ef tekið er dæmi af togara hins vegar, t.d. vestfirskum togara sem er í hópi aflahæstu skipa landsins, þá var afli þess togara á árinu 1982 4 563 tonn, en mun verða, skv. reglunum sem ákveðnar hafa verið á árinu 1984, aðeins 3 168 tonn. Verðmæti afla þessa togara á verðlagi 1984 varð, eins og aflinn var 1982, 34 millj. 300 þús. kr., en verður, miðað við þann kvóta sem hann hefur íengið úthlutað, 22 millj. 470 þús. kr. Skerðing á verðmæti aflans sökum kvótakerfisins er 34%. Aflahlutur sjómanns á slíkum togara, eins og aflinn var 1982 á verðlagi í ár, nemur ígildi 670 þús. kr., en verður 439 þús. kr., raunhlutur háseta þó öllu lægri eða 307 þús. kr. þannig að þarna er um skerðingu að ræða á tekjum sjómanns á slíkum togara á milti 35 og 40% .

Út af fyrir sig mætti segja að þetta væri e.t.v. mögulegt ef hér væri um að ræða uppákomu eins árs. En það kemur líka fram í athugunum Sjómannasambands Íslands að allt frá árinu 1977 hefur tekjum sjómanna stöðugt verið að hraka í samanburði við aðrar stéttir. Ef við setjum tekjur sjómanna, verkamanna og iðnaðarmanna sama sem 100 árið 1977, þá voru tekjur sjómanna árið 1983 1 156, tekjur verkamanna 1 314, tekjur iðnaðarmanna 1 258. Sjómenn höfðu þá aðeins fengið í sinn hlut 1977–1983 88% af þeim hlutfallslegu launahækkunum sem gengið höfðu til verkamanna og rétt um 90% af þeim hlutfallslegu launahækkunum sem gengið höfðu til iðnaðarmanna. Á öllu þessu árabili frá árinu 1977 og til ársloka 1983 höfðu íslenskir sjómenn m.ö.o. stöðugt verið að tapa í tekjum miðað við aðrar stéttir og held ég þó að hvorki verkamenn né iðnaðarmenn hafi talið sig of sæla af sínum tekjum. Þannig að það er síður en svo að þessi atvinnustétt hafi átt eitthvað aflögu eftir undangengin ár til að taka á sig 35–42% kjaraskerðingu á einu ári. Miðað við þau áform sem nú eru uppi varðandi tekjumál þessarar stéttar er gert ráð fyrir verulegum lækkunum á tekjum hennar samanborið við aðrar stéttir á þessu ári. Í árslok 1984 mun sjómenn því skorta um 30% upp á að hafa fengið álíka breytingar á tekjum sínum frá 1977 og samanburðarstéttirnar verkamenn og iðnaðarmenn. Ég held að menn geti sagt sér það sjálfir hvaða afleiðingar þetta muni hafa á afkomu sjómannastéttarinnar.

Í viðtali við Óskar Vigfússon, formann Sjómannasambands Íslands, sem birtist í Alþýðublaðinu í dag, er þetta mál m.a. tekið sérstaklega fyrir. Þar kemur fram í viðtali við Óskar að fyrir liggja nú útreikningar hjá Þjóðhagsstofnun sem sýna að verði ekki um að ræða sóknarminnkun hjá skipum sem botnfiskveiðar stunda mun sjómannastéttin aðeins fá 37% þess aflahlutar sem sjómenn hafa fengið í sinn hlut s.l. þrjú ár. Ef um 10% sóknarminnkun verður að ræða munu sjómenn fá 52.7% aflahlutar síðustu þriggja ára. Ef um 30% sóknarminnkun verður að ræða þýðir það um 71.9% meðal aflahlutar síðustu þriggja ára hjá þessum skipum.

Formaður Sjómannasambands Íslands tekur fram í þessu viðtali að svo gífurleg röskun sé nú fyrirsjáanleg á högum sjómannastéttarinnar á þessu ári að sjómenn hljóti að krefjast þess að allt tekjumyndunarkerfi stéttarinnar, allt það kerfi sem byggt hefur verið upp út frá aflahlut til þess að ákveða sjómönnum laun verði tekið til endurskoðunar á árinu.

Tekjutrygging sjómannanna er nú tæpar 16 þús. kr. á mánuði og er þá miðað við allt að 18 stunda vinnu á sólarhring. Óskar Vigfússon tekur fram að engin önnur stétt í landinu láti bjóða sér slíkt. Vinna sjómanna fyrir þessu kaupi, tekjutryggingu 16 þús. kr. á mánuði, getur orðið allt upp í 468 stundir á mánuði og getur þá hver sem vill reiknað það út að tímakaup sjómanna við störf norður í Dumbshafi er kr. 31.50 á unna klst. Ég held að ekki þurfi að fara mörgum orðum um hvað þetta þýðir fyrir þessa tilteknu atvinnustétt.

Það eru því tvær spurningar sem ég vil á þessu stigi málsins, leggja fyrir hæstv. sjútvrh. Þær eru þessar:

1. Mun hann fallast á að taka bráðlega til endurskoðunar og endurákvörðunar það kerfi og þau aflamörk sem að öllu óbreyttu munu hafa þau áhrif á kjör íslenskrar sjómannastéttar að þeir verði annað hvort atvinnulausir á miðju ári eða bónbjargamenn ef hvort tveggja ekki verður?

2. Hvernig eiga menn, sem hugsanlega tapa milli 35 og 42% af tekjum sínum á einu einasta ári, að geta staðið í skilum um greiðslu opinberra gjalda?

Mín síðari spurning er því sú: Hefur hæstv. ríkisstj. eitthvað hugað að því máli eða mun hæstv. sjútvrh. beita sér fyrir því innan ríkisstj. að ef svo fer sem horfir að þessi atvinnustétt verði fyrir jafn gríðarlegri tekjuskerðingu eins og um ræðir muni ríkisstj. grípa til sérstakra aðgerða til þess að fresta eða fella niður greiðslur opinberra gjalda til ríkissjóðs af launum sem eru í engu sambærileg við þau launakjör sem þessir menn búa við nú í dag?

Í öðru lagi vara ég hæstv. ráðh. mjög eindregið við því að frv. til l. um breytingu á lögum nr. 51 28. apríl 1983 um aflatryggingasjóð sjávarútvegsins nái fram að ganga.

Mér er kunnugt um að nú á þessari stundu eru sjómenn úti á fiskimiðunum að búa sig undir að senda hæstv. ráðh. og ríkisstj. allri sameiginleg mótmæli í skeytum frá öllum íslenskum fiskiskipum sem veiðar stunda. Ég vara hæstv. ráðh. mjög eindregið við því að ef hann skellir skollaeyrum við þessum mótmælum sem á leiðinni eru frá íslenska fiskveiðiflotanum er ekki víst að mörg íslensk fiskiskip láti úr höfn sem í höfn koma á næstu dögum.