29.02.1984
Neðri deild: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3295 í B-deild Alþingistíðinda. (2842)

223. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Kjartan Ólafsson:

Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Vestf. hefur upplýst að hæstv. sjútvrh. hafi boðið upp á að undir þessum dagskrárlið í dag gæfist kostur á að fjalla nokkuð um þau alvarlegu mál sem sérhvert sjómannaheimili í landinu stendur frammi fyrir um þessar mundir eftir þá geigvænlegu lífskjaraskerðingu sem þar er orðin.

Hæstv. ráðh. hóf mál sitt hér á því að vara við því að menn kenndu kvótakerfinu um þá skerðingu sem þarna liggur fyrir. Það er mál út af fyrir sig. Ég ætla ekki að kveða upp dóm í þeim efnum. Ég ætla að láta liggja á milli hluta hvort lífskjaraskerðingin hjá sjómannastéttinni eigi rætur að rekja til minnkandi fiskstofna í hafinu eða til þess fyrirkomulags sem tekið hefur verið upp við veiðarnar. Hvort heldur sem er, þá stendur sú stóra staðreynd eftir að kjörin hjá sjómönnunum hafa ekki aðeins skerst um þau 25% sem er hin almenna kjaraskerðing í landinu á valdatíma núv. ríkisstj., heldur um mun meira. Ég hygg að það sé síst of mælt að staðhæfa að hjá þessari einu þjóðfélagsstétt láti nærri að kjaraskerðingin sé í kringum 40% og í ýmsum tilvikum reyndar meiri.

Það þarf ekki að fara orðum um hvílíkt áfall það er fyrir útgerðarfyrirtækin í landinu þegar afli sem á land berst minnkar með þeim hætti sem fyrirsjáanlegt er að verði á þessu ári borið saman við það sem var fyrir 2–3 árum. Hæstv. ráðh. og hæstv. ríkisstj. hafa enda viðurkennt að óhjákvæmilegt væri að grípa til sérstakra ráðstafana til að mæta að nokkru vanda útgerðarinnar í landinu. Er það bæði eðlilegt og sjálfsagt út af fyrir sig, en það hefðu mátt fylgja þar með ráðstafanir sem sýndu skilning á því að þessi mikli aflasamdráttur kemur ekki síður við það fólk sem í sjávarútveginum starfar bæði á sjó og landi og þá ekki síst sjómannastéttina. En svo furðulega vill til að þegar hæstv. ríkisstj. með hæstv. sjútvrh. í broddi fylkingar fer að svipast um í leit að fjármunum til að færa til útgerðarfyrirtækjanna í þeirra mikla vanda er ekki gripið til þess að færa fjármuni frá ýmsum öðrum atvinnugreinum í landinu sem búið hafa við mjög góða afkomu, ekki síst á þeim tíma sem þessi ríkisstj. hefur setið að völdum, og færa þaðan til undirstöðu okkar þjóðarbúskapar, sjávarútvegsins. Nei, í þess stað er gripið til þeirrar furðulegu ráðstöfunar að ganga enn frekar á hlut sjómannanna með því að færa fjármuni frá Aflatryggingasjóði, sjóði sem hefur það meginhlutverk að tryggja greiðslur til þeirra sjómanna í landinu sem verða fyrir alvarlegum aflabresti, frá þeirri deild sjóðsins sem ekki er unnt að líta öðruvísi á en sé í rauninni í eigu sjómanna. Það er þarna sem ríkisstj. sér helst ástæðu til að leita fjármuna í vanda útgerðarinnar, þ.e. að ganga í vasa þeirra sem á fiskveiðiflotanum starfa og skerða með þeim hætti enn frekar þeirra kjör og afkomuöryggi. Það er þetta sem ég vil hér leyfa mér að mótmæla alveg sérstaklega.

Og ég vil leyfa mér að gera mér þær vonir að ríkisstj. a.m.k. hugsi sig vel og vandlega um áður en hún stígur þetta skref til fulls.

Hæstv. sjútvrh. minntist hér úr ræðustól áðan á það, að í raun og veru hafi það verið vísitölukerfið sem hafi valdið því að sjómenn hafi ekki hlotið betri kjör en orðið er. Mér sýnist þetta vera angi af þeim málflutningi sem er áberandi af hálfu talsmanna ríkisstj. um þessar mundir þegar þeir segja: Á undanförnum árum hafa lífskjör launafólksins í landinu verið miklu betri en þjóðarbúið hafði efni á og það er vegna þess að þetta vísitölukerfi var í gildi, þá var alltaf verið að borga fólki hærra kaup en í raun og veru voru til fjármunir fyrir í landinu.

Ég verð að segja að þetta er málflutningur sem engan veginn fær staðist að mínu viti. Vísitölukerfið, sem svo mjög hefur verið fordæmt af talsmönnum núv. ríkisstj. og þeir hafa afnumið og bannað með lögum, hafði að sjálfsögðu ýmsa galla sem sitt hvað mætti um segja. En aðalatriði málsins var þó að það tryggði launafólki — og sjómönnum þá einnig vegna þess að yfirleitt hefur fiskverðið í meginatriðum fylgt launum — ákveðið afkomuöryggi sem í rauninni mátti ekki minna vera. En það sem ráðh. er að segja með þessu er það, að nauðsynlegt hafi verið að grípa til þess að lögbanna vísitölugreiðslur á laun til að fólkið sem vinnur í landi hefði það ekki of gott og skerða þess kjör um 25%, og er þá að gefa í skyn að þannig ætti þá e.t.v. að vera mögulegt að bæta kjör sjómannastéttarinnar. En það er nú ekki aldeilis að þau hafi batnað við þetta. Þvert á móti hafa þau, eins og áður sagði, versnað eftir að vísitölukerfið var afnumið og bannað með lögum langt umfram kjör annarra launastétta í landinu.

Ég held að það hljóti að koma til alvarlegrar skoðunar eins og þessum málum er öllum háttað og ef ekki fæst þar nokkur lagfæring á, ef ekki fást gerðar sérstakar ráðstafanir af hálfu opinberra stjórnvalda til að bæta kjör sjómanna, sem er að mínu viti ekki síður aðkallandi en að tryggja afkomu útgerðarfyrirtækjanna, ef þetta ekki fæst, þá hlýtur sú spurning að vakna mjög alvarlega: Er það hlutaskiptakerfi, sem hefur verið grundvöllurinn að ákvörðunum um launagreiðslur til sjómanna, nothæft lengur? Mér sýnist að ef framhaldið verður eins og nú horfir, miðað við aflaspár fyrir þetta ár, ef það ástand verður varanlegt um nokkurn tíma, þá muni það ýta mjög undir að sjómannastéttin hljóti að krefjast launatryggingar mjög verulega umfram þær 15–16 þús. kr. sem þeir nú hafa á flotanum sem þá lágmarkstryggingu sem þeir hafa fyrir sínum mánaðarlegu tekjum. Og ég held að ef menn settust við samningaborð og ef maður hugsaði málið á þeim grunni að hlutaskiptin væru ekki lengur aðalviðmiðunin, heldur væri spurt um laun fyrir þá miklu vinnu sem þarna er innt af hendi, oft og tíðum tvöfalt á við almennan vinnudag í landi, þá gæti ekki hvarflað að nokkrum manni að launatrygging upp á 15–16 þús. kr. væri neitt nálægt því sem þar gæti talist vera við hæfi.

Ég vil vekja athygli á að það ástand sem þarna er komið upp einmitt núna hlýtur að kalla mjög á að menn skoði einnig þessi mál vel og vandlega. Ég læt mér ekki detta annað í hug en slík endurskoðun hlyti að leiða til verulegra kjarabóta fyrir okkar sjómannastétt, og þær kjarabætur eru ekki annað en sjómannastéttin hlýtur að teljast eiga fyllsta rétt á, miðað við heildaraðstæður í okkar þjóðarbúskap og miðað við það vinnuframlag sem hún leggur fram til okkar sameiginlegu þjóðartekna.

Ég hef lokið mínu máli, herra forseti.