29.02.1984
Neðri deild: 53. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3302 í B-deild Alþingistíðinda. (2845)

205. mál, beinar niðurgreiðslur til neytenda

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Frv. þetta á þskj. 367 er flutt af þremur þm. í þessari deild, hv. þm. Guðmundi Einarssyni og Jóni Baldvin Hannibalssyni auk mín. Frv. er flutt í tvennum tilgangi. Í fyrsta lagi er því ætlað að vera fyrsti áfangi á leiðinni út úr þeim vífahring sem langvarandi niðurgreiðslur á sömu framleiðsluafurðum eru orðnar en margra ára saga óslitins niðurgreiðslubákns hefur ruglað alla eðlilega verðþróun neysluvöru á innanlandsmarkaði, skekkt verðmyndunarkerfi landbúnaðarins, torveldað æskilegar breytingar á framleiðsluháttum og kostað þjóðina óhemju mikla fjármuni sem betur hefði verið hægt að verja.

Í öðru lagi er megintilgangur frv. sá að neytendur fái aukið val um til hvaða vörutegunda niðurgreiðslunum er varið en með núverandi fyrirkomutagi njóta neytendur einskis góðs af þeim miklu fjármunum sem varið er til niðurgreiðslna úr ríkissjóði nema þeir kaupi tilteknar vörur. Þessar vörur eru þrátt fyrir niðurgreiðslurnar svo dýrar að þær geta sumar hverjar ekki lengur talist til daglegrar fæðu láglaunafólks, e.t.v. að mjólkinni einni undantekinni. Kindakjöt, smjör og ostar, svo nefnd séu dæmi um niðurgreiddar vörur, eru meðal dýrustu fæðutegunda í landinu og ódýrari neysluvörur hafa í æ ríkara mæli komið í staðinn fyrir þær sem daglegar fæðuvörur alþýðuheimila í landinu.

Þá hafa einnig orðið mjög miklar breytingar í mataræði manna. Nýjar fæðutegundir, t.d. grænmetistegundir, hafa komið upp sem eru miklu ríkari þáttur í kosti fólks en var hér áður. Fjölmargir forðast ýmsar þær afurðir sem mest eru niðurgreiddar eins og t.d. hvers konar dýrafitu og gera það af heilsufarslegum ástæðum. Að sjálfsögðu er í hæsta máta óeðlilegt ef t.d. fólk, sem af heilsufarslegum ástæðum verður að neita sér um tiltekna afurð, eins og t.d. smjör eða rjóma, en neytir í staðinn þess sem talið er vera heilsuríkara fæði þarf að verða af því hagræði sem niðurgreiðslurnar ella geta veitt.

Fyrst ríkissjóður er á annað borð að verja sameiginlegum fjármunum landsmanna til að greiða niður vöruverð ættu menn í fyrsta lagi að velja til þess þær vörutegundir sem eru dagleg neysluvara lágtekjufólks og barnmargra fjölskyldna og í öðru lagi að gefa fólkinu sjálfu færi á að ráða því eftir aðstæðum og neysluvenjum hvers og eins hvaða vörutegundir það velur sér til niðurgreiðslu. Allir borgum við í þennan sameiginlega sjóð sem fé er tekið úr til niðurgreiðslu á vöruverði. Hvaða vit er í því að t.d. fjölskylda, sem af einhverjum ástæðum lifir að mestu á grænmetisfæðu eða fitusnauðum kosti, er skattlögð eins og aðrir til að afla fjár til niðurgreiðslu á landbúnaðarafurðum? Hvaða ástæða er til þess að vegna jafnvel heilsufarslegra ástæðna þurfi þessi fjölskylda að verða af því hagræði sem niðurgreiðslurnar veita?

Sambærilegar tillögur eins og í frv. þessu koma fram hafa oft heyrst um breytingu á ráðstöfun niðurgreiðslna. Nú síðast voru þær orðaðar af Magnúsi Gunnarssyni, framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands, en hann lagði einmitt til í blaðagrein að einhver sambærileg leið og hér um ræðir yrði valin í tengslum við efnahagsúrræði.

Hér er ekki lagt til að út á þessa braut sé lagt í tengslum við einhvers konar millifærslur eða vísitölumöndl enda tel ég að þetta mál eigi ekki þar heima. Þarna er aðeins lagt til að gera þá breytingu á niðurgreiðslunum sjálfum, að fólkið, sem á að njóta niðurgreiðslnanna, fái í auknum mæli frjálst val um í hvaða skyni það vill nota þá fjármuni sem til þess eiga að renna úr hinum sameiginlega sjóði í þeim tilgangi að greiða niður vöruverð. Hvers vegna má t.d. maður, sem af einhverjum ástæðum velur sér frekar Sólblóma ofan á brauð en smjör, t.d. af heilsufarslegum ástæðum, ekki alveg eins njóta hagræðis af niðurgreiðslum í formi lækkaðs verðs á Sólblóma? Hvers vegna þarf endilega að neyða þennan aðila til þess að neyta smjörs ef hann vill njóta góðs af þeim niðurgreiðslum sem hann er skattlagður fyrir?

Íslenskar landbúnaðarvörur hafa verið greiddar niður á innlendum markaði í áratugi. Upphaflega var farið inn á þá braut til að koma í veg fyrir verðhækkun á þessum afurðum og þau áhrif sem það mundi hafa á vísitölu framfærslukostnaðar. Þetta er enn þá skýringin. En breytingarnar hafa orðið þær að niðurgreiðslufjárhæðin á föstu verðlagi frá árinu 1970 hefur þrefaldast. Við höfum greitt samfellt frá árinu 1970 niður verð á sömu fáu afurðunum og niðurgreiðslurnar hafa þrefaldast á þessu árabili.

Menn geta sagt sér sjálfir hvaða áhrif það hefur á verðmyndun og eðlilega framleiðsluhætti þegar svona lengi er greitt svona mikið niður verðið á svona fáum afurðum. Því að það er algjörlega rangt að þessi niðurgreiðsla nái til afurða landbúnaðarins alls, niðurgreiðslan nær aðeins til hluta af þessum afurðum, til fárra tiltekinna vörutegunda. Vegna þess t.d. að niðurgreiðslan nær ekki til landbúnaðarins alls í sama mæli skekkir það stórlega allt verðmyndunarkerfi landbúnaðarins og hvetur framleiðendur í landbúnaði til að framleiða vörur sem e.t.v. er ekki æskilegt að þeir framleiði frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar, heldur væri nær að fólkið snéri sér að framleiðslu á vörum sem meiri þörf er fyrir, hægt er að selja á lægra verði og ástæða er til að ætla að skili sér betur í auknum tekjum til bændastéttarinnar.

Þegar niðurgreiðslur eru hvorki verulegur hluti af framleiðsluverði afurðanna né heldur verulegur hluti af tekjum þeirra neytenda sem slíkar vörur kaupa má segja að niðurgreiðslurnar hafi ekki teljandi efnahagsáhrif umfram það sem þeim er ætlað, þ.e. að hafa áhrif til verðlagslækkunar frá því sem ella ætti sér stað. En eins og ég sagði, þegar niðurgreiðslur eru orðnar mjög miklar fara þær að hafa alls konar aukaáhrif sem ekki var gert ráð fyrir í upphafi né ætlast til.

Niðurgreiðslurnar á íslenskum landbúnaðarafurðum eru nú ekki aðeins orðnar og hafa verið lengi mjög hátt hlutfall af framleiðslukostnaði þeirra innanlands. Þessar niðurgreiðslur sem sóttar eru með skattlagningu á almenning eru líka orðnar mjög hár hluti af tekjum neytenda. Má sjá það t.d. af þeim einfalda samanburði að frá 1970 til 1982 hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna heimila hækkað um 97,5% en niðurgreiðslur úr ríkissjóði hafa á sama tíma hækkað um 225%. Af þessu má sjá að niðurgreiðslurnar hafa orðið sífellt vaxandi hluti af tekjum heimilanna, stöðugt meiri hluta af tekjum sínum hefur launafólkið orðið að borga í ríkissjóð til að greiða niður sömu fáu afurðirnar sem í æ ríkara mæli hafa lent út fyrir daglega neyslu fólks þar sem aðrar vörur hafa að verulegu leyti tekið við hlutverki þeirra.

Herra forseti. Ég held að ástæðulaust sé að hafa öllu fleiri orð um þá einföldu till. sem hér er lögð fram. Hún er mjög einföld því að hún felur í sér að u.þ.b. helmingurinn af áætluðum niðurgreiðslum úr ríkissjóði verði notaður eins og honum er nú varið til lækkunar á vöruverði fárra tiltekinna afurða landbúnaðar. En hinum helmingi áætlaðra niðurgreiðslna verði varið með beinum greiðslum til neytenda eftir reglum sem ríkisstj. setur í samráði við aðila vinnumarkaðarins þannig að neytendur fái að ráða því í meira mæli sjálfir á hvaða vörutegundir þessar niðurgreiðslur koma.

Að sjálfsögðu má gera sér í hugarlund ýmsar aðferðir til þess að koma þessum beinu niðurgreiðslum við. Ef t.d. hverjum íslenskum ríkisborgara sem búsettur er í landinu væri greidd föst fjárhæð, tiltekin fjárhæð til hvers og eins 16 ára og eldri og helmingi lægri fjárhæð vegna barna og unglinga yngri en 16 ára, mætti með þessum hætti greiða hverri fjölskyldu um 20–22 þús. kr. í beinar niðurgreiðslur ef niðurgreiðslur á árinu 1984 yrðu svipaðar og þær voru á árinu 1982. Þetta er ein aðferð sem hægt er að nota og sér það hver og einn að þetta skiptir fólk talsverðu máli. Það er meira en mánaðartekjur láglaunamanns sem þarna er um að ræða sem fólk er skattlagt fyrir til þess að greiða niður verð tiltekinna afurða. Hver og einn mundi að mínu viti geta ráðstafað þessum fjármunum betur út frá eigin þörfum. Ef hann fengi fjármunina beint í hendur og gæti valið með hvaða hætti hann notaði peningana mundi hver og einn landsmaður geta komist að betri og hagfelldari niðurstöðu um ráðstöfun þessa fjármagns en einhver nefnd sem skipuð er af ríkissjóði og velur sér lambakjöt, smjör rjóma og mjólk.

Herra forseti. Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. fjh.- og viðskn.