01.03.1984
Sameinað þing: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3306 í B-deild Alþingistíðinda. (2852)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Tilefni þess að ég kveð mér hljóðs utan dagskrár er samkomulag sem fjmrh. hefur gert við verkamannafélagið Dagsbrún í Reykjavík. Þetta samkomulag er svohljóðandi:

„Aðilar eru sammála um að samræma launataxta og ýmis önnur kjör Dagsbrúnarmanna sem vinna hjá hinu opinbera launakjörum opinberra starfsmanna sem vinna sambærileg störf. Aðilar eru sammála um að skipa starfsnefnd til að vinna að frekari útfærslu og skal hún hafa lokið störfum eigi síðar en 10. mars n. k. Samkomulag þetta gildir frá 1. mars 1984.“

Þetta samkomulag, sem gert er 28. febr. s.l., er undirritað af fjmrh. og ráðgjöfum hans og forustumönnum Dagsbrúnar.

Ég fagna mjög þessu samkomulagi og einkum þeim sinnaskiptum sem hafa átt sér stað í fjmrn. Alþýðusambandið hefur fyrir hönd verkalýðsfélaganna lagt á það mikið kapp á undanförnum árum að ná þeirri sanngjörnu og réttlátu kröfu fram að fólk sem vinnur hlið við hlið, fólk sem annars vegar er í almennu verkalýðsfélagi og hins vegar á samningi BSRB, njóti hliðstæðra kjara. Þessi viðleitni hefur lítinn árangur borið. Rn. hefur ekki talið ástæðu til að hlusta á rök í því máli. Margoft var t.d. farið fram á þetta við Ragnar Arnalds, hæstv. fyrrv. fjmrh., en ekkert gekk. Það var síðast fundur um þessi mál í desembermánuði. Þann fund átti Alþýðusambandið með fulltrúum fjmrn. En árangur varð enginn. samkomulag Dagsbrúnar og fjmrh. er því mikil og góð tíðindi og sýnir að hjartalag ráðh. er gott, hann veit hvar eru skilin á milti misréttis og jafnréttis, hann áttar sig á að ekki er sanngjarnt að greiða fótki mismunandi kaup eftir því hvaða verkalýðsfélagi það tilheyrir.

Á undanförnum árum hafa hin almennu verkalýðsfélög misst hundruð félaga sinna yfir í félög opinberra starfsmanna. Með því móti hefur fólkið fengið betri kjör en verkalýðssamtökin hafa getað samið um. Ríkið og sveitarfélög hafa ástundað það siðleysi að neita verkalýðsfélögunum um sömu kjör og þau hafa samið um við BSRB. Í veigamiklum atriðum er mikill munur bæði hvað varðar kaupgreiðslur og einkum hlunnindi á milli þessara aðila. Samkomulag þetta kveður á um samræmingu. Ég spyr fjmrh. í hverju þessi samræming sé fólgin. Er gert ráð fyrir algerri samræmingu eða ekki? Er gert ráð fyrir að verkamenn fái nú sambærilegan rétt hvað varðar yfirvinnu, persónuuppbót í desember, orlofsrétt, laun í veikinda- og slysatilfellum og sama lífeyrisrétt?

Tímakaup í yfirvinnu er almennt 1% af mánaðarlaunum hjá starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga. Hjá ASÍ-félögum er eftirvinna greidd með 40% álagi á dagvinnutaxta og næturvinna með 80% álagi. Mismunur á tekjum vegna þessa eina ákvæðis er, miðað við 10 stundir í yfirvinnu, 4.6% BSRB-félagsmönnum í vil. Ef gáð er að persónuuppbót í desember er hún þannig: Ríkisstarfsmenn sem náð hafa þriggja ára starfsaldri fá svokallaða persónuuppbót sem greidd er í des. og var á s.l. ári 3 431 kr., sem eru 24% af 11. launaflokki. Fyrir verkamenn á lágmarkstekjum væri þetta 2.9% tekjuuppbót á s.l. ári. Að meðaltali má telja uppbótina ígildi 1–11/2% í kaupi. Hvað varðar orlofsrétt er það svo að langflestir félagsmenn ASÍ búa við lágmarksrétt, þ.e. 24 daga orlof og 10.17% orlofsfé. Ríkisstarfsmanni er tryggður hliðstæður lágmarksréttur og til viðbótar þrír orlofsdagar við 40 ára aldur og 10 ára starfsaldur og enn þrír dagar í viðbótarorlofi við 50 ára aldur eða 18 ára starfsaldur. Þetta þýðir að þeir sem lengstan hafa orlofsrétt hjá ríkinu fá 13.04% í orlof, þeir sem hafa næstmest fá 11.59% í orlof, en aðrir fá það sama og gerist hjá félögum Verkamannasambandsins og Alþýðusambandsins. Mjög er vafasamt hvort meta á orlofsrétt til peninga, en ef litið er á dæmið frá kostnaðarsjónarmiði atvinnurekenda má búast við því að hver dagur væri metinn á 0.4–0.5%. Hvað varðar laun í veikindum og slysatilfellum eru réttindi opinberra starfsmanna mun meiri en gerist hjá almennu verkalýðsfélögunum. Mesti réttur hjá opinberum starfsmönnum er 360 dagar, en hjá hinum almenna verkamanni verður hann hæstur 90 dagar. Eftir 10 ára starf fær BSRB-maður laun í 120 daga í veikinda- og slysatilfellum, eftir 15 ára starfsaldur 180 daga og eftir 20 ára starfsaldur 360 daga.

Mér er ljóst að verkamannafélagið Dagsbrún hefur ásamt verkakvennafélaginu Framsókn farið hvað verst út úr þessum samanburði á undanförnum árum. Þau eru í mestu návígi við Vinnuveitendasambandið, sem hefur gætt þess vandlega að ríki og bær semji ekki við þessi félög um sambærilegar kjarabætur og félagsmenn BSRB hafa. Þessu er víða öðruvísi farið úti á landi. Hin einstöku verkalýðsfélög hafa notið skilnings þeirra sem ekki eru sífellt vaktaðir af Vinnuveitendasambandinu. T.d. hafa verkamenn hjá Keflavíkurbæ haft desemberuppbót í áraraðir. Svo mun vera á fleiri stöðum að samræming hefur átt sér stað. Það er hins vegar mikið verk óunnið og víða ríkir mikið skilningsleysi. Þess vegna hafa Alþýðusambandið og hin einstöku félög reynt að þrýsta á.

Í tilefni af umræddu samkomulagi hefur Alþýðusambandið ritað fjmrh. eftirfarandi bréf, með leyfi forseta: „Á undanförnum árum höfum við ítrekað leitað eftir því við fjmrn. að fólki innan Alþýðusambands Íslands í störfum hjá ríkinu verði alls staðar tryggð sambærileg kjör og opinberir starfsmenn njóta. Við fögnum þeim sinnaskiptum sem samningurinn við Dagsbrún sýnir að orðið hafa í rn. og óskum hér með eftir því að fá vilja rn. staðfestan skriflega með almennri yfirlýsingu gagnvart aðildarfélögum okkar, þannig að þau geti hvert á sínu svæði gert ráðstafanir til leiðréttinga á kjörum þeirra félagsmanna sem starfa hjá ríkinu“.

Undir þetta ritar Ásmundur Stefánsson forseti ASÍ. Ég fullyrði og tel mig hafa rök fyrir því, að víðs vegar um land allt er ástæða til þess að samræma kjör verkafólks og opinberra starfsmanna þó eldurinn brenni hvað heitast á konunum í verkakvennafélaginu Framsókn í Reykjavík. Einnig mun ástæða til samræmingar hvað varðar starfsmannafélagið Sókn og vitna ég þá til viðtals við formann starfsmannafélagsins Sóknar, sem var í einu dagblaðanna í gær. Þar segir hún, með leyfi forseta:

„Ég gleðst auðvitað fyrir hönd Dagsbrúnar ef þeir fá kjör sín bætt. Hins vegar held ég að fjmrh. geti ekki látið þetta eiga við Dagsbrún eina þegar öll félögin eru að gera samninga,“ sagði Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir, formaður Sóknar.

Sókn á enn eftir að gera samning við fjmrn. og sagðist Aðalheiður vona að Albert yrði þá eins vinsamlegur og hann hefði verið við Dagsbrúnarmenn. Sagði hún að Sókn yrði að gæta þess að vera samstíga BSRB þegar sá samningur yrði gerður. Þótt innan BSRB væri einnig fólk í lágum launaflokkum væru þó ýmis kjaraatriði sem bæri á milli. Sumarfrí væru lengri og betri kjör í veikindatilfellum. Þá sagði hún: Sóknarkonur sækja það fast að fá pláss á dagheimilum sem rekin eru í tengslum við sjúkrahúsin.“

Ég spyr fjmrh.: Er hann reiðubúinn til að verða við tilmælum ASÍ? Er ekki sjálfsagt að uppræta hvarvetna það misræmi sem á sér stað í þessum efnum? Ég treysti því að hin ríka réttlætiskennd ráðh. njóti sín í þessum efnum. Verkafólk um land allt væntir svars. Verkafólk um land allt mun fylgjast með lyktum þessara mála.

Það er ástæða til að fordæma þau viðbrögð sem átt hafa sér stað í stjórnarherbúðunum gagnvart þessu samkomulagi, þar sem stjórnarsinnar ganga ýlfrandi um sali og fordæma fjmrh. fyrir þessa gjörð. Almenningur í landinu undrast þessi viðbrögð og spyr: Ætlar Sjálfstfl. að taka fram fyrir hendurnar á ráðh., ætlar stjórnarliðið að hindra þetta sanngjarna og réttláta samkomulag? Ég spyr formann Sjálfstfl.: Hvað átti hann við þegar hann sagði í Ríkisútvarpinu í gærkvöld: Þetta mál verður tekið föstum tökum í Sjálfstfl.? Er meiningin að koma í veg fyrir þetta samkomulag? Er ætlun Sjálfstfl. að gerast sérstakur málsvari fyrir það óréttlæti og ósanngirni sem viðgengst í launamálum milli félaga BSRB og almennra verkamanna? Hvað skeður vitum við ekki nú, en eitt er víst, að verkafólk stendur fast að baki Albert Guðmundssyni fjmrh. í þessum efnum.