01.03.1984
Sameinað þing: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3310 í B-deild Alþingistíðinda. (2854)

Umræður utan dagskrár

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Umræður forustumanna stjórnmálaflokkanna og sérstaklega stjórnarflokkanna um kjarasamningamál nú að undanförnu hafa verið með fádæmum sérkennilegar. Ráðherrar hafa gefið yfirlýsingar úf og suður, oft æði mótsagnakenndar, sem hafa svo verið dregnar til baka strax daginn eftir. Þekkjum við býsna mörg dæmi þess á einni viku. Fremstir í þeirri fylkingu yfirlýsingaglaðra forustumanna hafa verið hæstv. forsrh. og raunar einnig formaður Sjálfstfl., hv. þm. Þorsteinn Pálsson. Þessir forustumenn stjórnarflokkanna gáfu þá einstæðu yfirlýsingu nú fyrir skemmstu að ef ekki yrðu öll verkalýðsfélög á landinu til þess að samþykkja kjarasamninga þá sem Alþýðusambandið hefði gert við Vinnuveitendasambandið yrði ekkert gert, ekki nokkur skapaður hlutur, í þágu láglaunafólksins í landinu. sem betur fer fór með þá yfirlýsingu eins og fleiri, sem gefnar hafa verið að undanförnu, að hún var dregin til baka fljótlega eftir að menn höfðu farið að hugleiða hvaða afleiðingar svo fáránlegar yfirlýsingar hlutu að hafa.

Þessi flóðbylgja af ábyrgðarlausum, ómerkilegum yfirlýsingum, sem borist hefur frá stjórnarherrunum, lýsir satt best að segja slíkum flumbrugangi og forustuleysi í stjórn landsins að ég hygg að það séu fá eða engin dæmi um slíkt hér á landi. Og nú er enn einn hvellurinn orðinn og ekki sá minnsti. Formaður Sjálfstfl., hv. þm. Þorsteinn Pálsson, lýsir því yfir í útvarpsfréttum í gærkvöld að hæstv. fjmrh. hafi drýgt mikla synd og gefur atveg ótvírætt til kynna, svo að það gat varla misskilist, að Sjálfstfl. væri rétt í þann mund að taka ákvörðun um mjög harða refsingu til handa sínum fjmrh. Morgunblaðið, aðalstuðningsblað Sjálfstfl., birtir leiðara í morgun þar sem vegið er mjög hart að hæstv. fjmrh., svo ekki sé meira sagt. Þar segir, með leyfi forseta:

„Hvað svo sem stjórnskipulegum rétti ráðh. liður verða þeir að taka mið af pólitískum stuðningi. Án meiri hluta á Alþingi geta þeir ekki setið. Fallist meðráðherrar Alberts og þingflokkar ríkisstj. ekki á samninginn sem hann gerði, veitir stjórnarskráin honum enga vernd lengur.“

Hvað þýða þessi orð? Þau þýða ekkert annað en að ráðh. beri að segja af sér ef forusta Sjálfstfl. sé honum ekki sammála. Stjórnarskráin veitir honum ekki lengur vernd til að sitja í þessum stól. Það er ósköp einfaldlega verið að gefa það mjög skýrt og ákveðið til kynna að hæstv. fjmrh. eigi að segja af sér.

Hver er svo sök ráðherrans? Jú, hann hefur gert samning við verkamannafélagið Dagsbrún um samræmingu á kjörum nokkurra Dagsbrúnarverkamanna við þau kjör sem félagsmenn í BSRB njóta. En nú hlýtur fyrsta spurningin að vera: Hvað er í raun og veru svona merkilegt við þennan samning að það veiti tilefni til þess moldviðris sem hér hefur gengið yfir undanfarna daga og hæstv. fjmrh. réttilega nefndi svo hér rétt áðan? Er það virkilega rétt, sem óspart hefur verið gefið í skyn af samráðherrum hæstv. fjmrh., að hann hafi ekki heimild til að gera slíkan samning?

Ég verð að segja alveg eins og er að ég var mjög undrandi þegar ég las yfirlýsingu hæstv. forsrh., sem því miður er nú fjarverandi, að til stæði eftir nokkra daga að taka þennan samning fyrir og staðfesta hann í ríkisstj. og gaf óspart til kynna að samningurinn yrði ekki endanlegur nema hann hlyti samþykki í ríkisstj. Getur það virkilega verið að hæstv. forsrh., sem er í fyrirsvari fyrir núv. ríkisstj., viti ekki meira um valdsvið sitt en svo að hann láti slíka fullyrðingu frá sér fara? Nákvæmlega sama kom fram hjá hæstv. sjútvrh. sem gaf óspart til kynna að hann mundi ekki mæla með þessum samningi þegar hann kæmi til afgreiðslu í ríkisstj.

Auðvitað eiga allir ráðh. og allir alþm. að vita hvernig málum er háttað að þessu leyti. Þeir eiga að vita að hæstv. fjmrh. hefur fulla heimild til að gera kjarasamninga skv. gildandi lögum og skv. þeim venjum sem ríkt hafa i þessu landi. Hann er alls ekkert skyldugur til að leggja slíka samninga fyrir fram fyrir ríkisstj. þótt oft mundi það vissulega vera gert, sérstaklega ef um væri að ræða samninga sem snertu mikinn fjölda manna. Ég hygg t.d. að aðalkjarasamningur BSRB hafi ævinlega verið kynntur í ríkisstj. áður en endanlega var frá honum gengið.

En hitt held ég að sé líka staðreynd, að sérkjarasamningar ríkisins við aðildarsamtök BSRB hafi nær aldrei verið ræddir í ríkisstj. áður en þeir voru undirritaðir. Satt best að segja eru gerðir nokkrir tugir — ég þori nú ekki að fara með hærri tölu, kannske ná þeir eitthvað á annað hundrað — samninga hjá fjmrn. sem aldrei eru bornir undir ríkisstj., hafa ekki verið bornir undir ríkisstj. árum saman, líklega áratugum saman. Enda er þar venjulega um svo flókin mál og smáatriðakennd að ræða að ekki hefur verið talin eðlileg verkaskipting að öll ríkisstj. væri með nefið niðri í hverju smáatriði sem verið væri að semja um af hálfu fjmrn.

Nei, staðreyndin er sú að samningar af því tagi sem hæstv. fjmrh. hefur gert við verkamannafélagið Dagsbrún eru ekkert einsdæmi. Hundruð slíkra samninga hafa verið gerðir á undanförnum árum án þess að nokkurn tíma hafi orðið slíkur hvellur sem nú út af því. Ástæðan er sú að samráðherrar hafa að sjálfsögðu treyst sínum fjármálaráðherrum fyrir því að annast mál af þessu tagi. Eins og fjmrh. hefur mátt treysta því að sjútvrh. væri ekki með nefið niðri í hverri samningsgrein, sem hann væri að fjalla um við hin ýmsu verkalýðsfélög, hefur sjútvrh. getað treyst því að hann gæti tekið ýmsar þær ákvarðanir sem lög heimila honum án þess að fjmrh. væri með nefið niðri í þeim málum. Þannig hefur þetta gengið fyrir sig í flestum ríkisstj. allt þar til nú að upp er komið ástand sem á fáa sína líka.

En er þá efni samningsins svo merkilegt að það geti verið tilefni til slíkra stóryrða sem uppi hafa verið höfð af samráðherrum fjmrh. og formanni Sjálfstfl. undanfarna daga? Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um efni samningsins, það þekkja allir. Efni hans er einfaldlega að menn sem vinna sambærileg störf í þágu ríkisins njóti sömu kjara. Á því er því miður allur gangur að fullt samræmi sé í þessum málum. Upp kemur ósamræmi sem stendur kannske um nokkurt skeið en síðan er leitast við að samræma það aftur. Ég tek undir það sem hæstv. fjmrh. sagði hér áðan: Eru virkilega einhverjir hér í þessum sal sem eru á móti því að slík samræming eigi sér stað? Ég trúi því tæpast.

Það var ekki alveg rétt sem fram kom rétt áðan hjá hv. fyrirspyrjanda, Karli Steinari Guðnasyni, 6. landsk. þm., að á þeirri tíð þegar ég var í fjmrn. hefðu menn verið algjörlega lokaðir fyrir allri samræmingu á kjörum BSRB-manna annars vegar og þeim kjörum sem giltu á hinum almenna vinnumarkaði hins vegar. Þetta er alls ekki rétt. Það má vel vera að ekki hafi alltaf náðst full samræming og ég hygg að alltaf sé eitthvert ósamræmi í gangi og hefur líka vafalaust verið meðan ég var í fjmrn. á ýmsum sviðum. En stundum var það leiðrétt eftir nokkurn tíma í samræmi við kröfur verkalýðsfélaga og umræður um þessi mál eins og gengur. En það er hinn mesti misskilningur að mál eins og þetta hafi ekki stundum verið á döfinni.

Ég ætla ekki að fara að rekja kjarasamningamál sem uppi voru í minni tíð enda yrði það býsna langt mál upp að telja. En ég get nefnt hér eitt einasta dæmi. Ég nefni bara haustið 1982 þegar fjmrn. gerði samning við starfsmannafélagið Sókn. Ég veit ekki hversu kunnugur Karl Steinar er þeim málum en þó hygg ég að hann hafi fylgst það vel með að hann viti að þá átti sér stað nokkur samræming á málum BSRB-manna og Sóknar. Ég minnist þess ekki að orðið hafi neinn hvellur út af þessu eða að núv. hæstv. forsrh., sem þá var sjútvrh., hafi svo mikið sem spurt um þetta mál í ríkisstj. þó að honum væri sagt frá því.

Það getur staðið misjafnlega á hvernig til tekst með samræmingarmál af þessu tagi. En ég vísa því algjörlega á bug að í fyrrv. ríkisstj. hafi verið andstaða gegn slíkri samræmingu. Ég hygg að það hafi allan tímann verið unnið að samræmingu með ýmsum hætti þótt auðvitað væri ekki alltaf orðið við öllum þeim kröfum sem gerðar voru eins og gengur. Það er af og frá að það sé einhver stórsynd, sem hæstv. fjmrh. hefur drýgt, að standa fyrir samræmingu af því tagi sem hann hefur nú staðið fyrir.

Nefnt hefur verið í umræðum manna um málið að þessar ákvarðanir hæstv. fjmrh. hafi áhrif á kjarasamninga annarra stéttarfélaga. Vissulega er það alveg rétt. Auðvitað verða menn alltaf að gera sér grein fyrir því, þegar svona samræmingarmál eru á ferðinni, að þau geta haft áhrif á fleiri aðila en verið er að semja við rétt í augnablikinu. Auðvitað hlýtur þessi samningur hæstv. fjmrh. að hafa áhrif á samninga Sóknar við ríkið og áhrif á samninga Alþýðusambands Íslands við ríkið, það segir sig sjálft. Ég efast ekkert um að hæstv. fjmrh. hefur gert sér fulla grein fyrir því. Ég fagna því alveg sérstaklega að hæstv. fjmrh. lýsti því yfir núna rétt áðan að hann mundi taka vel í að halda þessu samræmingarstarfi áfram og mundi sýna fullan skilning á þörfum bæði Sóknar og yfirleitt Alþýðusambandsfélaganna á því að kjörin yrðu samræmd.

Ef munur er á kjörum þeim sem ríkisstarfsmenn njóta og þeim kjörum sem t.d. Dagsbrún nýtur eða sókn er alltaf mikil hætta á því að með því sé verið að þvinga félagsmenn hinna almennu verkalýðsfélaga til að ganga inn í starfsmannafélög ríkisins. Það er óeðlilegt að ríkið hafi uppi þvingun af því tagi. Fólk verður alltaf að vera vakandi fyrir því að þarna sé samræmi þannig að starfsmenn á hinum almenna vinnumarkaði geti tekið ákvarðanir um hvort þeir eru félagsmenn í t.d. verkamannafélaginu Dagsbrún eða í einhverju aðildarfélagi BSRB út frá öðrum rökum en þeim að það séu hreinlega betri kjör hjá öðrum aðilanum.

Ég hygg að stefna hæstv. fjmrh. í þessum efnum sé alveg laukrétt og ég get tekið undir flest þau rök sem komu fram hjá honum áðan og hann flutti máli sínu til stuðnings. Ég hygg að þeir sem ekki hafa skilning á nauðsyn þess samnings sem hæstv. fjmrh. var að gera verði að teljast alveg sérstaklega forstokkaðir í þessum málum. Mér virðist að upphrópanir og æsingur forustumanna Sjálfstfl. og Framsfl. út af þessu litla máli segi satt best að segja miklu meira um þá sjálfa en um þann samning sem hæstv. fjmrh. var að gera.

Ég vil að endingu leyfa mér að spyrja hv. alþm. Þorstein Pálsson, formann Sjálfstfl., fyrrv. framkvæmdastjóra Vinnuveitendasambands Íslands: Á að líta svo á að það sé orðið stefnuskráratriði hjá Sjálfstfl., sérstakt kappsmál Sjálfstfl., að viðhalda óréttlæti af því tagi sem hér var verið að leiðrétta, að kjör Dagsbrúnarmanna verði að vera lakari en kjör ríkisstarfsmanna? Ef svo er, hvenær gerðist það? Gerðist það þegar fyrrv. framkvæmdastjóri Vinnuveitendasambandsins varð formaður Sjálfstfl.?

Ég vil líka taka undir með fyrirspyrjanda, hv. þm. Karli Steinari Guðnasyni, og spyrja Þorstein Pálsson að því hvað yfirlýsingar hans í útvarpinu í gærkvöld áttu raunverulega að merkja. Það hefur verið upplýst hér, og það á hv. þm. að vita, að hæstv. fjmrh. hefur beitt valdi sínu í fullu samræmi við þann rétt sem hann hefur meðan hann skipar þessa stöðu. Lítur formaður Sjálfstfl. á sig nú orðið sem einhvers konar yfirfjmrh. landsins? Það má vel vera að forustumönnum Sjálfstfl. takist að knýja fjmrh. til afsagnar út af þessu máli, ég vil ekki um það fullyrða. Miðað við tóninn sem er að finna í leiðara Morgunblaðsins í dag getur maður a.m.k. átt von á þessu.

En væri nú ekki kominn tími til fyrir forustumenn Sjálfstfl. og Framsfl. að gera sér grein fyrir því að í stjórnarsamstarfi ríkir ákveðin verkaskipting? Menn verða að sætta sig við að henni sé framfylgt.

Ég fer ekki dult með það að ég hef oft verið ósammála hæstv. fjmrh. Við höfum deilt um ýmislegt hér á hv. Alþingi og ekki síst nú á seinni mánuðum. En mér virðist að í þessu tilviki hafi hann svo sannarlega gert það eitt sem eðlilegt og heilbrigt getur talist og ég fagna alveg sérstaklega yfirlýsingum hans áðan.