01.03.1984
Sameinað þing: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3317 í B-deild Alþingistíðinda. (2856)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Einhvern tíma var mælt: „Fjallið tók jóðsótt og fæddist lítil mús.“ Ég held að það megi segja núna. Við höfum heyrt gífuryrtar yfirlýsingar undanfarna daga. Sjálfstfl. sameinaðist í annað sinn á stuttum tíma og allt var sett í gang. Svo gerist ekkert. Blaðran sprungin.

Það er erfitt að standa í sporum hæstv. fjmrh. núna. Fyrir skemmstu var hann skammaður vegna þröngra ramma sem hann sagðist hvorki eiga léreft né málningu til að úttylla almennilega. Nú reynir hann að bæta kjör hinna verst settu og lægst launuðu og þá snúast hans eigin menn gegn honum. En það er honum líklega einhver huggun harmi gegn að hann nýtur í þessu máli væntanlega mikils stuðnings. Hann nýtur stuðnings utan þings og hann nýtur stuðnings í þessu máli, eins og komið hefur fram, innan þings þótt það séu kannske ekki hans eigin flokksmenn.

Enn þá einu sinni höfum við séð áhrif samflotsins. Núna fyrir stystu sáum við hvernig VSÍ neyddi ÍSAL til að bíða með samninga þangað til VSI og ASÍ höfðu undirritað. Núna koma VSÍ og sveitarfélög og reyna að þrúkka niður launum fyrir 150 láglaunuðum Dagsbrúnarverkamönnum. Það er aldeilis ótrúlegt hvernig vanahugsun og nauðhyggja samflotsins heldur niðri launum í þessu landi misseri eftir misseri og ár eftir ár.

Auðvitað á að vera samræmi innan vinnustaða í launum. Það er aldeilis ótrúlegt að til skuti vera menn sem mæla því bót að fólk á sama vinnustað í sömu vinnu sé á mismunandi töxtum. Það er raunar svo að sveitarfélög eru víða búin að gera þær lagfæringar og leiðréttingar sem þarf í þessum málum. Um það eru ýmis dæmi. Hvað eru forsvarsmenn Reykjavíkurborgar að skipta sér af samningum sem fjmrh. er að gera? Þeir hafa sína ramma og hann hefur sína. Ef hann á meira léreft og meiri málningu en hann hugði er hann sá eini sem á að hafa umráðarétt yfir þeim gögnum. Vonandi verða síðan á næstu misserum teknar upp viðræður við aðrar lágt launaðar stéttir hjá ríkinu þótt forsvarsmenn þeirra njóti ekki persónulegs vinfengis við hæstv. fjmrh. Þannig gefst tækifæri til frekari samræmingar á launum á vinnustöðum.

Um viðbrögð stjórnarflokkanna í þessu máli vildi ég segja ýmislegt. Það var nákvæmlega sama hvar á jarðarkringlunni forkólfar þeirra voru, hvort þeir voru í Stokkhólmi eða Stykkishólmi, það fyrsta sem þeim datt í hug að algerlega óathuguðu máli var að fordæma skilyrðislaust plagg sem þeir höfðu hvorki heyrt né séð. Það var fordæming á viljayfirlýsingu um að samræma laun hjá hinum lægst og verst settu. Það þurfti enginn að hugsa málið. Það sagði enginn: Ég vil nú sjá þetta, ég vil heyra um þetta gögn. Þetta var fordæmt. Nú er komið í ljós hvað felst í þessu. Þetta eru kannske tugir þúsunda, í mesta lagi hundruð þúsunda. En þetta var fordæmt að óathuguðu máli. Þá spyrja menn: Hvers vegna var þessi skilyrðislausa fordæming án þess að vita nokkuð um hvað málið snerist? Var það kannske til þess að rýma við stallinn? Það skyldi þó ekki vera að það hafi verið það sem á bak við bjó? Þeir eru kannske orðnir leiðir og vilja losna við einhverja.

Athyglisvert var að sjá hvenær Sjálfstfl. er heill og óskiptur. Í fyrra skiptið sem Sjálfstfl. var heill og óskiptur var hann að beita þvingunum í Búnaðarbankamálinu. Í seinna skiptið sem hann er heill og óskiptur er hann að standa gegn því að bætt séu laun 150 lágt launaðra Dagsbrúnarverkamanna. Í fyrra skiptið sagði við mig góður sjálfstæðismaður að það hefði verið huggun harmi gegn ef bölvaður flokkurinn hefði nú verið skiptur og staðið klofinn að ósómanum. Ég er viss um að það eru margir sem hugsa eins núna. Það væri huggun harmi gegn ef hann hefði ekki verið svona sammála í gær. Þessi flokkur sameinast alltaf þegar síst skyldi. Nú á líklega að sameinast um að bola fjmrh. flokksins í burtu vegna þess að á einum degi var frá Stykkishólmi og Stokkhólmi byggð svo há girðing í kringum stjórnarbústaðinn að erfitt verður að sjá hvernig hann kemst inn aftur.

Ég fagna frumkvæði ráðh. í þessu máli. Hann hefur fullan rétt til að semja um þessi mál, þau eru á hans málasviði. Það er réttlætismál til margra ára að innan vinnustaða ríki samræmi í launagreiðslum og augljóst mál að enginn getur móti því mælt. En fróðlegt verður að heyra svör formanns Sjálfstfl., hvort, í framhaldi af þeim yfirlýsingum sem okkur bárust á öldum ljósvakans, neyða á fjmrh. til afsagnar þegar hann reynir að jafna lífskjörin í landinu.