01.03.1984
Sameinað þing: 60. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3325 í B-deild Alþingistíðinda. (2859)

Umræður utan dagskrár

Ólafur Ragnar Grímsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. spurði að því fyrr í dag, með leyfi hæstv. forseta: Er einhver þm. hér inni sem ásakar mig fyrir þetta? Það hefur komið í ljós í þessum umr. að það er einn þm. hér inni sem ásakar hann fyrir þetta. Sá þm. er Þorsteinn Pálsson, formaður Sjálfstfl. Hann flutti hér harða ásökunarræðu í garð hæstv. fjmrh. og lauk máli sínu með því að hóta honum með réttarhöldum innan flokksins. Svo alvarlegt var málið að frægasta kjörorð Sjálfstfl. á árunum 1974 til 1978, ,,Ég lít málið alvarlegum augum“, var endurvakið hér í sölum Alþingis. Hv. þm. Þorsteinn Pálsson hefur þá alla vega afrekað það í formannssæti sínu að taka að nýju upp kjörorð fyrirrennara síns Geirs Hallgrímssonar, „Ég lít málið atvarlegum augum“. Það er þá áfanginn á sameiningarbraut Sjálfstæðisflokksins að þessir tveir, fyrrverandi og núverandi formaður, hafa sameinast í þessari sýn sinni.

En það er annað sem er ljóst í þessum umr. Hv. þm. Þorsteini Pálssyni hefur tekist eitt sem ekki tókst í Búnaðarbankamálinu fræga. Honum hefur tekist að kljúfa Sjálfstfl. Því hljótum við auðvitað að fagna, að í formannstíð Þorsteins Pálssonar líður ekki eitt ár þangað til hann fetar einnig í þau fótspor Geirs Hallgrímssonar að í kjölfar „alvarlegu augnanna“ kemur klofningurinn á nýjan leik.

Hv. þm. Þorsteinn Pálsson sagði hér: Í mínum augum og míns flokks er málið alvarlegt. Ég spyr hv. þm. Þorstein Pálsson: Hvaða stofnun innan Sjálfstfl. hefur fjatlað um þetta mál? Hefur þingflokkurinn fjallað um þetta mál? Hv. þm. Þorsteinn Pálsson tilkynnti þjóðinni í útvarpinu í gær að það hefði engin niðurstaða fengist í umfjöllun þingflokksins um málið. Hefur þingflokkurinn haldið fund í dag um málið? Nei. Hefur miðstjórn Sjálfstfl. komið saman og fjallað um málið? Nei. Hefur einhver réttkjörin stofnun innan Sjálfstfl. fjallað um málið? Svarið er aftur nei. En það er einn aðili í Sjálfstfl. sem hefur fjallað um málið. Það er Morgunblaðsklíkan — klíkan sem er í kringum hlutafélagið sem hæstv. utanrrh. er formaður í, Árvakur. Hún hefur fjallað um málið. Flokkseigendafélagið í Sjálfstfl. hefur fjallað um málið. Það birti dóm sinn í leiðara Morgunblaðsins í dag. Sá dómur er ótvíræður. Hann er á þann veg, að hæstv. fjmrh. eigi að fara frá. Það er í fyrsta sinn í gervallri sögu Sjálfstfl. sem það gerist að Morgunblaðið krefst afsagnar ráðherra í ríkisstjórn sem Sjálfstfl. stendur formlega að. Það hefur aldrei gerst fyrr. Að þessu leyti er þessi dagur mjög merkilegur í sögu Sjálfstfl., að aðatmálgagn hans, burðarásinn í flokknum, Morgunblaðið, skuli koma fram á völlinn og tilkynna hæstv. fjmrh. eins og segir í leiðaranum, með leyfi hæstv. forseta, að hæstv. fjmrh. hafi ekki verið að framkvæma samþykktir þingflokks Sjálfstfl., hann hafi ekki heldur verið að framkvæma stefnu ríkisstj. og ef í ljós komi að hann hafi ekki stuðning þingflokka ríkisstj. eigi hann ekki lengur neitt skjól.

Ég vil spyrja hv. þm. Þorstein Pálsson: Er hann sammála í einu og öllu þeim dómi sem Morgunblaðið kveður upp í dag um samning Alberts Guðmundssonar og verkamannafélagsins Dagsbrúnar? Morgunblaðið fordæmir þennan samning í fimm meginatriðum. Er hv. þm. Þorsteinn Pálsson sammála þessari fordæmingu? Annað var ekki ráðið af ræðu hans áðan.

Hv. þm. Þorsteinn Pálsson sagði í fyrsta lagi: Það er óeðlilegt að semja við verkalýðsfélag sem fellir kjarasamninginn sem VSÍ og ASÍ gerði. Ég vek athygli á því að þetta er sami maðurinn sem er á hátíðarstundum að berjast fyrir frjálsræði í þessu þjóðfélagi, frjálsum félagssamtökum, valddreifingu og öðru slíku. Nú kemur hann hér sem talsmaður mesta miðstýringarvalds sem hér hefur heyrst um í þingsölum og segir: Við þann sem dirfist að fella samning sem heildarsamtökin hafa gert má ekki tala. Það er dauðasök. — Slíkur er átrúnaðurinn á miðstjórnarvaldið, slík er krafa ríkisherrans í þessu landi, að sérhver sem dirfist úti á hinum frjálsa markaði að gera annað en miðstjórnarvaldinu þóknast skal settur í algert bann, við hann má ekki tala, við hann má ekki semja. Er þetta hin nýja miðstjórnarfrjálshyggja? Er þetta nýja trúin á ofurvald miðstjórnarinnar, sem á ekki aðeins að vera ofurvald miðstjórnarinnar í Sjálfstfl., sem á að hefja réttarhöld innan tíðar, heldur líka ofurvald miðstjórnarinnar í samfélaginu öllu? Þess vegna er það alveg rétt að okkur er hér að birtast smátt og smátt hin nýja miðstjórnarvaldsstefna Sjálfstfl. sem vill knýja allt og alla í þessu samfélagi undir ákvarðanir fámennrar miðstjórnar.

Í öðru lagi sagði hv. þm. Þorsteinn Pálsson: Það er óeðlilegt af ríkisstj. hálfu að ganga til móts við Dagsbrún. Hvers vegna, hv. þm., var það óeðlilegt? Það hafa hvað eftir annað, eins og hér hefur verið rakið, á undanförnum árum verið gerðir samræmingarsamningar við hin einstöku verkalýðsfélög. Það hafa verið flutt hér á Alþingi frv. til samræmingar á kjörum. Það hafa verið flutt hér frv. um orlof, um fæðingarorlof, um sjúkrasjóði, um atvinnuleysisbætur, um laun í veikinda- og slysaforföllum. Allt saman eru þetta samræmingaratriði sem hér á Alþingi hafa verið flutt frv. og samþykkt um lög. Með sumum þessum lögum greiddu þm. Sjálfstfl. meira að segja atkv. Hvað er nú allt í einu rangt við það, ef áður mátti setja samræmingarlög af því tagi, að gera lítilfjörlegan samræmingarsamning, nema bara það eitt að hann ógnar miðstjórnarvaldinu sem þessu nýju herrar eru orðnir talsmenn fyrir í þessu þjóðfélagi? Það er dauðasökin.

Í þriðja lagi sagði hv. þm. Þorsteinn Pálsson að þessi samningur stofnaði verðbólgumarkmiðum ríkisstj. í hættu. Hvað á þm. við? Hann segir þetta eftir að hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson hefur upplýst að þessi samningur kostaði 1 milljón. Hvernig getur 1 millj. kr. útgjaldaauki stofnað verðbólgumarkmiðum ríkisstj. í hættu? Vill ekki hv. þm. Þorsteinn Pálsson útskýra það fyrir þingheimi? Ef hann gerir það ekki verða þessi orð hans einfaldlega dæmd á þann veg að þau séu ómerkilegar órökstuddar fullyrðingar.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson benti á áðan, að hæstv. heilbrmrh. á enn þá eftir að flytja frv. um 300 millj. kr. sparnaðinn. Ef hann gerir það ekki jafngildir það hallaaukningu á fjárlögum sem nemur 300 millj. kr. Ekki hefur hv. þm. Þorsteinn Pálsson heyrst koma fram og segja að það stofni verðbólgumarkmiðum ríkisstj. í hættu. Ekki hefur hann staðið uppi í ræðustól og fordæmt hæstv. heilbrmrh. fyrir það, en hann fordæmir hæstv. fjmrh.

Síðan segir hv. þm. Þorsteinn Pálsson að fjmrh. hafi borið að fara með málið eins og það varðaði ríkisstj. alla. Ég spyr eins og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson: Fór hv. þm. Þorsteinn Pálsson með það samkomulag sem hann gerði með Steingrími Hermannssyni eins og það varðaði ráðherra Sjálfstfl. alla? Kynnti hann málið fyrir Albert Guðmundssyni? Nei. Hann gerði það ekki. Það er margupplýst. Hann hafði ekki gert það. Hann reyndi ekki einu sinni að ná í hann. Nú allt í einu er komið upp mál sem varðar alla ráðh. Sjálfstfl.

Það er alveg ljóst og hefur komið mjög skýrt fram í þessum umr.hv. þm. Þorsteinn Pálsson hefur afrekað það að kljúfa Sjálfstfl. Honum er svo mikið í mun að setja hinum einstöku verkalýðsfélögum í landinu stólinn fyrir dyrnar að hann hikar ekki við að búa til hinn alvarlegasta klofning í sínum eigin flokki. Það er ekki hæstv. fjmrh. sem er að búa til þennan klofning, það er mesti misskilningur. Eins og hann hefur lýst hér er hér ekki um stórmál að ræða. En það er hv. þm. Þorsteinn Pálsson sem kýs að gera þetta að stórmáll. Það hlýtur að vekja undarlegar spurningar innan Sjálfstfl. hvernig standi á því að hv. þm. kýs að gera það. Á því er auðvitað bara ein skýring. Hann er farinn að finna að til þess að geta fengið það vald sem hann sækist eftir þarf hann að koma hæstv. fjmrh. frá. Um það snýst þetta mál. Það snýst ekki um verðbólgumarkmið ríkisstj., það snýst ekki um einstök verkalýðsfélög, það snýst ekki um ASÍ eða VSÍ, heldur er eingöngu heimilisvandamál í Sjálfstfl., spurningin um vald, spurningin um stöður, spurning um styrkleika.

Ég vil spyrja hv. þm. Þorstein Pálsson: Ef hann telur að þetta mál sé svo alvarlegt sem hann hefur margítrekað, sem beri að líta alvarlegum augum, sé alvarlegt mál fyrir þjóðina og flokkinn, er hann þá ekki reiðubúinn að leggja þennan samning fyrir Alþingi? Er hann þá ekki reiðubúinn að láta reyna á það hér á Alþingi hvort þessi samningur hefur stuðning eða ekki? Hæstv. fjmrh. lýsti sig reiðubúinn til þess í sinni ræðu að hlíta dómi Alþingis um þennan samning. Er hv. þm. Þorsteinn Pálsson tilbúinn til þess? Er hann slíkur unnandi þingræðisins að hann sé tilbúinn til þess eða eiga flokksræðisklíkurnar að fá að ráða í þessu máli líka? Ætlar hann líka að gerast talsmaður flokksræðisins þar sem málinu sé ráðið til lykta innan dyra, fyrir luktum tjöldum í flokksherbergjum Sjálfstfl. eins og hann boðaði í lokaræðu sinni? Það er afneitun á þingræðinu. Það er að hafa ekki manndóm eða kjark til að láta hina réttkjörnu stofnun þjóðarinnar skera úr, en leita skjóls hjá valdaklíkum flokksins þar sem Morgunblaðshöllin og leifarnar af Geirsklíkunni í Sjálfstfl. geta veitt honum það skjól og þær girðingar sem hann er að sækjast eftir.

Ég skora á hv. þm. Þorstein Pálsson að flytja till. á Alþingi síðar í dag eða á morgun þar sem hann leitar eftir því hvort þessi samningur hefur stuðning á Alþingi, hvor hefur meiri hluta á Alþingi, hv. þm. Þorsteinn Pálsson eða hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson. Eigum við ekki að greiða atkvæði um það hér í salnum hver talar fyrir hönd þjóðarinnar hér á Alþingi, hæstv. fjmrh. eða hv. þm. Þorsteinn Pálsson? Manndómur þm. væri meiri ef hann hefði kjark til að leggja þetta undir dóm Alþingis. Það er ég viss um að fyrirrennari hans, Bjarni Benediktsson, hefði haft kjark og þingræðislegan skilning til að gera. Hann hefði ekki viljað sitja í formannssæti i Sjálfstfl., þegar við völd væri ríkisstjórn sem Sjálfstfl. ætti aðild að, ef meiri hluti þingsins stæði ekki með honum. En kannske dugar hv. þm. Þorsteini Pálssyni að hafa litlu klíkurnar í Sjálfstfl. með sér þó að hann hafi þingið og þjóðina á móti sér.

Það er kjarni þessa máls að það snýst fyrst og fremst um átökin innan Sjálfstfl. Síðan eru ákveðnir hliðarþættir í því máli sem snerta nokkra hæstv. ráðh. sem hafa verið mjög þögulir hér í dag. Það er satt að segja mjög merkileg vísbending um viðhorf þessara hv. manna til Alþingis, hæstv. ráðh. Matthíasar Bjarnasonar, hæstv. ráðh. Jóns Helgasonar, hæstv. ráðh. Halldórs Ásgrímssonar, að þeir þora ekki að endurtaka á Alþingi ummæli sín í fjölmiðlum. Venjulega er þetta öfugt, að menn leita sér skjóls í heimildum Alþingis, geta sagt á Alþingi það sem þeir verða ekki kallaðir fyrir til að réttlæta utan þings. En þessir hæstv. ráðh. hafa fundið alveg nýja aðferð. Þeir eru stóryrtir í fjölmiðlum, gefa þar afdráttarlausar yfirlýsingar um vilja ríkisstj. og sín viðhorf, og sitja svo þegjandi hér á Alþingi og þora ekki að lýsa því sama yfir þar — eða ber að skilja þessa þögn á þann veg að þeir séu horfnir frá fyrri yfirlýsingum? Ég spyr t.d. starfandi hæstv. forsrh. og skora á hann að koma hér upp í ræðustólinn og svara fyrir hönd ríkisstj. sem hann er nú ábyrgur fyrir. (Sjútvrh.: Ég er nú á mælendaskrá.) Það er ánægjulegt. Það er nú tími til kominn. Alvöruforsrh. þessa lands hefði ekki beðið svona lengi eftir að fá talað. E.t.v. mun hæstv. sjútvrh. svara því hér á eftir hvort hann er sammála þeirri skoðun sem hæstv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, hefur lýst yfir, með leyfi hæstv. forseta: „Ég tel að svona samningur sé háður samþykki ríkisstj. allrar.“ Er hæstv. ráðh. sammála þessari yfirlýsingu? Og ef svo er mun þá fara fram atkvæðagreiðsla á næsta fundi ríkisstj. um þetta mál? Er hæstv. ráðh. Halldór Ásgrímsson einnig sammála þeirri yfirlýsingu formanns Framsfl., forsrh. Steingríms Hermannssonar, sem hann gefur í viðtali við Morgunblaðið í dag, með leyfi hæstv. forseta: „Svona getur enginn einn ráðh. ákveðið, svona ákvörðun nær jafnvel langt út fyrir ríkisstj. í heild.“ Er hæstv. sjútvrh., starfandi forsrh., sammála þessari yfirlýsingu?

Fyrst hæstv. ráðh. Halldór Ásgrímsson er nú búinn að láta skrá sig á mælendaskrána er þá ekki hæstv. heilbrmrh. reiðubúinn að láta skrá sig á mælendaskrána líka? (Gripið fram í: Er þá ekki rétt að hleypa honum að?) Nú, hvað er þetta! Er öll ráðherrasveitin búin að skrá sig á mælendaskrána? Eru fleiri hæstv. ráðh. á mælendaskránni, herra forseti? (Forseti: Forseta ber ekki að gefa hv. þm. neinar upplýsingar fyrr en það kemur í ljós.) Það er að vísu rétt, herra forseti, en það gæti auðveldað mjög meðferð mála að fá upplýsingar um hvort hæstv. ráðh. Jón Helgason er einnig á mælendaskrá.

Ég vil þá af þessu tilefni endurtaka að hæstv. ráðh. Matthías Bjarnason hefur lýst því yfir að hann sé algjörlega andvígur þessum samningi og hann eigi ekki von á því að ríkisstj. staðfesti þennan samning. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðh.: Er hann þeirrar skoðunar að ríkisstj. eigi að staðfesta þennan samning og samningurinn hafi ekkert gildi nema ríkisstj. staðfesti hann? Ef ráðh. er þeirrar skoðunar, hvernig rökstyður hann það í samræmi við þær almennu venjur sem hér hafa tíðkast í stjórnkerfinu?

Herra forseti. Það er komið mjög skýrt í ljós að innan ríkisstj. ríkir grundvallarágreiningur í þessum málum. Sá ágreiningur er tvíþættur.

Hann er annars vegar fólginn í skilningi hæstv. forsrh. á því hvernig eigi að starfrækja ríkisstj. Sá skilningur er algjörlega andvígur öllum þeim venjum sem hér hafa tíðkast um áratugi og brýtur í bága við stjórnskipun landsins. Væri nú ráð að einhverjir lærðir stjórnskipunarfræðingar, eins og hv. þm. Gunnar G. Schram, fræddu hæstv. forsrh. um nokkrar grundvallarreglur íslenskrar stjórnskipunar. Það er alveg ljóst að sá skilningur sem hæstv. forsrh. hefur lýst er andvígur þeim meginviðhorfum.

Í öðru lagi sýnir þetta mál verulegan klofning innan Sjálfstfl., sem í raun snýst alls ekkert um þetta mál í sjálfu sér þó að þetta mál hafi hins vegar orðið tilefni til þess að sá klofningur kom endanlega upp á yfirborðið með jafnskýrum og afdráttarlausum hætti og raun ber vitni.

Herra forseti. Ég vænti þess að hv. þm. Þorsteinn Pálsson svari þeim fsp. sem til hans hefur verið beint hér og þeir hæstv. ráðh. sem skráð hafa sig á mælendaskrá svari einnig skýrt og skorinort þeim fsp. sem til þeirra hefur verið beint.