31.10.1983
Efri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

42. mál, orkulög

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir, en ekki með, frv. til l. um staðfestingu á brbl. frá 8. apríl s.l., sem er að finna á þskj. 45. Ekki skal um það dæmt nú hverja nauðsyn bar til setningar þessara brbl. á sínum tíma. Hitt má öllum ljóst vera, að það er ekki stefna núv. ríkisstj. að hafa þann hátt á um ákvörðun orkuverðs sem í þeim lögum segir. Er þess vegna lagt til að frv. verði fellt.

Stjórnaryfirlýsingu segir að sveitarfélög skuli ákveða sjálf verð á þjónustu sinni. Á það auðvitað ekki síst við um sölu á orku, sem þau hafa velflest með höndum. Á hitt ber auðvitað að líta, að alls ekkert svigrúm er til hækkunar orkuverðs á þeim svæðum og í þeim greinum þar sem það nú er hæst. Á það sérstaklega við um raforkusölu til húshitunar og orku nýjustu og dýrustu hitaveitna. Þvert á móti ber brýna nauðsyn til að lækka húshitunarkostnað þar sem þannig stendur á.

Á vegum iðnrn. fara nú fram ítarlegar kannanir í þessum efnum, t.d. hvernig bæta megi einangrun húsa, en þann veg hyggja sérfróðir menn að spara megi stórfé. Komi það þeim enda best sem verst eru settir og þyngstar byrðarnar bera af hitun húsa sinna. Á það ber að leggja áherslu að hverfa frá niðurgreiðslum og skattlagningu til þeirra og til orkusparandi aðgerða og lækkunar orkuverðs. Fast verður knúið á um að skattar verði felldir niður af orkusölu til húshitunar svo fljótt sem unnt er.

Meiri hluti þjóðarinnar býr nú orðið sem betur fer við ódýra orku til húshitunar frá hitaveitum. En fimmtungur þjóðarinnar býr enn við óbærilegar aðstæður í þessum efnum, þar sem húshitunarkostnaðurinn er að sliga heimilin. Allt kapp ber að leggja á að leysa þann háskalega vanda.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umr. verði máli þessu vísað til 2. umr. og fjh.- og viðskn.