05.03.1984
Efri deild: 57. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3347 í B-deild Alþingistíðinda. (2875)

188. mál, umferðarlög

Flm. (Karl Steinar Guðnason):

Virðulegi forseti. Ég hef leyft mér ásamt Salome Þorkelsdóttur, Eiði Guðnasyni, Tómasi Árnasyni, Skúla Alexanderssyni, Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur og Stefáni Benediktssyni að leggja fram frv. um breytingu á lögum nr. 55 frá 1981.

Frv. er ekki viðamikið. Þar segir svo í 1. gr.: „2. mgr. 6. gr. falli niður.“ En þessi grein er svohljóðandi í núgildandi lögum:

„Eigi skal þó refsa fyrir brot gegn 3. gr. fyrr en lokið er þeirri heildarendurskoðun umferðarlaga, sem hófst í sept. 1980.“

Lagt er til að þessi grein falli niður.

Í maímánuði 1981 voru samþykkt lög þess efnis að hver sá sem situr í framsæti bifreiðar, sem búin er öryggisbelti, skuli nota það við akstur á vegum. Við lokaafgreiðslu laganna var ákveðið að eigi skyldi refsa fyrir brot gegn þeim fyrr en þeirri heildarendurskoðun umferðarlaga, sem hófst í sept. 1980, lyki. Á þeirri stundu ætluðu menn að endurskoðunin væri vel á veg komin þannig að um skammtímaráðstöfum væri að ræða varðandi refsiákvæði laganna. Nú, tæpum þremur árum seinna, er endurskoðuninni ekki lokið og því hefur raunverulegur vilji meiri hl. þáv. alþm. í þessu máli enn ekki komið til framkvæmda.

Skv. sérstakri skýrslu, sem tekin var saman á vegum Umferðarráðs um banaslys í umferðinni á árinu 1972 til ársloka 1983, kemur fram að á þessum 12 árum hafa 165 ökumenn og farþegar í bifreiðum beðið bana. Í skýrslunni er það mat lagt á umrædd slys að notkun öryggisbelta hefði að líkindum getað forðað 104 þessara manna frá dauða. Þar af eru 15 frá 1. okt. 1981 fram til ársloka 1983, þ. e. eftir að lög um skyldunotkun öryggisbelta tóku gildi. Það má og hafa í huga, að ljóst er að notkun bílbelta hefur forðað fjölmörgum frá limlestingum og því sem því fylgir. Á þessu sést að hér er um stórt mál að ræða sem í bókstaflegri merkingu gæti skilið á milli lífs og dauða og því brýnt að nú þegar verði vanræksla á notkun öryggisbelta látin varða viðurlögum.

Fullreynt má nú teljast að ekki verði unnt með áróðri og fræðslustarfsemi einni að ná beltanotkun upp meira en orðið er. En skv. síðustu talningu lögreglu og Umferðarráðs var notkun hér á landi um 27% hjá ökumönnum og 28% meðal farþega í framsætum. Er þessi reynsla fullkomlega í samræmi við það sem gerst hefur í öðrum löndum, t. d. í Noregi, þar sem lagaákvæði án refsingar giltu um nokkurra ára skeið án þess að viðunandi árangur næðist. Í Sviss voru lög um skyldunotkun árið 1976 numin úr gildi í árslok 1977 en öðluðust gildi á ný árið 1981. Kom fram greinileg sveifla á þessum árum þar sem beint samhengi reyndist milli lítillar notkunar öryggisbelta og fjölgunar látinna í umferðarslysum.

Þann 31. jan. s. l. var rétt ár liðið frá því að sett voru lög um skyldunotkun öryggisbelta í Brettandi. Á þessu fyrsta ári fækkaði banaslysum farþega í framsætum úr rúmlega 2200 á ári í um 1500 eða um þriðjung. Auk mannslífa er talið að öryggisbeltin hafi forðað milli 5 og 7 þús. manns frá alvarlegum meiðslum. Andlitsmeiðslum hefur t. d. fækkað þar í sumum sjúkrahúsum um 70%, höfuðmeiðslum fækkað verulega og augnmeiðsli vegna bílslysa hafa nær horfið á mörgum sjúkrahúsum. Nú munu um 90% breskra bílstjóra og framsætisfarþega nota beltin enda sekt 2500 kr. ef út af er brugðið. Ef framsætisfarþegi hefur ökuréttindi og gerist brotlegur við lögin greiðir hann sektina sjálfur. Annars verður bílstjórinn að greiða fyrir hann. Margir áhrifamiklir aðilar í Bretlandi lögðust á sínum tíma gegn lagasetningu um skyldunotkun öryggisbelta. Þeirra á meðal var Félag breskra bíleigenda sem mælti með notkun án lögþvingunar. Í ljósi þeirrar reynslu, sem nú hefur fengist, hefur félagið nú snúið við blaðinu og styður lögin.

Allt kemur þetta heim og saman við þá skoðun fjölmargra aðila hér á landi, þ. á m. Umferðarráðs, að lögum um skyldunotkun verður að fylgja refsiákvæði eins og umferðarlaganefnd lagði til árið 1981. Enda munu vandfundin lög sem dómsvaldinu er ekki ætlað að beita viðurlögum gegn ef út af er brugðið. Á sama hátt má ætla að undansláttur í framkvæmd einnar lagagreinar leiði til vanvirðingar manna á öðrum lögum.

Ég legg til að að lokinni umr. verði frv. vísað til 2. umr. og allshn. og treysti því að alþm. hv. deildar ljái þessu máli atfylgi sitt.