05.03.1984
Neðri deild: 54. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3361 í B-deild Alþingistíðinda. (2884)

Umræður utan dagskrár

Guðmundur Einarsson:

Herra forseti. Ég þakka þær upplýsingar sem hafa komið fram og þetta þarfa frumkvæði að ganga fram í að afla þeirra. Það er þá komin ein könnunin enn, sem leiðir þetta sama í ljós, að það er verulegur munur á kjörum karla og kvenna í landinu. Þetta kemur fram í hverri könnuninni á fætur annarri. Þetta kemur fram á hverri ráðstefnunni á fætur annarri. Hvarvetna um land vitnar fólk um þetta sama en það gengur seint að ráða á því bót. Það þarf að halda þessu á lofti, eins oft og tækifæri gefast, vegna þess að dropinn holar steininn. Það þarf bæði til þess áróður og það þarf líka til þess átök. Það þarf að beita sér t. d. þegar færi gefast, eins og komið hefur hérna fram, við gerð kjarasamninga. En þetta er ekki bara spurning um að gera góða kjarasamninga. Þetta er líka spurning um að framfylgja þeim kjarasamningum sem gerðir eru. Ég þekki nefnilega af eigin raun dæmi um hvernig kjarasamningum er framfylgt.

Ég á kunningja sem var latur og leiður skólastrákur og ákvað að eiga einu sinni rólegan vetur í banka. Á öðrum degi bankaveru sinnar er hann kallaður fyrir starfsmannastjóra. Þar sest hann og það er farið að rekja úr honum garnirnar um það hvernig megi nú hækka hann svolítið í launum. Hann er spurður hvort hann hafi ekki einhverja verslunarreynslu. Jú, drengurinn taldi það vera, hann hafði verið sendill í búð bróður síns. Hvort hann hefði skrifstofureynslu. Hann taldi það nú geta verið, hann hafði lært bókhald í gagnfræðaskóla. Og tungumálahrafl, sem hann kunni í ensku, dönsku og þýsku, varð efni til þess að hækka um launaflokk. Þannig var leitað með logandi ljósi í gegnum lífshlaup þessa lata stráks og á endanum var hann orðinn þremur launaflokkum hærri en stelpurnar sem kenndu honum störfin í bankanum niðri í sal. Það kom svo greinilega í ljós að launin byggðust á líffærafræðilegum forsendum frekar öllu öðru og höfðu ekkert með reynslu eða menntun að gera.

Þetta sýnir okkur náttúrlega að það er eitt að gera samninga og annað að framfylgja þeim. Þarna held ég að áróður hljóti að þurfa til að koma, þegar um er að ræða mál eins og við höfum haft hér til umr. í dag, svona baktjalda- og undirborðsskot, að skaffa mönnum bílastyrk eða greiða mönnum kannske ótilgreindar upphæðir fyrir yfirvinnu. Þá fer náttúrlega kvenfólkið halloka í þessum efnum, vegna þess að það er ekki víst að starfsmannastjórarnir finni hjá sér sömu hvöt til að rekja úr þeim garnirnar og þeir finna þegar karlpeningurinn situr fyrir framan þá.