06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3378 í B-deild Alþingistíðinda. (2898)

174. mál, lífefnaiðnaður

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt. Það er ekki tími hér til að stunda málalengingar.

Mér flaug í hug, þegar ég var að hlusta á þessa umr., að beina því til þriggja ráðh., þ. e. landbrh., iðnrh. og sjútvrh., að þeir klipu örlítið af rekstrarfé sinna rn. vegna þessa þarfa máls, þannig að það myndaðist nægilegt fé til að halda úti tveim til þrem mönnum í vinnu það sem eftir er þessa árs við rannsóknir sem þegar eru í gangi. Þó að klipið yrði svona af rekstrarfé rn., sem menn telja gjarnan naumt, þyrfti það ekki að vera meira mál en það fyrir þessi þrjú rn. að menn drægju örlítið fæturna í öðrum málum sem þeir standa í, t. d. í breytingu innréttinga hjá Rafmagnsveitum ríkisins og eitthvað slíkt. Með þessu næðust e. t. v. út tíu mánaðarlaun fyrir þrjá menn sem hugsanlega næðu ella ekki þeim árangri á þessu ári sem vænta mætti. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er ekki aðstaða til þess á þessum dögum að útvega peninga í þessi mál, en er ekki aðstaða til þess, eins og ég segi, að þrjú rn. sameinist um að klípa eitthvað af sínu rekstrarfé í þágu þessa máls?