31.10.1983
Efri deild: 10. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í B-deild Alþingistíðinda. (290)

42. mál, orkulög

Þorv. Garðar Kristjánsson:

Virðulegi forseti. Komið hefur fram að það mál sem hér er til umr. var rætt á síðasta þingi, þegar til 1. umr. var frv. til l. um breytingar á orkulögunum. Það frv., sem var stjfrv., var ekki einungis efnislega eins og frv. það sem nú liggur fyrir til staðfestingar á brbl., það var nákvæmlega eins orðað.

Ég tók þátt í þeim umr. og varaði við því frv. þá og það var nokkuð í sama anda eins og mér skildist á hv. 5. þm. Vesturl. sem hér talaði áðan. Ég taldi hann líka vara við frv. þá og það virtist ekki hafa meiri hl. í þinginu. Því var vísað með eðlilegum hætti til iðnn. þessarar deildar og þar fékk það enga afgreiðslu. Með tilliti til þessa vil ég lýsa því yfir, að ég er samþykkur því sem hæstv. iðnrh. sagði um það frv. sem nú liggur fyrir. Ég hef ekki breytt um skoðun frá því í fyrra á síðasta þingi og tel að þessi brbl., sem frv. þetta sem við nú ræðum fjallar um, verði ekki samþykkt, tel að það eigi ekki að samþykkja.

Þetta mál bar að með nokkuð einkennilegum hætti á síðasta þingi og var í eðli sínu harla einkennilegt miðað við stöðu mála þá og sérstaklega það sem gerst hafði í málum Landsvirkjunar. Það eru í gildandi orkulögum ákvæði um gjaldskrá orkufyrirtækja. Þau ákvæði er að finna í 25. gr. orkulaganna og varðar rafveitur og í 29. gr. orkulaganna og varðar hitaveitur. Þar er gert ráð fyrir að staðfestingu ráðherra þurfi á gjaldskrám sem veiturnar setja sér. En meðan verðstöðvunarlög giltu, 1970–1981, hafði ríkisstj. með stoð í þeim lögum víðtækara vald heldur en er í orkulögum. Þegar þeim lögum sleppti 1981, þá hafði ríkisstj. í raun og veru ekki við að styðjast önnur lagaákvæði í þessu efni en eru í orkulögum. Að mínu viti fór þá ríkisstj. fram úr þeim heimildum sem hún hafði til þess að ákveða gjaldskrá fyrirtækja eftir að verðstöðvunarlögunum linnti.

En ég sagði áðan að málið hefði borið að með nokkuð einkennilegum hætti með tilliti til Landsvirkjunar. Í grg. með frv., sem lagt var fram á síðasta þingi, kemur fram að frv. þetta er talið fyrst og fremst borið fram vegna Landsvirkjunar, að það þurfi að setja ákvæði í lög um það að Landsvirkjun hafi ekki heimild til að ákveða sína gjaldskrá. En samkv. lögum um Landsvirkjun hafði Landsvirkjun þessa heimild. Nú var það að þegar þetta mál bar að á síðasta þingi, þá var nýlokið að ganga frá samningum milli Landsvirkjunar og Laxárvirkjunar um sameiningu. Þar bar þetta mál mjög á góma og var sett sem skilyrði í þeirri samningagerð að ekki yrði hróflað við valdi Landsvirkjunar í þessu efni. Það var ekki heldur gert samkv. lögunum um Landsvirkjun, sem samþykkt voru á síðasta þingi eða 14. mars 1983. Í þeim lögum segir í 13. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Stjórn Landsvirkjunar setur að fenginni tillögu Þjóðhagsstofnunar gjaldskrá fyrir Landsvirkjun.“ Ríkisstj. á ekki að koma þarna að málum. Þetta er í lögum sem sett voru á síðasta þingi og þetta er ákvæði sem sérstaklega var samið um. Þess vegna benti ég á það, þegar frv. ríkisstj. um breytingar í þessum efnum var lagt fram á síðasta þingi, að það stangaðist á við það sem samið hefði verið um við sameiningu Laxárvirkjunar og Landsvirkjunar og stangaðist á við stjfrv. að nýjum lögum um Landsvirkjun á þann veg sem ég hef nú þegar greint frá. Með tilliti til þessa þykir mér einsýnt að það eigi að fara um örlög þessara brbl. á þann veg sem hæstv. iðnrh. lagði til.

Um eitt er ég ekki sammála hæstv. iðnrh. Hann lagði til að þessu máli yrði vísað til fjh.- og viðskn. Það kemur stundum fyrir að það getur verið álitamál í hvaða nefnd eigi að vísa einstökum frumvörpum eða málum Alþingis. En það er mjög sjaldan, það eru hreinustu undantekningar. Venjulega liggur þetta alveg ljóst fyrir. Í þessu tilfelli getur það ekki legið ljósar fyrir að það ber að vísa þessu frv. til hv. iðnn. Hv. iðnn. hefur alltaf fjallað um og á að fjalla um mál sem varða orkuveiturnar, hvort sem það varðar gjaldskrár eða annað svo sem rafveiturnar eða orkuveiturnar. Þessum málum hefur alltaf verið vísað til iðnn. Að sjálfsögðu var það svo á síðasta þingi þegar frv. því sem þá lá fyrir um þetta efni var vísað til hv. iðnn.