06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3380 í B-deild Alþingistíðinda. (2900)

179. mál, eftirlitsnefnd með framkvæmd fjárlaga

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Virðulegur þm. Guðmundur Einarsson, 4. landsk. þm., hefur á þskj. 323 beint til mín fsp. sem hann hefur þegar lesið upp og ég sé ekki ástæðu til að lesa þær aftur. En tilefni fsp. hans er frétt í Tímanum frá 4. jan., ef ég tók rétt eftir, þar sem ég gat um hvernig starfsreglu ég hef hugsað mér að hafa í fjmrn. meðan ég er fjmrh. Ég vil taka fram að ég tel það frumskyldu fjmrh. bæði að gera fjárlög og fylgjast með framkvæmd þeirra.

Ég hef skipað eftirlitsnefnd fjmrn. með framkvæmd fjárlaga. Segja má að hún sé eins konar innanhúsnefnd mér til ráðuneytis. Ég óskaði eftir því að ríkisendurskoðun, hagsýslustjóri og ráðuneytisstjóri fjmrn. ættu aðild að þeirri nefnd ásamt formanni og varaformanni fjvn.

Viðfangsefni, sem ég hef beðið þennan samstarfshóp að huga að, eru m. a. þessi: Hvernig tryggja skuli nauðsynlegt eftirlit með inn- og útgreiðslum úr ríkissjóði, m. a. með gerð greiðsluáætlana innan fjárlagaársins. Ganga eftir að rekstur ríkiskerfisins verði í samræmi við þær greiðsluáætlanir. Að leita eftir og hafa samstarf um það við rn. og stofnanir að sá fyrirhugaði sparnaður, sem kveðið er á um í fjárlögum ársins 1984, nái fram að ganga. Að gera tillögur til fjmrh. um þær nauðsynlegu breytingar sem gera þarf á tekna-, gjalda- og lánahlið ríkissjóðs svo áformum ríkisstjórnarinnar, er varða ríkisfjármálin, verði náð. Að leita eftir og hafa samstarf við viðkomandi aðila um framkvæmd láns- og fjárfestingaráætlunar fyrir árið 1984. Að gera tillögur til fjmrh. um áframhaldandi endurskipulagningu ríkisútgjalda sem hafi það að markmiði að draga úr ríkisumsvifum. Jafnframt að vinna að áframhaldandi bættri skipan eftirlits og aðhaldsaðgerða í ríkisfjármálum.

Starfshópurinn hefur hvorki vald né ábyrgð. Hins vegar starfa embættismennirnir, sem í hópnum sitja, á mína ábyrgð og mun ég stuðla að framgangi allra góðra tillagna sem frá honum koma. Ég hef ekki rætt um þetta samstarf sérstaklega við fjvn. Skv. lögum nr. 13/1975 skal Ríkisendurskoðun fylgjast með framkvæmd fjárlaga í umboði Alþingis. Ég er ekki að breyta því eftirliti heldur er reynt að tryggja að framámenn fjvn. fái upplýsingar um stöðu ríkismála reglulega og geti fylgst með þróun þeirra mála og að sjálfsögðu á seinna stigi, eins og nú er komið fram, alþm. allir.