06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3382 í B-deild Alþingistíðinda. (2904)

179. mál, eftirlitsnefnd með framkvæmd fjárlaga

Lárus Jónsson:

Herra forseti. Ég verð að játa að stundum á ég svolítið bágt með að fylgja rökum ákveðinna hv. þm. Það kom upp í huga minn núna að eitt af aðalbaráttumálum Bandalags jafnaðarmanna mun hafa verið að þingmannanefndir fylgdust með framkvæmd laga. Ég get ekki komið þeim málflutningi heim og saman við það sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta gat sem menn eru að tala um þessa dagana. Það hefur verið upplýst af hæstv. fjmrh. að Alþingi verður gefin um þetta skýrsla á næstunni. En í því sambandi vil ég vekja athygli á því að árið 1983 voru aukafjárveitingar veittar sem námu 25%, fjórðungi, fjárlaga. Raunveruleg útgjöld ríkissjóðs fóru fjórðung fram úr fjárlögum. Ef það verða ekki nema 10% núna get ég ekki séð að þetta sé stærsta gat í sögu þjóðarinnar í fjárlögum, eins og hv. ,þm. Ólafur Ragnar Grímsson reyndi að færa rök að áðan.

En ég vil vekja athygli hv. þm. á því af því að aðild okkar hv. þm. Guðmundar Bjarnasonar að þessari nefnd er til umr., að svo lengi hefur starfað hér svokölluð undirnefnd fjvn. að ég held að hún hafi verið skipuð í tíð Magnúsar Jónssonar fyrrv. fjmrh. og var lengst af skipuð fjórum þm. úr öllum þeim flokkum sem átt hafa sæti á Alþingi fram að þinginu nú. Þessi nefnd starfar á vegum og ábyrgð fjmrh., er skipuð af honum en í samráði við þingflokkana. Hún hefur unnið að ýmsum eftirlitsstörfum með framkvæmd fjárlaga, t. d. farið mjög ítarlega yfir veittar stöðuheimildir, hvort farið sé eftir þeim heimildum eða ekki o. s. frv. Þessi nefnd, sem fjmrh. óskaði eftir að settist á laggir, er á hans ábyrgð, starfar á hans ábyrgð. Ég get ekki séð að það rugli eitthvað kerfinu þó að tveir alþm. sitji við hliðina á embættismönnum í þessu efni. Það sýnist kannske sitt hverjum um það. En fordæmi eru, eins og ég segi, fyrir því að ráðh. óski eftir því og skipi ákveðna menn til að fylgjast með framkvæmd fjárlaga. Þetta hefur gerst mjög lengi og allir fjmrh., sem setið hafa síðan, hafa óskað eftir slíku.