06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3397 í B-deild Alþingistíðinda. (2922)

425. mál, afdrif nauðgunarmála

Fyrirspyrjandi (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Nauðgun telst til alvarlegustu brota og á það sammerkt með manndrápi og meiri háttar líkamsmeiðingum að það getur varðað allt að ævilangri fangelsisvist ef brotið sannast. Eðli slíkra brota er hins vegar slíkt, að kona sem orðið hefur fyrir nauðgun er í mun verri aðstöðu en þolendur annars konar brota. Ræður þar miklu viðhorf samfélagsins, sem veldur því jafnvel að þolandi treystir sér alls ekki til þess að kæra verknaðinn.

Enskar og bandarískar kannanir benda til þess, að mikill meiri hluti nauðgunarbrota sé ekki kærður. Til þess geta legið ýmsar ástæður sem ekki verða raktar til hlítar hér og nú. En ein meginástæðan mun vera sú, að konur treysta sér ekki til að ganga í gegnum þá niðurlægingu sem fylgir kæru og rannsókn mátsins. Þá er algengt að brotaþoli treysti sér ekki til að kæra af hlífisemi við afbrotamanninn, sem hún í mörgum tilvikum þekkir. Enn má nefna þá ástæðu, sem e. t. v. er óhugnanlegust, og hún er sú, að kona sem verður fyrir nauðgun á það jafnvel á hættu að fjölskylda og vinir snúi við henni baki. Hún kýs því að láta kyrrt liggja, særð á líkama og sái. Það er heldur alls ekki víst að kæra leiði til ákæru. Skortur á sönnunum veldur því oft að kæra er látin niður falla. Sé konan ekki blá og marin, í rifnum fötum og helst með sönnun verknaðarins í fæðingarvegi sínum getur sönnunarbyrðin reynst henni óviðráðanleg. Stöðug upprifjun hroðalegs atburðar getur reynst henni um megn og stundum kýs hún heldur að ljúka málinu með sátt en að freista þess að fá afbrotamanninn dæmdan.

Til þess að varpa örlitlu ljósi á þessi mál hef ég lagt fram fsp. til dómsmrh. á þskj. 356, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

1. Hversu oft hefur verið kært fyrir nauðgun síðan Rannsóknarlögregla ríkisins var sett á stofn árið 1977?

2. Hve margar kærur hafa leitt til ákæru?

3. Hve margar kærur hafa verið felldar niður vegna skorts á sönnunum?

4. Hve mörgum málum hefur lokið með sátt og hve háar upphæðir er um að ræða í hverju tilviki?

5. Hve margar ákærur hafa leitt til dóms á ofangreindu tímabili og hver hefur refsing orðið í hverju tilviki?