06.03.1984
Sameinað þing: 61. fundur, 106. löggjafarþing.
Sjá dálk 3397 í B-deild Alþingistíðinda. (2923)

425. mál, afdrif nauðgunarmála

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 7. landsk. þm. hefur lesið hér upp spurningar sem hún ber fram til mín á þskj. 356. Vil ég svara þeim á eftirfarandi hátt.

1. Rannsóknarlögregla ríkisins hefur skráð alls 126 kærur fyrir nauðgun frá 1. júlí 1977 til 31. des. 1983. Af þeim kærum hafa 40 ekki farið lengra af ýmsum ástæðum, tvær hafa verið sendar til annarra umdæma, tvær eru enn í rannsókn, en 82 hafa verið sendar ríkissaksóknara til frekari meðferðar.

2. Af þeim tilvikum sem kærð hafa verið á tímabilinu frá 1. júní 1977 til 31. des. 1983 hafa 58 leitt til ákæru. 3. Eins og fram kemur af því sem rakið er hér að framan hafa ríkissaksóknara borist 82 kærur frá Rannsóknarlögreglu ríkisins og auk þess nokkrar frá öðrum umdæmum, en talning á þeim liggur ekki fyrir. Ákærur eru hins vegar gefnar út vegna 58 tilvika. Þannig hafa a. m. k. 24 mál eigi leitt til útgáfu ákæru af hálfu ríkissaksóknara, auk þeirra 40 kæra þar sem rannsóknarlögreglan hefur að lokinni rannsókn ekki talið þörf á frekari málsmeðferð.

Ríkissaksóknari hefur gert grein fyrir helstu ástæðum þess að ekki kemur til útgáfu ákæru vegna kæru. Eru þær þessar:

a. Ef fram komin sakargögn þykja eigi vera nægileg eða líkleg til sakfellis hlýtur mál að falla niður.

b. Þó að sakargögn þyki eigi veita sönnun fyrir nauðgun getur verið að þau veiti upplýsingar um önnur brot, svo sem líkamsárás, frelsisskerðingu og fleira og það orðið grundvöllur fyrir að gefa út ákæru fyrir þau brot.

c.. Verið getur að mál sé fellt niður vegna þess að sönnun sakar bresti á síðara stigi, t. d. vegna þess að vitni hvikar frá fyrri framburði sínum.

d. Komið hefur fyrir að sá sem kærir nauðgun viðurkenni síðar að hafa lagt fram vísvitandi ranga kæru. Er þá komið nægt tilefni til þess að sá sé ákærður fyrir rangar sakargiftir.

Eigi eru tiltækar upplýsingar um tölu mála sem afgreidd hafa verið með þessum hætti.

4. Af hálfu ákæruvaldsins verður nauðgunarmáli ekki lokið með dómsátt. Hjá lögreglu eða dómsvaldi liggja ekki fyrir upplýsingar um ástæður þess, að kæra fyrir nauðgun er dregin til baka.

5. Af þeim 58 tilvikum sem ákært hefur verið fyrir hafa 44 þegar leitt til dóms, en 14 eru ódæmd. Refsingar hafa verið mjög mismunandi en algengasta refsing er fangelsi í 12–18 mánuði. Í, tveimur tilvikum hefur maður verið dæmdur fyrir fleiri brot í sama dómi og hefur refsing þá orðið 21/2 árs fangelsi og í einu tilviki var dæmt í 3 ára fangelsi.